Í útboðsgögnum Play kemur fram að bæði Birgir Jónsson, forstjóri flugfélagsins, og Einar Örn Ólafsson, stjórnarformaður og næst stærsti einstaki hluthafi félagsins, séu til rannsóknar hjá embætti héraðssaksóknara. Birgir hefur verið til rannsóknar frá því í september 2018 vegna fjármagnstekna sem hann aflaði á árum áður og hvort að þær tekjur hafi fallið til eftir að hann færði heimilisfesti sitt frá Rúmeníu til Íslands árið 2013. Héraðssaksóknari rannsakar auk þess málið og er þess sérstaklega getið í skráningarlýsingu að málið sé enn opið hjá því embætti.
Í tilfelli Einars Arnar er um að ræða hið svokallaða Skeljungsmál, sem á rætur sínar að rekja til þess að Íslandsbanki kærði Einar og fjóra aðra einstaklinga til embættis sérstaks saksóknara fyrir fimm árum síðan vegna gruns um lögbrot í tengslum við kaup og sölu á hlutum í Skeljungi fyrir og eftir bankahrunið. Einar Örn var starfsmaður Glitnis banka, fyrirrennara Íslandsbanka, þegar salan átti sér stað og var síðar ráðinn forstjóri Skeljungs af nýjum eigendum félagsins. Á meðal þeirra brota sem grunur er um að hafi verið framin eru umboðssvik. Samkvæmt heimildum Kjarnans er rannsókn málsins langt komin og búist er við því að niðurstaða um hvort ákært verði í málinu eða það verði fellt niður liggi fyrir innan tíðar.
Í skráningarlýsingu Play kemur einnig fram að María Rún Rúnarsdóttir, sem situr í stjórn Play, hafi verið til skattrannsóknar frá því á síðasta ári vegna skattskila hennar á árunum 2011 og 2012.
Kannað hvort leyfi Play byggi á stolnum gögnum
Því eru tveir af fimm stjórnarmönnum Play og forstjóri félagsins í einhverskonar rannsókn hjá yfirvöldum sem stendur.
Til viðbótar var greint frá því á forsíðu Fréttablaðsins í morgun að fyrirtæki Michelle Ballarin, USAerospace Partners, sem keypti hluta eigna WOW air eftir að það félag fór í þrot, hafi beðið um að tekin yrði skýrsla af alls ellefu manns sem tengdust WOW air. Tilgangur þessa er að fá á hreint hvað hafi orðið um flugrekstrarhandbækur félagsins, sem eru að mati kaupandans ein verðmætasta eignin sem WOW air átti og forsenda þess að flugfélag geti fengið leyfi sem flugrekandi hjá Samgöngustofu. Þessar handbækur var hins vegar hvergi að finna í þeim gögnum sem fyrirtæki Ballarin fékk afhent.
Á vef Fréttablaðsins í dag er svo fjallað um tölvupóst sem Sveinn Andri Sveinsson, skiptastjóri þrotabús WOW air, hafi sent til Samgöngustofu 3. júní síðastliðinn þar sem hann segist hafa fengið upplýsingar um að stofnendur Play hafi við umsókn um flugrekstrarleyfi hagnýtt sér og lagt fram í eigin nafni afritaðar flugrekstrarhandbækur WOW air.
Ætla að safna yfir fjórum milljörðum
Hlutafjárútboð Play hefst á fimmtudag og stendur yfir til loka vinnudags á föstudag. Stefnt er að því að safna 4-4,4 milljörðum króna og skrá félagið í kjölfarið á First North markaðinn.
Í útboðslýsingu félagsins kemur fram að þessi fjármögnun muni hjálpa lausafjárstöðu þess enn frekar, en Play segist nú þegar hafa náð að safna tæpum sjö milljörðum króna í fjármögnun.
Búist er við að almenn viðskipti með hluti í Play hefjist föstudaginn 9. júlí.
Í útboðslýsingu segir að Play búist við því að selja selja jafnmörg sæti og WOW air gerði árið 2017 innan fjögurra ára. Það stefnir á að hefja flug til Bandaríkjanna næsta vor, en mun halda starfsmannakostnaði í lágmarki með því að láta starfsmenn sína vinna lengur en starfsmenn annarra flugfélaga og taka færri frídaga en starfsmenn WOW air tóku.