Trúverðugleiki framkvæmdar alþingiskosninga í Norðvesturkjördæmi hefur verið dreginn í efa undanfarinn tæpan sólarhring, eftir að í ljós kom að skekkja var í upprunalegum lokatölum sem kynntar höfðu verið á sunnudagsmorgun. Við endurtalningu sem fór fram síðdegis í gær jókst heildarfjöldi atkvæða um tvö stykki og atkvæðum allra flokka sem buðu fram ýmist fjölgaði eða fækkaði. Einnig fækkaði auðum atkvæðum um 12 og ógildum fjölgaði um 11.
Í ofanálag hefur komið fram að lagabókstafnum var ekki fylgt hvað meðhöndlun kjörgagna varðar, en geymslustaður þeirra var ekki innsiglaður né heldur kjörgögnin sjálf. Einnig hefur verið bent á að í gildandi kosningalögum er ekki kveðið á um sérstakar heimildir til þess að yfirkjörstjórn ákveði að grípa til endurtalningar atkvæða.
Kærur lagðar fram
Segja má að eðlilegt sé að spurningar vakni og sagði Kristín Edwald formaður landskjörstjórnar við fjölmiðla í dag, eftir fund kjörstjórnarinnar, að þetta væri „bagalegt mál“, hún teldi þetta „mjög óheppilegt“ og að trúverðugleiki kosninganna væri „náttúrlega gífurlega mikilvægur.“
Tveir frambjóðendur til Alþingis hafa þegar boðað að framkvæmdin verði kærð vegna þess sem fram hefur komið.
Karl Gauti Hjaltason frambjóðandi Miðflokksins í Suðvesturkjördæmi segist ætla að beina kæru til lögreglu og Magnús Davíð Norðdahl frambjóðandi Pírata í Norðvesturkjördæmi segist ætla sér að leggja fram kæru til kjörbréfanefndar Alþingis, en vel að merkja er það á endanum Alþingi sjálft sem tekur ákvörðun um gildi kosninga.
Guðmundur Gunnarsson frambjóðandi Viðreisnar í Norðvesturkjördæmi hefur einnig óskað eftir því að fá greinargerð frá yfirkjörstjórninni vegna málsins, en hann er rétt eins og Karl Gauti einn fimm frambjóðenda sem ekki verða alþingismenn að óbreyttu vegna þeirra sviptinga sem komu í ljós við endurtalninguna í Borgarnesi.
Öryggismyndavél í sal Hótel Borgarness
Kjarninn heyrði í Inga Tryggvasyni formanni yfirkjörstjórnar í Norðvesturkjördæmi í morgun og fékk hann til að útskýra tímalínu atburða, ástæður þess að ráðist var í talningu atkvæða og ástæður þess að kjörgögn voru ekki innsigluð eins og segir í lögum að þau skuli vera.
Ingi segir í samtali við blaðamann að talningu atkvæða hafi verið lokið í kjördæminu „um kl. 7, hálfátta“ á sunnudagsmorgun, en lokatölur úr kjördæminu voru gefnar út um kl. 7:40. Að því búnu hafi hann sjálfur farið heim til hvíldar, en flestir aðrir sem að talningunni komu hafi lagst til hvílu á Hótel Borgarnesi þar sem atkvæðin voru talin.
Ingi segir að atkvæðin hafi verið skilin eftir inni í læstum sal hótelsins og játar því að ekki hafi verið sett innsigli á hurðina. Kjörgögnin sjálf voru að auki ekki innsigluð.
Spurður út í þetta segir Ingi að hann telji ýmsa veita því of mikið vægi að innsigli hafi ekki verið notuð, þar sem einungis sé um að ræða „límmiða“, en viðurkennir þó að sennilega hefði verið heppilegra að innsigla kjörgögnin. Hann ítrekar að salurinn hafi verið læstur og í ofanálag séu þar öryggismyndavélar. Ingi vísaði í samtali við Vísi í gær til „hefðar“ er hann var spurður út í verklagið, svona hefði þetta verið framkvæmt í fyrri kosningum í kjördæminu.
Spurður hvort rýnt hafi verið í myndefnið á öryggismyndavélunum á Hótel Borgarnesi segir Ingi að það hafi ekki verið gert svo hann viti til, en hann segist fullviss um að enginn hafi farið inn í salinn þar sem kjörgögnin voru geymd þangað til yfirkjörstjórn sneri aftur til starfa um hádegisbil á sunnudag.
Skekkja kom strax í ljós
Ingi segir að ábending hafi borist frá landskjörstjórn um að það munaði litlu að jöfnunarmannahringekja á landsvísu færi af stað ef einhverju hefði skeikað í talningu í kjördæminu. Í gærmorgun var þannig ljóst að ef atkvæði til Viðreisnar væru tveimur færri en lokatölur sem gefnar höfðu verið upp í Norðvesturkjördæmi segðu til um, myndi staðan breytast.
Landskjörstjórn beindi einnig ábendingu til kjörstjórnar í Suðurkjördæmi um að mjótt væri á munum þar upp á breytingar að gera og þar á að telja aftur í kvöld, eftir að nokkur framboð settu fram beiðnir um endurtalningu.
Ingi segir við Kjarnann að yfirkjörstjórnin hafi í ljósi þeirrar ábendingar sem barst frá landskjörstjórninni ákveðið að prófa að telja einn bunka atkvæða og þar hafi strax komið í ljós misræmi. Því hafi verið tekin sameiginleg ákvörðun í yfirkjörstjórninni um að telja öll atkvæðin í kjördæminu aftur.
