Claudia Ashanie Wilson, lögmaður tveggja kvenna sem íslensk stjórnvöld ætla að senda til baka til Grikklands, segir í samtali við Kjarnann að þessi tvö mál eigi það sameiginlegt að þau varði konur í sérstaklega viðkvæmri stöðu sem orðið hafa fyrir fjölmörgum mannréttindabrotum og kynbundnu ofbeldi í heimaríki, á leið til Grikklands og ekki síður í Grikklandi.
Kjarninn talaði við konurnar tvær á dögunum og fjallaði ítarlega um málið um helgina.
„Þær eru fórnarlömb mansals, kynfæralimlestingar, nauðgana, þar með talið hópnauðgana, ýmiss andlegs og líkamlegs ofbeldis, jafnvel frá lögreglu í Grikklandi. Þær þurfa að lifa við afleiðingar þessa ofbeldis, meðal annars þurfa báðar á skurðaðgerð að halda, sem var hafnað af stjórnvöldum þótt það sé mat sérfróðs læknis að þessar aðgerðir séu þeim nauðsynlegar,“ bendir Claudia á.
Hvað telur þú að muni gerast fyrir þessar tvær konur þegar þær verða sendar til Grikklands?
„Þrátt fyrir sérstaklega viðkvæma stöðu þeirra, hina óumdeildu staðreynd að þær verði við endurkomu til Grikklands aftur sendar út á götuna án viðunandi húsnæðis og berskjaldaðar – enda hafa íslensk stjórnvöld ekki dregið trúverðugleika frásagna þeirra í efa – telja stjórnvöld að það sé öruggt fyrir þær að snúa aftur til Grikklands,“ segir hún.
Claudia telur að sú niðurstaða endurspegli annars vegar enn harðari stefnu íslenskra stjórnvalda í málefnum umsækjenda um alþjóðlega vernd, sem hún fullyrðir að eigi bara eftir að versna, nema Íslendingar breyti viðeigandi lögum og framkvæmd þeirra. Hins vegar endurspegli sú niðurstaða afleiðingu þess að kynjajafnrétti og kynjasjónarmið nái ekki til málefna kvenna á flótta.
Hvað ert þú núna að gera til að sporna við því að þær verði sendar úr landi?
„Ég hef starfað á þessu sviði í mörg ára en hef aldrei séð stjórnvöld leggja mat á umsóknir viðkvæmra kvenna þar sem tekið er tilliti til ákvæða kvennasáttmálans, evrópuráðssamnings um aðgerðir gegn mansali eða hins nýja Istanbúl-samnings, sem hefur verið fullgiltur hér á landi sem ég tel að kunni að hafa áhrif á niðurstöðu máls kvennanna.“
Hún bendi á grein í Istanbúl-samningnum sem segir að:
„Samningsaðilar skulu gera nauðsynlegar ráðstafanir, með lagasetningu eða öðrum hætti, til að virða þá meginreglu í samræmi við skyldur þjóðaréttar að vísa hælisleitanda ekki aftur þangað sem líf hans eða frelsi kann að vera í hættu.
Samningsaðilar skulu gera nauðsynlegar ráðstafanir, með lagasetningu eða öðrum hætti, til að tryggja að konur sem verða fyrir ofbeldi og þarfnast verndar skuli, óháð stöðu þeirra eða búsetu, ekki undir neinum kringumstæðum vera sendar úr landi til nokkurs lands þar sem líf þeirra kann að vera í hættu eða þar sem þær gætu átt á hættu að sæta pyntingum, ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu.“
Claudia segir að það virðist sem að stjórnvöld líti ekki svo á að ákvæði þessa samninga nái einnig til kvenna á flótta líkt og umbjóðendum hennar og taki aldrei tilliti til þeirra við afgreiðslu umsóknar þessa hóps kvenna.
„Þetta er algjör misskilningur. Markmið mitt er fyrst og fremst að bjarga þessum konum. Ekki síst er það mitt markmið að varpa ljósi á þetta vandamál og að sjá til þess að stjórnvöld breyti núverandi framkvæmd og geri sér grein fyrir því að kvenréttindi eru mannréttindi sem ná einnig til kvenna á flótta.“
Kynjamisrétti gerist einnig á meðal fólks á flótta
Af hverju er þessi kvennavinkill mikilvægur?
„Það er grundvallaratriði að stjórnvöld geri sér grein fyrir því sem aðgreinir konur á flótta frá körlum á flótta, en staðreyndin er sú að kynjamisrétti gerist ekki bara hjá sínum samfélagsþegnum heldur einnig á meðal fólks á flótta.“
Vísar Claudia í yfirlýsingu frá UN WOMEN, KFRI, Amnesty Íslandsdeildar, SOLARIS, NO-BORDERS og Samtök kvenna af erlendum uppruna sem hún tekur heilsusamlega undir en í henni kemur fram að kyn og kyngervi skipti miklu máli þegar fjallað eru málefni flóttafólks. Það sé staðreynd að staða kvenna á flótta sé sérstaklega viðkvæm þar sem þær standa frammi fyrir fjölþættri mismunun, svo sem hættunni á kynbundinni mismunun og kynferðislegu ofbeldi.
„Mál umbjóðenda minna eru skýr dæmi um þetta,“ segir hún.