Þrjár umsóknir bárust um embætti íslensks dómara við Mannréttindadómstól Evrópu en umsóknarfrestur rann út 14. janúar. Umsækjendur um embættið eru þau Jónas Þór Guðmundsson hæstaréttarlögmaður, Oddný Mjöll Arnardóttir landsréttardómari og Stefán Geir Þórisson hæstaréttarlögmaður, samkvæmt því sem fram kemur í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu.
Þing Evrópuráðsins tekur ákvörðun um það hvert þeirra verður fyrir valinu sem íslenski dómarinn við réttinn, en Evrópuráðið fór þess á leit við íslensk stjórnvöld að þau myndu tilnefna þrjú dómaraefni. Það virðist því ekki vera þörf á því að skipa sérstaka hæfnisnefnd hér á landi til þess að meta umsóknirnar sem bárust um dómaraembættið í Strassborg, þar sem umsóknirnar sem bárust voru akkúrat þrjár.
Mannréttindadómstóll Evrópu fjallar um mál sem til hans er vísað af einstaklingum og samningsaðilum vegna meintra brota á ákvæðum mannréttindasáttmála Evrópu eða samningsviðaukum við hann. Dómstóllinn er skipaður einum dómara frá hverju samningsríkja.
Róbert Spanó hefur verið íslenski dómarinn við réttinn allt frá árinu 2013. Hann var kjörinn forseti MDE á vordögum 2020, en kjörtímabili hans sem dómara við MDE lýkur þann 31. október næstkomandi.
Oddný Mjöll Arnardóttir er dómari við Landsrétt. Hún er einnig rannsóknaprófessor við Háskóla Íslands og hefur verið prófessor við lagadeild skólans frá 2012, en var þar áður prófessor við lagadeild Háskólans í Reykjavík frá 2006. Ef hún hreppir embættið yrði hún fyrsta konan til þess að verða sett dómari við MDE fyrir hönd Íslands.
Jónas Þór Guðmundsson hæstaréttarlögmaður er núverandi stjórnarformaður Landsvirkjunar og hefur verið allt frá árinu 2014. Hann er einnig fyrrverandi formaður kjararáðs og hefur verið fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í þessum embættum, en hann hefur gegnt margvíslegum trúnaðarstörfum fyrir flokkinn. Hann gegndi formennsku í stjórn Lögmannafélags Íslands um tíma.
Stefán Geir Þórisson hæstaréttarlögmaður hefur reynslu af dómstörfum, en hann er um þessar mundir varadómandi við endurupptökudóm. Áður var Stefán Geir skipaður dómari við Alþjóðlega íþróttadómstólinn (CAS) í borginni Lausanne í Sviss til fjögurra ára frá 1. janúar 2017. Stefán hefur einnig sinnt trúnaðarstörfum fyrir Knattspyrnusamband Íslands um árabil og sat meðal annars í stjórn KSÍ frá 2007-2009.