Formenn stjórnarandstöðuflokkanna hafa lagt fram þingsályktunartillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Þau vilja að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla 26. september 2015 um hvort halda skuli áfram aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið.
Í þingsályktunartillögunni kemur fram spurning sem þingmennirnir vilja að verði borin upp í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Hún hljómar svona: „Vilt þú að Ísland taki upp þráðinn í viðræðum við Evrópusambandið með það að markmiði að gera aðildarsamning sem borinn yrði undir þjóðina til samþykktar eða synjunar?“
Í þingsályktunartillögunni kemur fram að stjórnarandstöðuflokkarnir hafi ólíka afstöðu til aðildar að Evrópusambandinu. „Hins vegar er sameiginleg niðurstaða flutningsmanna sem koma úr öllum flokkum stjórnarandstöðunnar að þetta mál sé af slíkri stærðargráðu að eðlilegt sé að leita leiðsagnar þjóðarinnar um framhald þess. Af þeim sökum er lögð þung áhersla á að tillagan verði afgreidd á þessu þingi þannig að unnt verði að sækja þá leiðsögn.“
ASÍ vill þjóðaratkvæði
Miðstjórn Alþýðusambands Íslands hefur einnig sent frá sér ályktun um Evrópumál og vill að haldin verði þjóðaratkvæðagreiðsla um málið. „Þetta er svo risavaxið álitamál um framtíðarmöguleika okkar þjóðar, að það hlýtur að vera réttmæt krafa að þjóðin sjálf fái að segja sitt álit. Það hlýtur einnig að vera lágmarkskrafa til ráðherra í ríkisstjórn að þeir standi við loforð sem þeir marg endurtóku fyrir kosningar. Við hvað er ríkisstjórnin hrædd?“
Í ályktuninni segir að útspil utanríkisráðherra sé með slíkum ólíkindum að undrun sæti. „Í þeim einbeitta ásetningi sínum að slíta aðildarviðræðum Íslands við ESB hunsaði hann leikreglurnar, hann hunsaði sjálft Alþingi Íslendinga sem hóf þess vegferð á sínum tíma.“
Í dag heldur áfram umræða um Evrópumál, og munnlega skýrslu utanríkisráðherra, á Alþingi.