„Það barst ábending um að það munaði litlu á milli kjördæma varðandi jöfnunarsæti. Þá ákváðum við að skoða einn listabókstaf og þá kom það í ljós að það höfðu mislagst þar nokkur atkvæði og fyrst að það var svona var ákveðið að endurtelja þetta allt til að þetta væri allt pottþétt,“ segir Ingi. Þá fékkst önnur niðurstaða og jöfnunarmannahringekjan fór á fleygiferð, með þeim afleiðingum sem urðu ljósar í gær.
Ingi segir að allir í yfirkjörstjórninni sinni sínu starfi af bestu heilindum, ráðist hafi verið endurtalninguna af því að yfirkjörstjórnin vildi hafa niðurstöðuna rétta.
Heimilt að stemma af, að skilyrðum uppfylltum
Í dag hafa verið settar fram spurningar um hvort heimilt sé að ráðast í endurtalningu atkvæða eins og gert var í Norðvesturkjördæmi og til stendur að gera í Suðurkjördæmi í kvöld. Einnig hefur því verið velt upp, meðal annars af þingmanni Pírata, hvort heimilt hafi verið að ráðast í gæðaúttektir eða afstemmingar á atkvæðum í þessum kjördæmum að umboðsmönnum framboða fjarstöddum. Ekkert sé minnst á endurtalningu í ákvæðum laga.
Kristín Edwald formaður landskjörstjórnar segir við Kjarnann að það sé rétt að það standi ekkert um endurtalningu atkvæða í lögum um kosningar til Alþingis, en að yfirkjörstjórn í hverju kjördæmi beri ábyrgð á talningunni, framkvæmd hennar og að sjálfsögðu því að hún sé rétt.
Hún segir ennfremur að yfirkjörstjórn hafi heimildir til að endurtelja, eða stemma sig af, að uppfylltum skilyrðum sem almennt gilda um talningu atkvæða. Þau skilyrði eru meðal annars þau að talning fari fram fyrir opnum tjöldum, umboðsmenn fái að vera viðstaddir og að meðferð kjörgagna sé í samræmi við lög.
Lokatölur til fjölmiðla þýða ekki að öllu sé lokið
Í lögum um kosningar til Alþingis segir að yfirkjörstjórnir skuli skila niðurstöðum sínum til landskjörstjórnar „tafarlaust“.
Spurð hvort misbrestur hafi orðið á því útskýrir Kristín að málið sé flóknara en svo að lokatölunum beri að skila inn til landskjörstjórnar um leið og þær hafi verið gefnar út til fjölmiðla. Talningu atkvæða sé nefnilega ekki formlega lokið af hálfu yfirkjörstjórna fyrr en búið sé að fara yfir breytta kjörseðla og senda þær niðurstöður til landskjörstjórnar. Þeirri vinnu sé ekki enn lokið.
Engin tilmæli frá landskjörstjórn um gæðaprufur
Landskjörstjórn lét, eins og áður hefur komið fram, yfirkjörstjórnirnar tvær vita af því að fá atkvæði gætu breytt þingmannaskipan. Kristín segir að í þeim ábendingum hafi ekki falist nein tilmæli um að rýna sérstaklega í talninguna að nýju.
„Nei, engin tilmæli og ekki neitt, enda höfum við ekkert um það að segja. Hins vegar sáum við á þeim niðurstöðum sem yfirkjörstjórnir höfðu gefið fjölmiðlum upp að það munaði mjög litlu, það munaði tveimur atkvæðum,“ segir Kristín.
Hún bætir því við að yfirkjörstjórnirnar hafi verið látnar vita, meðal annars til að hægt væri að upplýsa umboðsmenn stjórnmálaflokkanna um stöðuna, svo þeir gætu tekið ákvarðanir með fullnægjandi upplýsingar undir höndum. Umboðsmenn gætu til dæmis viljað óska eftir endurtalningu í ljósi þess hve fá atkvæði þyrftu að hnikast til svo úrslit breyttust.
Vilja útrýma vafa um rétta niðurstöðu í Suðurkjördæmi
Kjarninn beindi spurningum um gæðaúttektina sem framkvæmd var í Suðurkjördæmi til Þóris Haraldssonar formanns yfirkjörstjórnar þar. Hann segir að endurtalning kvöldsins sé að mati yfirkjörstjórnar „umfram lagaskyldu“.
„Það að telja aftur er að okkar mati umfram lagaskyldu en er af okkar hálfu ætlað að útrýma öllum vafa um að rétt niðurstaða fáist og þannig nái vilji kjósenda fram að ganga - sem er jú tilgangurinn með lýðræðislegum kosningum,“ segir Þórir í skriflegu svari til Kjarnans.
Um gæðaúttekt gærdagsins segir hann: „Yfirkjörstjórn ber ábyrgð á sinni framkvæmd og þegar kom í ljós að mjög fá atkvæði skildu frambjóðendur að, ákváðum við að gera gæðaúttekt á eigin vinnubrögðum. Hún fólst í því að yfirfara flokkun atkvæða í hluta af atkvæðabunkum sem fyrir lágu. Við álitum það vera okkar skyldu en engin endurtalning fór fram. Umboðsmenn framboða voru ekki viðstaddir þessa gæðaúttekt,“ segir Þórir.