Fjármálaeftirlit Seðlabankans telur að stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna hafi ekki gætt að því að meta hæfi einstakra stjórnarmanna við undirbúning og ákvörðun um hvort sjóðurinn tæki þátt í hlutafjárútboði Icelandair Group. Þetta kemur fram í niðurstöðu bankans vegna athugunar á stjórnarháttum hjá sjóðnum, sem birt var í dag.
Þar segir einnig að Seðlabankinn hafi farið fram á að stjórn lífeyrissjóðsins tryggi framvegis að fullnægjandi umræða fari fram á stjórnarfundum um hæfi stjórnarmanna þegar tilefni sé til lögum samkvæmt og að stjórnarmönnum verði tryggður kostur á að koma á framfæri upplýsingum sem varða hæfi þeirra í tengslum við þau mál sem eru til umræðu, eftir því sem tilefni er til hverju sinni.
Einnig segir í niðurstöðu fjármálaeftirlits Seðlabankans að upplýsingagjöf sjóðsins til bankans vegna athugunarinnar á stjórnarháttum sjóðsins hafi verið „ábótavant og misvísandi“. Það hafi meðal annars tafið afgreiðslu málsins.
Athugun fjármálaeftirlitsins hófst í september í fyrra, vegna álitamála sem komu upp í tengslum við undirbúning ákvörðunar stjórnar sjóðsins um hvort taka skyldi þátt í hlutafjárútboði Icelandair Group eða ekki.
Til athugunar var hvort stjórn lífeyrissjóðsins hefði gætt að því með fullnægjandi hætti að meta hæfi einstakra stjórnarmanna við undirbúning og ákvörðun um hvort sjóðurinn tæki þátt í hlutafjárútboðinu í samræmi við kröfur laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða og stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Seðlabankinn aflaði meðal annars upplýsinga og gagna um ákvörðunarferli stjórnar sjóðsins vegna útboðsins og átti fundi með stjórnarmönnum sjóðsins þar sem farið var yfir sömu málefni.