Heildarstuðningur hins opinbera til einkennandi greina ferðaþjónustu nam 34,8 milljörðum króna árið 2020. Rekstur gististaða var sá flokkur sem naut mests opinbers stuðnings, alls 11,7 milljörðum króna og þar á eftir kom farþegaflug með 7,5 milljarða króna. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri áfangaskýrslu Rannsóknamiðstöðvar ferðamála.
Í fyrra námu heildarfjárútlát hins opinbera vegna mótvægisaðgerða fyrir einstaklinga og fyrirtæki um 70 milljörðum króna. Hlutur ferðaþjónustunnar í þessari fjárhæð er því um helmingur.
Gerður er greinarmunur á aðgerðum sem ætlaðar voru rekstraraðilum og aðgerðum sem ætlaðar voru einstaklingum í skýrslunni. Þær aðgerðir sem ætlaðar voru einstaklingum voru hlutabótaleið og greiðsla launa í sóttkví. Hlutabótaleiðin er engu að síður sögð hafa komið til móts við rekstraraðila og launþega, því hún leiddi til þess að fyrirtæki gátu haldið ráðningarsambandi við starfsfólk. Hlutabótaleiðin var sú aðgerð sem flestir innan ferðaþjónustunnar nýttu sér árið 2020.
Alls námu greiðslur hlutabóta til starfsfólks í einkennandi greinum ferðaþjónustu 10,8 milljörðum árið 2020. Mest fór til starfsfólks í veitingasölu og þjónustu, rúmlega 3,5 milljarðar, en næst mest til starfsfólks gististaða, 3,1 milljarður. Um 44 prósent greiddra hlutabóta rann til starfsfólks í einkennandi greinum ferðaþjónustunnar en heildarupphæð greiddra hlutabóta á árinu 2020 nam tæpum 24,5 milljörðum króna.
Ferðaþjónustufyrirtæki fengu úthlutað um 65 prósent af þeim stuðningi sem einungis var ætlaður rekstraraðilum, utan sjálfkrafa frestunar á skattgreiðslum á árinu 2020. Það er um 22,7 milljarðar króna. Sé horft til heildarstuðnings, með sjálfkrafa skattfrestunum, nam stuðningurinn 23,9 milljörðum króna sem er um 53 prósent af heildarfjármagninu í málaflokknum.
Tapaður virðisauki greinarinnar 149 milljarðar í fyrra
Ferðaþjónustan varð fyrir miklum búsifjum árið 2020. Samdráttur í komum erlendra ferðamanna mældist 76 prósent en á árinu kom tæplega hálf milljón ferðamanna til landsins. Þar af komu 70 prósent þeirra á fyrstu þremur mánuðum ársins. Fjöldi þeirra sem starfaði í ferðaþjónustu dróst saman um 48 prósent og velta greinarinnar dróst saman um 59.
Í skýrslunni er spáð fyrir um hvað hefði gerst ef ekki hefði skollið á heimsfaraldur. Spár höfðu gert ráð fyrir um tveimur milljónum ferðamanna til landsins og því er áætlað að tapaður virðisauki í ferðaþjónustu vegna heimsfaraldurs kórónuveiru hafi verið um 149 milljarðar króna.