Fjölmiðla- og fjarskiptafélagið Sýn hf. skilaði 172 milljóna króna hagnaði á þriðja ársfjórðungi, samkvæmt nýbirtu uppgjöri félagsins í Kauphöll. Þetta er fyrsti ársfjórðungurinn sem félagið hefur skilað hagnaði í tvö og hálft ár, ef frá er talinn 8 milljóna króna hagnaður á þriðja fjórðungi síðasta árs.
Tekjur félagsins námu 5,5 milljörðum króna ársfjórðungnum og höfðu þær hækkað um 471 milljón króna frá sama tímabili í fyrra. Ef litið er til fyrstu níu mánaða ársins voru tekjur félagsins 2,2 prósentum meiri en á sama tíma í fyrra. Þar var bæði tekjuaukning af fjölmiðlahluta félagsins og fjarskiptahluta hans, en internettekjur dragast þó saman, auk þess sem hægt hefur á tekjuvexti vörusölu félagsins.
Farsímatekjur Sýnar jókust um rúman þriðjung á nýliðnum fjórðungi, en samkvæmt fyrirtækinu skýrist sú aukning af áframhaldandi góðum vexti tekjum af vörum sem tengdar eru internet hlutanna (e. Internet of Things). Einnig hækkuðu reikitekjur, auk þess sem fjöldi þeirra sem eru í farsímaáskrift hefur aukist.
Sýn bíður enn eftir niðurstöðu eftirlitsaðila vegna sölu á eigin fjarskiptainnviðum, en fyrirtækið skrifaði undir samning fyrir slíkri sölu í lok mars í ár. Samkvæmt fyrirtækinu mun hluti af væntum tekjum vegna sölunnar renna til hluthafa í gegnum endurkaup á hlutabréfum, en þær yrðu einnig notaðar til að lækka lán fyrirtækisins og ráðast í nýfjárfestingar.