Alls sögðust 49,4 prósent aðspurðra í nýrri könnun Gallup, sem framkvæmd var dagana 4. til 15. ágúst, að þeir treystu Drífu Snædal best til að leiða Alþýðusamband Íslands (ASÍ) næstu tvö árin. Á meðan að á könnuninni stóð, nánar tiltekið 10. ágúst, sagði Drífa af sér sem forseti ASÍ og bar fyrir sig óbærileg átök innan sambandsins, sérstaklega við forsvarsmenn stærstu stéttarfélaga landsins, VR og Eflingar.
Greint er frá niðurstöðu könnunarinnar á forsíðu Fréttablaðsins í dag en Kjarninn sagði frá því sama dag og Drífa sagði af sér að slík könnun stæði yfir. Í henni var spurt hverjum svarendur treystu best til að leiða ASÍ næstu tvö árin, en kosið verður um forseta sambandsins á þingi ASÍ í október.
Valkostirnir sem boðið var upp á voru fimm: Drífa Snædal, Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins og Kristján Þórður Snæbjörnsson, formaður framkvæmdastjórnar Rafiðnaðarsambands Íslands.
Mótframbjóðandi Sólveigar Önnu á bakvið könnunina
Á þeim tíma lá ekki fyrir hver hafði keypt spurninguna og látið spyrja hana í spurningavagni Gallup. Í Fréttablaðinu í dag kemur fram að það sé hópur sem kallar sig „áhugafólk um málefni verkalýðshreyfingarinnar. Forsvarsmaður hópsins er Ólöf Helga Adolfsdóttir, ritari stjórnar Eflingar og fyrrverandi varaformaður félagsins, sem staðið hefur í miklum deilum við Sólveigu Önnu Jónsdóttur, formann Eflingar, og stuðningsfólk hennar undanfarin misseri. Þær leiddu sitt hvorn framboðslistann í stjórnarkjöri í Eflingu í febrúar, þar sem listi Sólveigar Önnu bar sigur úr býtum. Hann fékk 52 prósent atkvæða á meðan að listi Ólafar Helgu fékk 37 prósent.
Fáir treysta starfandi forseta
Enginn hefur tilkynnt um framboð til forseta ASÍ sem stendur þótt Kristján Þórður Snæbjörnsson, starfandi forseti og formaður Rafiðnaðarsambands Íslands, hafi sagt að hann útiloki það ekki. Í könnuninni sögðust 5,7 prósent aðspurðra treysta honum best til að leiða ASÍ næstu tvö árin.
Sá sem fékk næst mestan stuðning í það hlutverk, á eftir Drífu, var Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, og einn þeirra sem Drífa hefur nefnt sem ástæðu þess að hún sagði af sér embætti. Alls sögðust 20,9 prósent aðspurðra að þeir treystu Ragnari Þór best til að leiða ASÍ. Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambands Íslands og formaður Verkalýðsfélags Akraness, var nefndur af 17,9 prósent svarenda og 6,1 prósent nefndi nafn Sólveigar Önnu.
Sólveig Anna gerir upp átökin í ASÍ um þessar mundir í greinarflokki sem birtist á Kjarnanum. Hún hefur þegar birt tvær greinar af fjórum. Þriðja grein hennar birtist á morgun, laugardag.
Í umfjöllun Fréttablaðsins segir að nánast engir kjósendur Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins hafi sagst treysta Sólveigu Önnu. Hún hafi hins vegar notið meiri stuðnings á meðal kjósenda Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins.