Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra og Andrés Ingi Jónsson þingmaður Pírata voru ekki sammála á Alþingi í dag um ágæti þess að senda umsækjendur um alþjóðlega vernd sem fengið hafa synjun aftur til Grikklands eins og til stendur hjá stjórnvöldum að gera.
Þingmaðurinn spurði ráðherrann í óundirbúnum fyrirspurnatíma hvort hann teldi raunverulega að verndarkerfið í Grikklandi gæti boðið upp á virka alþjóðlega vernd fyrir fólkið sem flúið hefur til Íslands frá Grikklandi.
Ráðherrann sagði meðal annars að það væri ekki mat grískra stjórnvalda að þau réðu ekki við vandann. Þau væru að vinna ágætlega í því að afgreiða mál þeirra sem þangað leita. „Það er allavega samkvæmt þeim upplýsingum sem ég fékk,“ sagði hann.
Andrés Ingi hóf fyrirspurn sína á því að segja að ríkisstjórnin væri í herferð gegn ákveðnum hópum flóttafólks. „Þau sýna það reglulega með útlendingafrumvarpi sem er sérstaklega beint gegn þeim sem hafa fengið samþykkta umsókn um alþjóðlega vernd í öðru ríki eins og fólkið sem er að flýja brotin verndarkerfi Grikklands. En það er nákvæmlega ekkert öruggt við að vera með alþjóðlega vernd í Grikklandi. Við vitum að fólk í þeirri stöðu býr á götunni, það er aftast í röðinni þegar kemur að húsnæði, atvinnu, menntun fyrir börnin sín. Þau eru útsett fyrir mismunun og ofbeldi á hverjum einasta degi. Þessu bera íslensk stjórnvöld ábyrgð á í hvert sinn sem þau brottvísa fólki aftur til Grikklands.“
Hann sagði jafnframt að þetta væru engin ný tíðindi heldur hefði verið bent á þetta í mörg ár af sérfræðingum og mannréttindasamtökum. Nú ætluðu stjórnvöld að halda uppteknum hætti með því að vísa næstum 300 flóttamönnum í þessari stöðu frá Íslandi.
Stærstu og ógeðfelldustu fjöldabrottvísanir Íslandssögunnar
Þingmaðurinn benti á að lög væru verk þingfólks og spurði í framhaldinu hvað þingið gæti gert í þessum málum núna. Hann svaraði spurningunni með því að segja að Alþingi gæti til að mynda breytt lögum á þann hátt að heimiluð yrði sérstök meðferð þeirra flóttamanna sem hafa verið fastir í tvö ár vegna kórónuveirufaraldurs.
„Þar eigum við meira að segja fordæmi í frumvarpi sem Katrín Jakobsdóttir, þá þingmaður, lagði fram fyrir kosningar 2017. Ráðherra gæti meira segja bara sett reglugerð sem skilgreinir ástandið vegna heimsfaraldurs kórónuveiru sem sérstakar aðstæður og þar með væri heimilt að veita hæli öllum þeim sem vegna ástandsins ílengdust hér á landi. Það þarf nefnilega bara eitt pennastrik til að grípa inn í. Það þarf ekki meira en eitt pennastrik til að sýna aukna mannúð.
Núna þegar dómsmálaráðherra býr sig undir að fylla nokkrar flugvélar af flóttafólki og hefja þannig stærstu og ógeðfelldustu fjöldabrottvísun Íslandssögunnar liggur beinast við að spyrja af hverju. Það er hægt að breyta reglum til að ná utan um þennan hóp. Það þarf bara eitt pennastrik, það þarf bara pólitískan vilja. Af hverju er það ekki gert? Er það þetta sem ríkisstjórnin öll sem eitt vilja gera?“ spurði Andrés Ingi.
