Íbúahópurinn Vinir Kópavogs virðast ætla að vinna mikinn sigur í kosningum til bæjarstjórnar í Kópavogi, en samkvæmt fyrstu tölum úr bænum er framboðið með 17,2 prósent fylgi og einungis Sjálfstæðisflokkurinn stærri.
Þetta eru miklar vendingar en ef til vill var þetta niðurstaðan sem búast mátti við, miðað við skoðanakönnun sem félagið lét gera fyrir sig á meðal bæjarbúa í aðdraganda þess að það ákvað að taka þátt í sveitarstjórnarkosningunum.
Niðurstöður hennar voru þær að rúm 17 prósent Kópavogsbúa teldu líklegt að þeir myndu íhuga að kjósa sérframboð undir nafni Vina Kópavogs í bæjarstjórnarkosningunum.
Kjarninn sagði frá þeirri könnun í febrúarmánuði, en þá var íbúahópurinn ekki búinn að taka ákvörðun um að bjóða fram. Útkoman í Kópavogi samkvæmt fyrstu tölum er þannig í samræmi við bestu mögulegu niðurstöðuna sem hægt hefði verið að lesa út úr könnun framboðsins.
Á fundi sem félagið hélt í Smáranum um miðjan febrúar kom fram tillaga um að bjóða fram undir hatti Miðflokksins, en hún var felld einum rómi og var það afstaða fundarmanna að ef félagið færi fram yrði það óháð flokkspólitískum línum.
Hópur íbúa sem eru óánægðir með skipulagsmál
Félagið Vinir Kópavogs er sprottið upp úr óánægju hóps bæjarbúa með skipulagsmál í bænum, ekki síst uppbyggingu þéttrar íbúabyggðar við Hamraborg og á Kársnesi.
Í könnuninni frá því í febrúar, sem félagið lét Gallup framkvæma, var einnig spurt um hvernig bæjarbúum litist á nýtt miðbæjarskipulag Kópavogsbæjar.
Var niðurstaðan á þá leið að tæp 38 prósent sögðu að þeim litist illa á áformin, en rúmum 34 prósentum vel. 28 prósent sögðust hlutlaus.