Útlendingastofnun hefur móttekið alls 111 umsóknir um vegabréfsáritanir fyrir fólk utan EES sem vill koma til Íslands og vinna fyrir erlend fyrirtæki til allt að sex mánaða. Mögulegt hefur verið að sækja um slík dvalarleyfi frá því í október í fyrra.
Alls hafa 59 manns þegar komið til landsins og fengið dvalarleyfi, sem er nokkuð stökk frá því í febrúar. Þá voru einungis 10 manns búin að fá útgefin dvalarleyfi — en þau eru ekki formlega gefin út fyrr en fólk kemur til landsins. Fyrst var sagt frá þessu á tækni- og nýsköpunarvefnum Northstack í morgun.
Dvalarleyfin eru gefin út fyrir fólk sem kemur hingað til lands að vinna í fjarvinnu, maka þeirra og börn. Fjarvinnustarfsmennirnir geta tekið fjölskyldur sínar með sér án þess að þurfa að færa lögheimili sitt eða öðlast íslenska kennitölu.
Þessir fjarvinnustarfsmenn greiða því ekki tekjuskatt og eiga ekki rétt á neinni endurgjaldslausri þjónustu frá hinu opinbera hér á landi. Komi börn á skólaskyldualdri með í för þarf að sýna fram á að þau séu í fjarnámi að utan, fái heimakennslu eða fá samþykki um að koma þeim að í skólum hér á landi.
105 af 111 umsóknum frá Bandaríkjunum
Bandaríkjamenn eiga 105 af þeim 111 umsóknum sem hafa borist hingað til, samkvæmt tölum frá Útlendingastofnun. Rætt var við einn fjarvinnandi Bandaríkjamann á Íslandi um fyrirkomulagið í umfjöllun New York Times um fjarvinnu og skattamál í síðustu viku.
Sá sagði nokkuð dýrt að búa á Íslandi, en sömuleiðis að hann sæi ekki eftir því að hafa komið til landsins ásamt eiginkonu sinni í janúar síðastliðnum. Hann myndi gera þetta aftur.
Af þeim 111 umsóknum sem hafa borist hafa 104 þegar verið samþykktar, sem þýðir að líklega er von á að minnsta kosti 45 manns til viðbótar við þau 59 sem hafa þegar komið til landsins á grundvelli þessarar nýju tegundar dvalarleyfis.
Fólk þarf að vera töluvert tekjuhátt til þess að eiga kost á því að sækja um dvalarleyfi í fjarvinnu, en þeir útlendingar sem sækja um langtímavegabréfsáritun til að stunda hér fjarvinnu þurfa að vera með erlendar tekjur sem samsvara að minnsta kosti einni milljón króna á mánuði.
Ef maki viðkomandi er með í för þá þarf fjarvinnustarfsmaður að sýna fram á tekjur upp á að minnsta kosti 1,3 milljónir króna á mánuði.
Fólk þarf að sýna fram á ráðningarsamband eða verkefnasamninga, starfi það sjálfstætt. Einnig þarf fólk að sýna fram á að það hafi ýmist íslenskar eða erlendar sjúkratryggingar allan þann tíma sem það ætlar að dvelja á Íslandi.
Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir ráðherra átti frumkvæði að því að koma þessu úrræði á koppinn, en hún ásamt Bjarna Benediktssyni fjármála- og efnahagsráðherra og Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra stóð að reglugerðarbreytingum sem gerðu þessa útfærslu dvalarleyfis mögulega, síðasta haust.
Hún hefur boðað að unnið sé að því að „stíga enn stærri skref“ hvað varðar fjarvinnu erlendra sérfræðinga frá Íslandi, svo hægt verði að bjóða þeim að starfa héðan um lengri tíma en þá sex mánuði sem heimild er fyrir í dag.