Fjölmiðla- og fjarskiptafélagið Sýn hefur selt svokallaða óvirka farsímainnviði sína til ónefndra erlendra fjárfesta á yfir sex milljarða króna. Sýn leigir svo innviðina til baka frá nýjum eigendum. Frá þessu er greint í tilkynningu sem birt var í Kauphöll Íslands í nótt. Þar segir enn fremur að allur virkur farsímabúnaður verði áfram í eigu Sýnar. Með óvirkum innviðum er átt við t.d. rafkerfi og sendaturna í farsímakerfi fjarskiptafyrirtækja. Virki búnaðurinn er svo falinn í því sem sendarnir á turnunum bjóða upp á.
Samningarnir munu styrkja efnahagsreikning Sýnar og lausafjárstöðu félagsins, sem rekið hefur verið með tapi undanfarin ár. Þeir eru með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins.
Áður hefur verið greint frá því að sjóður í stýringu bandaríska framtakssjóðsins Digital Colony væri sá aðili sem væri að reyna að kaupa hina óvirku farsímainnviði Sýnar. Félagið hefur einnig haft áhuga á að kaupa slíka frá Nova og í september í fyrra greindi Kjarninn frá því að fjárfestar hefðu lagt fram óformlegar fyrirspurnir til Símans um möguleg kaup á Mílu, sem heldur utan um fjarskiptainnviði Símans, en að engar ákvarðanir hefðu verið teknar um söluna.
Þungur rekstur síðustu ár
Sýn tapaði 405 milljónum króna á síðasta ári. Það er töluvert minna tap en félagið skilaði af sér árið 2019, þegar það tapaði 1.748 milljónum króna. Samanlagt tap samstæðunnar á tveimur árum er því tæplega 2,2 milljarðar króna.
Árið 2019 réð mestu að virðisrýrnun viðskiptavildar vegna fjölmiðla samstæðunnar var færð niður um tæplega 2,5 milljarða króna, en á móti kom líka einskiptissöluhagnaður vegna sölu á færeyska félaginu P/F Hey upp á 872 milljónir króna.
Tekjur félagsins jukust um tæpan milljarð króna á milli ára og voru í heild 20,8 milljarðar króna á síðasta ári. Í fyrra féllu allar nýjar tekjur Sýnar til vegna dótturfélagsins Endor, upplýsingafyrirtækis í hýsingar- og rekstrarlausnum sem stýrir ofurtölvum, sem Sýn keypti í lok árs 2019, og kom inn í samstæðureikning félagsins á árinu 2020. Kaupverðið á Endor var 618 milljónir króna en getur enn tekið breytingum eftir afkomu þess, og tekjur þess voru 2,4 milljarðar króna í fyrra. Ef Endor hefði ekki komið inn í samstæðureikninginn í fyrra hefðu tekjur dregist saman um 1,4 milljarða króna.
Með því að selja fjarskiptainnviði verður hægt að skila að minnsta kosti hluta ávinningsins, rúmlega sex milljörðum króna, til hluthafa í gegnum endurkaup á bréfum eða arðgreiðslur.
Allir aðrir tekjustofnar Sýnar drógust enda saman á milli ára. Mestur var samdrátturinn í fjölmiðlahluta Sýnar, en tekjur hans drógust saman um 559 milljónir króna á milli ára. Frá lokum árs 2018 hafa tekjur vegna fjölmiðla Sýnar lækkað um rúmlega einn milljarð króna.