Óinnsigluð atkvæð geymd inni í sal sem var ólæstur að hluta til. Lyklar að læstum dyrum í höndum „ótal starfsmanna“. Kjörstjórnarmaður aleinn innan um atkvæðin í um hálftíma. Boðun umboðsmanna í lamasessi. Úrskurðir um ágreiningsatkvæði framkvæmdir án umboðsmanna. „Þetta er allt brotið í þessari svokölluðu endurtalningu. Þau ákvæði í kosningalögum sem voru brotin eru svo mörg að það tekur langan tíma að telja þau upp.“
Þetta segir Karl Gauti Hjaltason, oddviti Miðflokksins í Suðurvesturkjördæmi, sem var gestur Kristjáns Kristjánssonar í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun. Það vafðist fyrir Kristjáni að titla hann í þættinum og sagði Karl Gauti að líklega væri starfsheiti hans „vafaþingmaður“.
Hann er fyrrverandi sýslumaður og hefur haft yfirumsjón með kosningum margsinnis. Hann er auk þess einn þeirra fimm frambjóðenda sem hlaut jöfnunarþingsæti eftir að upprunalegar lokatölur í Norðvesturkjördæmi voru kynntar skömmu eftir klukkan sjö að morgni 26. september síðastliðins. Síðar sama dag tók formaður yfirkjörstjórnar í Norðvesturkjördæmi þá ákvörðun að endurtelja atkvæðin, sú endurtalning skilaði nýrri niðurstöðu og fimmmenningarnir misstu þingsæti sitt til fimm flokksfélaga sinna.
Allir frambjóðendurnir fimm sem misstu sæti sitt hafa kært framkvæmd kosninganna til Alþingis, sem mun á endanum taka ákvörðun um hvaða þingmenn séu réttkjörnir. Karl Gauti hefur auk þess kært málið til lögreglu og samkvæmt Vísi hefur öll yfirkjörstjórnin í Norðvesturkjördæmi réttarstöðu sakbornings.
„Það er alls kyns misskilnigur í gangi varðandi talningu og meðferð atkvæða, innsigli og umboðsmenn og slíkt,“ sagði Karl Gauti á Sprengisandi. „En þetta er mjög mikilvægt í kosningum, það er að segja að það sé fylgt ákveðnu ferli sem er bundið í kosningalögum, mjög stranglega.“
Hlutverk umboðsmanna framboða væri t.d. veigamikið, þeir hafi rétt til að gera athugasemdir, til að bóka þær sem og ágreining, svo dæmi séu tekin.
Karl Gauti segir að þegar ákveðið var að telja atkvæði aftur í Norðvesturkjördæmi, nokkrum klukkustundum eftir að lokatölur höfðu verið tilkynntar, voru umboðsmenn t.d. mjög óánægðir með boðun. Hann minnir á að eitt af því sem Hæstiréttur fann að dómi sínum um kosningar til stjórnlagaráðs árið 2011 var að umboðsmenn voru ekki skipaðir við talninguna. „Það var talinn verulegur annmarki á framkvæmd talningar í það skiptið. Það sama er uppi á teningnum núna. Þannig að menn hafa ekki lært af þessu.“
Oft talið margsinnis á kosninganótt
Karl Gauti segir að hvernig talning eigi að fara fram sé „skýrlega bundið“ í kosningalögum. „Þarna koma atkvæðakassar, innsiglaðir, menn skoða þá, umboðsmenn og kjörstjórnin öll.“ Síðan séu þeir opnaðir og talið upp úr þeim og sannreynt að það sé sama atkvæðamagn í þeim og á að vera. Í kjölfarið séu atkvæði sameinuð og talin.
„Ef það koma upp mistök, sem gerist oft, það kemur upp einhver mistalning eða tölurnar stemma ekki, þá gerist það um nóttina og það er þess vegna sem menn lenda stundum í því að vera fram á morgun. Það er vegna þess að menn eru að telja sig til baka yfir nóttina. Þetta gerist í hverri einustu talningu og margoft. Stundum tekur þetta stuttan tíma en stundum langan. En menn hætta ekki fyrr en þeir finna villuna í það skiptið. Það hefur tekist hingað til, alltaf. Það eru engin dæmi um það að eftir að lokatölur hafa verið kynntar að það sé talið upp á nýtt. Engin dæmi úr Alþingiskosningum.“
Hann segir því allt tal um „einhverja endurtalningu“ ekki eiga sér stoð í kosningalögunum. „Menn eru að telja og telja sig til baka alla nóttina. Menn hætta ekki fyrr en villan finnst.“
Hins vegar, ef menn ætli að byrja að telja aftur seinna, vegna þess að þeir þurfi hvíld eða eitthvað slíkt, „sem hefur aldrei gerst, aldrei gerst“, gefi lögin „engan afslátt“. Í þeim komi nákvæmlega fram hvernig talning eigi að fara fram. Eigi hún að vera lögleg eigi hún að fara nákvæmlega eins fram og hin upprunalega talning.
