Heildarhagnaður Stoða á fyrri hluta ársins nam 12,6 milljörðum króna og er hann aðallega tilkominn vegna hækkunar á hlutabréfaverði skráðra félaga í Kauphöllinni. Þetta kemur fram í nýbirtu árshlutauppgjöri félagsins.
Samkvæmt reikningnum keypti félagið eigin bréf fyrir 1,4 milljarða króna á tímabilinu. Heildarvirði eigin fjár þess hefur því hækkað um rúma 11 milljarða á tímabilinu og nemur nú tæpum 43 milljörðum króna.
Hlutabréf hækkað um helming í virði
Langstærsti hluti fjárfestinga Stoða, eða um 35 milljarðar króna af 39 milljörðum, eru í skráðum félögum hérlendis. Þær voru nær allar í þremur félögum - Arion banka, Kviku og Símanum, í lok júní. Stoðir er stærsti einstaki hluthafi Símans og Kviku banka, auk þess sem félagið er stærsti einkafjárfestirinn í Arion banka.
Samkvæmt upplýsingum frá Keldunni hefur virði eignarhlutar Stoða í þessum félögum hækkað um 12,7 milljarða það sem af er ári. Þar vega þyngst bréfin í Arion banka, sem hafa hækkað um tæp 83% frá ársbyrjun, en hlutabréf í Símanum og Kviku hafa einnig hækkað um 40 prósent á tímabilinu. Samanlagt hefur virði eignarhluta Stoða í þessum félögum aukist um rúman helming frá ársbyrjun.
Hagnaður Stoða á síðasta árshelmingi er tæplega tvöfalt meiri en hagnaður félagsins á öllu síðasta ári. Leita þarf aftur til ársins 2014 til að finna sambærilegan hagnað á einu ári og á síðasta árshelmingi. Alls hefur eigið fé félagsins rúmlega þrefaldast á fjórum og hálfu ári, úr 12 milljörðum í 42 milljarða króna.
Keyptu í Bláa lóninu
Líkt og Kjarninn greindi frá í síðustu viku keyptu Stoðir hlut Helga Magnússonar, eiganda Fréttablaðsins, í Bláa lóninu. Kaupverðið var trúnaðarmál, en miðað við verðmöt hluthafa fyrirtækisins má ætla að Helgi hafi selt hlutinn sinn á 2,3 til 2,5 milljarða króna.
Eignarhaldsfélagið S121 ehf., sem er í eigu Jóns Sigurðssonar, forstjóra Stoða, ásamt Björgu Fenger eiginkonu hans og fjölskyldu hennar og öðrum fjárfestum með tengsl við gamla FL Group, á meirihluta í Stoðum. Á meðal annarra hluthafa eru hlutabréfasjóðir á vegum Stefnis, Íslandsbanki, og Mótás hf., sem er í eigu Bergþórs Jónssonar og Fritz Hendrik Berndsen. Lárus Welding, fyrrverandi bankastjóri Glitnis, á einnig hlut í félaginu ásamt eiginkonu sinni, Ágústu Margréti Ólafsdóttur.