Það er mat stjórnar Festi að þörf sé að endurskoða starfsreglur stjórnar, að því er fram kemur í tilkynningu fyrirtækisins til Kauphallar í dag. Þórður Már Jóhannesson óskaði eftir því í síðustu viku að láta af störfum sem stjórnarmaður í félaginu og um leið sem stjórnarformaður eftir að kona steig fram í viðtali og greindi frá meintu kynferðisbroti Þórðar Más.
„Í síðustu viku birtist viðtal í fjölmiðlum við unga konu sem lýsti meintu kynferðisbroti gegn sér og var þungbært að heyra um hennar reynslu. Skýr skilaboð hafa komið frá samfélaginu um að fyrirtæki sem tengjast slíkum málum bregðist fyrr við og taki á málum með skýrari og ákveðnari hætti.
Umrætt mál var litið mjög alvarlegum augum af stjórn Festi frá því hún heyrði af því fyrst og var það tekið til skoðunar á vettvangi hennar í samræmi við þau lög, samþykktir og reglur sem henni ber að starfa eftir. Frá upphafi var ljóst að innan þessa ramma hafði stjórn lítið rými til að bregðast við. Þegar málið varð opinbert með afgerandi hætti með áðurnefndu viðtali í byrjun janúar sagði fyrrverandi stjórnarformaður af sér,“ segir í tilkynningu Festi til Kauphallar.
„Að fenginni þessari reynslu er það mat stjórnar Festi að þörf sé á að endurskoða starfsreglur stjórnar. Markmið þeirrar endurskoðunar er að bæta reglur og gera vinnulag skýrara ef fram koma upplýsingar sem benda til mögulegs vanhæfis stjórnarmanna og hefur stjórn ákveðið að hefja þá vinnu strax. Festi er með skýrar reglur fyrir alla stjórnendur og starfsmenn félagsins og dótturfélaga sem verða lagðar til grundvallar við endurskoðun á starfsreglum stjórnar. Það er markmið og vilji stjórnar Festi að vera ætíð til fyrirmyndar um góða stjórnarhætti og mun niðurstaða endurskoðunar á starfsreglum stjórnar verða kynntar á aðalfundi 22. mars n.k.
Stjórn Festi fordæmir allt ofbeldi og telur mikilvægt að hlustað sé á þolendur. Það er skylda okkar að breytast með samfélaginu og í sameiningu eigum við að búa til öruggara umhverfi fyrir okkur öll,“ segir enn fremur í tilkynningunni.
Gekk erfiðlega að fá svör frá stjórn Festi
Málið komst í hámæli í síðustu viku þegar Vítalía Lazareva fór í viðtal hjá Eddu Falak í hlaðvarpi hennar Eigin konum og greindi hún frá reynslu sinni af Þórði Má í sumarbústaðaferð árið 2020. Hún nafngreindi hann ekki í viðtalinu en hún hafði áður gert það í skiltum á Instagram síðasta haust.
Kjarninn leitaði svara hjá stjórn Festi strax í nóvember og spurði hvort vitneskja væri innan stjórnar varðandi þetta mál og hvort stjórnin hygðist bregðast við með einhverjum hætti. Eftir margar ítrekanir svaraði Guðjón Reynisson varaformaður stjórnar þann 17. desember. Í svari hans sagði: „Það er rétt að umfjöllunin sem spurt er um hefur verið til skoðunar, en við getum ekki tjáð okkur að svo stöddu.“ Vísar hann þarna í umfjöllun Stundarinnar frá 17. nóvember.
Stjórn Festi hélt stjórnarfund á fimmtudaginn eftir að málið komst í hámæli í fjölmiðlum og greindi stjórnin frá því samdægurs að Þórður Már hefði óskað eftir því að láta af störfum sem stjórnarmaður í félaginu og um leið sem stjórnarformaður. „Stjórn féllst á erindið. Í kjölfarið skipti stjórn með sér verkum upp á nýtt. Guðjón Reynisson var kjörinn nýr formaður stjórnar og Margrét Guðmundsdóttir varaformaður,“ sagði í tilkynningu frá Festi.