Alls greindust 488 manns með COVID-19 smit í gær, á Þorláksmessu. Það er næst mesti fjöldi sem greinst hefur á einum degi. Metið var sett daginn áður, 22. desember, þegar 494 greindust með kórónuveiruna.
Smitin í gær voru langflest innanlands en þó fjölmörg á landamærunum eða 40. Tíu liggja á sjúkrahúsi með COVID-19 þar af þrír á gjörgæslu og eru þeir allir í öndunarvél.
Samkvæmt bráðabirgðatölum frá Almannavarnardeild ríkislögreglusstjóra eru 2.969 einstaklingar í einangrun vegna smita í dag og 3.812 til viðbótar í sóttkví. Það þýðir að 6.781 manns eyða jólunum annað hvort í einangrun eða sóttkví.
Fyrsta tilfellið af kórónuveirunni var staðfest hér á landi 28. febrúar árið 2020. Síðan þá eru liðnir 22 mánuðir og frá þeim tíma hafa 22.575 smit greinst. 37 hafa látist á Íslandi vegna COVID-19.
Ástæða þess að smitum hefur fjölgað skarpt er útbreiðsla ómíkron-afbrigðis veirunnar hérlendis.
Það afbrigði hefur dreifst á leifturhraða um veröld víða, um nokkuð takmarkalaus samfélög manna ólíkt því sem gerðist í delta-bylgjunni, höfum við ekki enn fengið staðfestingu á því hversu skaðlegt það er.
Það sem vísindamenn hafa þó sagt er að jafnvel þótt ómíkron valdi almennt mildari sjúkdómseinkennum en delta gæti sú bylgja sem nú rís sligað heilbrigðiskerfi af þeirri einföldu ástæðu að þegar gríðarlega margir smitast samtímis mun fjölga í hópi þeirra sem þurfa sjúkrahúsinnlögn – hvort sem veiran kallast ómíkron eða delta.
Arnar Pálsson erfðafræðingur sagði við Kjarnann í fyrradag að fjölgunargeta ómíkron sé meiri en delta, annarra afbrigða og upprunalegu gerðar veirunnar. „Það þýðir að með tíð og tíma verður ómíkron allsráðandi í öllum stofnum, það er að segja á öllum svæðum þar sem veiran geisar.“