Varðandi hvers vegna ákveðið var að telja aftur í kjördæminu bendir Karl Gauti á að enginn hafi gert athugasemd við talninguna að morgni sunnudagsins. Hvorki umboðsmenn né kjörstjórnarmenn. „Hún stemmir, menn eru ánægðir og gefa út þessar lokatölur.“
Eitthvað gerist
Karl Gauti segir að „síðan gerist eitthvað“ og mönnum hafi „allt í einu dottið í hug að fara að telja“ og jafnvel aðeins einn eða tveir menn mætt í fyrstu. „Þetta er ekki svona einfalt í lögunum. Í þeim er talning stranglega lögbundið ferli.“
Auglýsa þurfi talningu, boða til hennar alla kjörstjórnina, alla umboðsmenn og ef þeir ekki mæta þurfi að skipa þá. Einnig þurfi að telja fyrir opnum dyrum svo almenningur geti fylgst með. „Síðan koma atkvæðin, innsigluð.“ En þannig var það ekki í þessu tilviki. Atkvæðin voru ekki innsigluð í „einhverja fjóra til fimm tíma“.
Lögin segja hins vegar að þau eigi samkvæmt lögunum að vera það og vera svo opnuð á talningarstað undir „vökulu augnaráði“ allra viðstaddra, þau tekin upp og talin að nýju. „Auðvitað þarf að taka lögin og fylgja þeim. Sem ekki var gert þarna.“
Karl Gauti undrast að menni haldi að það sé „bara leyfilegt, eðlilegt“ að kjörstjórnarmaður sé „einn með atkvæðunum“ áður en kjörstjórn mætir á sama tíma og „atkvæðin liggja þarna um salinn, óinnsigluð, óvarin“. Um þetta sé fjallað með skýrum hætti í lögum. Þegar kosningaathöfn byrji í sveitarfélögum sé „bókstaflega bannað“ að færri en tveir séu innan um atkvæðaseðla. „Hvað segir þetta okkur um anda laganna? Þetta leyfir ekkert kæruleysi.“
Hlustuðu menn ekki?
Hann bendir einnig á að gerðabók gegni mikilvægi hlutverki. Í hana skuli t.d. færa athugasemdir og bókanir frá bæði kjörstjórnarmönnum og umboðsmönnum. Í hana eigi að skrá „allt sem gerist“. En því hafi ekki verið að heilsa í gerðabókinni í Norðvesturkjördæmi. Það hafi ekki heldur verið gert í seinni talningunni þrátt fyrir augljósan ágreining að minnsta kosti eins umboðsmanns líkt og fram hefur komið í fjölmiðlum. „Hlustuðu menn ekkert eða heyrðu menn ekkert eða sögðu menn ekki neitt?“
Þegar lokatölur séu gefnar út að morgni, eins og gert hefur verið í kosningum í tugi ára, „þá eru það lokatölur. Og þú gefur þær ekki út nema að kjörstjórn og allir viðstaddir samþykki það athugasemdalaust.“
Hugtakið „endurtalning“ sé hins vegar ekki til í lögunum. Eina „endurtalningin“ sem geti kallast svo er það sem gerist yfir nóttina á talningarstað, þar sem leitað er að villum sem upp koma.
Vissulega sé hægt að telja að nýju en þá vegna þess að einhver krefst þess, líkt og t.d. var raunin í Suðurkjördæmi eftir kosningarnar í september. „Þá ganga menn að atkvæðunum þar sem þau eru innsigluð í geymslu og byrja ferlið upp á nýtt.“
Hann minnir á að innsigli gegni gífurlega mikilvægu hlutverki. Þau séu „eins og rauður þráður í gegnum alla athöfnina“ – alveg frá því að atkvæðin eru prentuð.
„Auðvitað játa ég það að það sé hægt að telja að nýju en þá þarf líka að fylgja lögunum,“ segir Karl Gauti. „Og þá þurfa atkvæðin að vera trygg. Til hvers er verið að tryggja atkvæðin, alveg frá prentsmiðjunni, í gegnum hendur yfirkjörstjórnar, til sveitarfélaganna, aftur til yfirkjörstjórnar og telja þau en síðan slitnar þessi keðja á milli, eftir lokatalningu í Borgarnesi. Því skyldum við leyfa það að öll þessi sterka keðja sé slitin á einum stað? Það er ekki boðlegt.“
Atkvæði sem ekki séu innsigluð og liggi frammi eins og gerðist í Borgarnesi „eru því miður ónýt. Það er búið að eyðileggja atkvæðin í þessu kjördæmi.“ Eftir að lokatölurnar voru gefnar út á sunnudagsmorgun og þess ferils sem þá hófst við meðferð atkvæða sé búið að „eyðileggja, ónýta, þessi gögn. Það getur enginn í raun og veru treyst því að ekki hafi verið átt við þessi atkvæði“.