Hlutabréfamarkaðir um nær allan heim hafa sýnt rauðar tölur lækkunar í dag og er svindli þýska bílaframleiðandans Volkswagen kennt um, að því er fram kemur í umfjöllun Wall Street Journal. S&P 500 vísitalan í Bandaríkjunum hefur lækkað um 1,5 prósent þegar þetta er ritaði, DAX vísitalan í Þýskalandi lækkaði um tæplega þrjú prósent og Nikkei vísitalan í Japan um tæplega tvö prósent.
Volkswagen hefur nú viðurkennt að hafa framleitt ellefu milljónir bíla og selt um allan heim með kerfi sem var ætlað að svindla á útblástursprófunum. Í fyrstu náðu innkallanirnar á bílum fyrirtækisins til 482 dísel bíla sem komu á götuna á árunum 2009 til 2015 í Bandaríkjunum, en nú er ljóst að málið er mun víðtækara.
Markaðsvirði Volkswagen hefur hrunið um þriðjung á tveimur dögum og gæti fyrirtækið fengið himinháar sektir vegna svindlsins. Bandarísk yfirvöld vilja sekta um 37.500 Bandaríkjadali fyrir hvert tilvik, og í tilfelli fyrstu tilvikanna sem uppgvötuðust þá gat sektin orðið 18 milljarðar Bandaríkjadala, eða sem nemur um 2.300 milljörðum króna.
Ljóst er að upphæðin getur orðið mun hærri, og jafnvel gert útaf við fjárhagsstöðu bílarisans. Þá hafa bandarísk yfirvöld tilkynnt um að sakamálarannsókn sé hafin en svindl sem þetta er litið mjög alvarlegum augum í Bandaríkjunum og gætu stjórnendur félagsins átt yfir höfði sér margra ára fangelsi.
Þess er nú beðið að staða mála hjá öðrum bílaframleiðendum verði greind, en grunur leikur á því að fleiri framleiðendur hafi einnig beitt svindli á útblástursprófunum, en þau tilfelli hafa ekki verið staðfest.
FT News: Volkswagen scandal causes car industry turmoil http://t.co/JonWwrfZls
— Financial Times (@FinancialTimes) September 22, 2015