Tekjustofnar sveitarfélaga vegna fiskeldis hafa ekki verið tryggðir í samræmi við eðli greinarinnar og því er gerð krafa um endurskoðun, að því er fram kemur í ályktun sem samþykkt var á Fjórðungsþingi Vestfirðinga sem haldið var á Ísafirði 22.-23. október.
„66. Fjórðungsþing Vestfirðinga skorar á stjórnvöld að endurskoða regluverk varðandi sjókvíaeldi. Eldi laxfiska í sjó er atvinnugrein í örum vexti á Vestfjörðum og er orðin ein af undirstöðuatvinnugreinum í fjórðungnum. Skýra þarf lagaumhverfið og opinbera gjaldtöku í greininni til að tryggja að þær tekjur sem fiskeldi skapar á Vestfjörðum renni til sveitarfélaganna þar sem sjókvíaeldi er stundað til að byggja upp grunninnviði sem svara kröfum samfélaganna og atvinnulífsins,“ segir í ályktuninni en hún var lögð fram fyrir hönd starfshóps um samfélagssáttmála í fiskeldi á Vestfjörðum.
Fjórar meginbreytingar á regluverki og gjaldtöku í kringum fiskeldið eru lagðar til í ályktun þingsins.
- Fiskeldissjóð sem samkeppnissjóð þarf að leggja niður en tryggja að fiskeldisgjaldið renni beint til innviðauppbyggingar þar sem eldið er stundað.
- Endurskoða þarf hafnargjöld, vörugjöld og aflagjöld til að þau skili viðunandi tekjum til þeirra sveitarfélaga sem þjónustuna veita og að gjaldtökuheimildir falli betur að þessari nýju atvinnugrein.
- Endurskoða þarf Umhverfissjóð sjókvíaeldis og tryggja að rannsóknir verði efldar og störfum fjölgað við rannsóknir í nærsamfélögum fiskeldis. Mikilvægt að niðurstöður rannsóknarsjóðsins séu birtar jöfnum höndum.
- Endurskoða þarf tekjur sveitarfélaga vegna eldiskvía og umsvifa í sjókvíaeldi á þeirra heimasvæði. Krafan er ekki að auka álögur á atvinnugreinina heldur að eðlilegur hluti tekna renni til uppbyggingar og viðhalds innviða sveitarfélaganna og skili sér beint til þeirra sveitarfélaga sem verða fyrir beinum áhrifum af sjókvíaeldi.
Kallað eftir nánu samráði við sveitarfélög
Jafnframt segir í ályktuninni að tryggja þurfi uppbyggingu grunninnviða á Vestfjörðum svo svæðið verði samkeppnishæft við aðra landshluta þannig að fyrirtæki og samfélög geti dafnað.
Mikilvægt sé að haft verði náið samráð við sveitarfélögin varðandi uppbyggingu grunninnviða og tekjustofna ríkis og sveitarfélaga varðandi fiskeldi.
Telur þingið að tryggja þurfi tekjur til þeirra sveitarfélaga þar sem sjókvíaeldi er stundað og einnig að skilja þurfi aðferðafræðina við tekjuöflun frá hefðbundinni gjaldtöku í sjávarútvegi. Þannig byggi núverandi gjaldtaka á hafnalögum sem eigi við löndun á villtum fiski, en einungis það sveitarfélag þar sem fiski er dælt af land fái tekjur af fiskeldi á grundvelli þeirrar löggjafar. Tryggja þurfi að hægt sé að taka gjald af mannvirkjum í sjó í formi fasteignagjalda eða aðstöðugjalda svo það sveitarfélag sem hýsir mannvirkin fái tekjur.
Bent er á að lögin nái ekki yfir það ef fiski er slátrað á sláturprömmum eða hann fluttur annað til slátrunar, þá fái sveitarfélög á Vestfjörðum engar tekjur. „Tekjur af þjónustubátum eru litlar þó þeir nýti þjónustu og hafnarmannvirki allan ársins hring. Engar tekjur eru af kvíum á fjörðum og því getur sveitarfélag með stórfellt eldi setið uppi með engar tekjur af nýtingu fjarðarins. Fóðri er nær öllu landað beint í pramma og því skapa þau aðföng engar tekjur til sveitarfélaganna. Þar þarf að endurskoða reglurum vörugjöld til að gæta samræmis við hafnir. Seiðaeldisstöðvar skila eingöngu tekjum í formi fasteignagjalda stöðvarinnar,“ segir í greinargerð með ályktuninni.
Óeðlilegur hvati sé í núverandi löggjöf
„Laga- og reglugerðaumhverfi sem sveitarfélögin vinna eftir varðandi fiskeldi hefur haft verulega neikvæð áhrif. Óeðlilegur hvati er í núgildandi löggjöf þannig að sveitarfélög keppast um að fá eldisfiski landað til sín á sama tíma og þjónustuhafnir í fiskeldi hafa litlar sem engar tekjur til að standa undir vaxandi umsvifum,“ segir í greinargerðinni og er bent á að stærstur hluti tekna komi á löndunarstað við sláturhús sem endurspegli ekki þá nýtingu mannvirkja og þjónustu sem eldið nýtir. Því sé mikilvægt að skýra forsendur gjaldtökunnar og samræma reglurnar á landsvísu.
Tekjustofnar sveitarfélaga vegna fiskeldis hafi ekki verið tryggðir í samræmi við eðli greinarinnar og því þurfi að ná utan um heildargjaldtöku af fiskeldi, skoða undir hverju tekjunum er ætlað að standa sem og hvernig þær tekjur skiptast á milli ríkis og sveitarfélaga. Sveitarfélög þar sem sjókvíaeldi er stundað þurfi skýrar heimildir til töku gjalda, að því er segir í greinargerð. Slík gjaldtaka þurfi að standa undir nauðsynlegum verkefnum sveitarfélaga og sjálfbærni hafna og samfélaga þar sem sjókvíaeldi fer fram.