Ekki verið hægt að framfylgja brottvísunum – og hópurinn því safnast upp
Dómsmálaráðherra svaraði og sagði að mikilvægt væri að hafa það í huga að verndarkerfið gengi út á samkomulag milli landa um skilgreiningu á fólki á flótta sem væri í bráðri hættu af einhverjum ástæðum.
„Það er regla hjá okkur og flestum öðrum ríkjum Evrópu að hafi fólk fengið vernd í öðru ríki þá sé það ekki að sækja um vernd annars staðar. Við erum því ekkert almennt að skilja okkur frá öðrum ríkjum sem við berum okkur saman við þegar við sendum fólk úr landi. Málsmeðferðin sem hér er stunduð er víðtækari og meiri en gengur og gerist í mörgum löndum í kringum okkur, þar sem aðilar hafa komist að þeirri niðurstöðu að synja viðkomandi um vernd meðal annars á þessum forsendum. Það verður að hafa í huga að fyrst gerist þetta á stjórnsýslustigi samkvæmt lögum, gegnum Útlendingastofnun. Fólk getur svo áfrýjað máli sínu til úrskurðarnefndar útlendingamála. Það er eftir slíka málsmeðferð, þar sem fólkið hefur bæði framfærslu og löglærðan talsmann sér við hlið í öllu ferlinu, að fólk er orðið hér í ólögmætri dvöl ef það fer ekki úr landi.
Það er alveg rétt að hér hafa verið vel á þriðja hundrað manns, ætli það séu ekki svona 270 manns. Almennt er ástæðan sú að það hefur neitað að fara í svokallað PCR-próf og því hefur ekki verið hægt að framfylgja brottvísun. Þá hefur þessi hópur safnast upp og við því er verið að bregðast núna þegar ríkið er að fella niður þetta eftirlit á landamærum sínum. Alþingi getur vissulega breytt þessu. Alþingi setti okkur reglur og eftir þeim erum við að vinna í öllu ferlinu. Það er þá Alþingis að breyta þeim ef það vill viðhafa önnur vinnubrögð,“ sagði ráðherrann.
Ráðherrann kominn í mótsögn við sérfræðinga
Andrés Ingi kom aftur í pontu og sagði að það væri alltaf jafn stuðandi að heyra dómsmálaráðherra tala eins og það væri eitthvað annarlegt að flóttafólk undirgengist ekki þvingaða læknisrannsókn til að vera vísað út „á guð og gaddinn“.
„Hér gerist það enn einu sinni. Auðvitað neitaði fólk að fara í PCR-próf eins og því ber réttur til samkvæmt lögum, lögunum sem ráðherra hvetur okkur til að breyta. Verndarkerfið er sett upp til að tryggja að umsækjendur um alþjóðlega vernd fái einhvers staðar efnislega meðferð sinna umsókna frekar en að þeim sé skákað á milli. Það var ekki sett upp til að vera misnotað eins og gert er af íslenskum stjórnvöldum til að senda fólk til fyrsta viðkomulands og segja bara: Grikkland, dílið þið við þetta. Við nennum því ekki. Grikkland er búið að senda út neyðarkall árum saman því að það ræður ekki við verkefnið. Hvar er samstaðan með grískum stjórnvöldum hjá ráðherra?“ spurði þingmaðurinn.
„Í lögunum er líka talað um að fólk eigi að fá virka alþjóðlega vernd þegar því er vísað til annars ríkis. Ætlar ráðherrann í alvöru að standa hér og segja okkur að verndarkerfið í Grikklandi geti boðið upp á virka alþjóðlega vernd? Þá er hann kominn í mótsögn við alla sérfræðinga,“ sagði Andrés Ingi í síðasti fyrirspurn sinni.
„Það gengur bara nokkuð vel og hratt fyrir sig í Grikklandi að afgreiða mál“
Jón svaraði í annað sinn en hann telur að það sé ekki „eitthvert annarlegt sjónarmið að biðja fólk um að gangast undir PCR-próf“. Hann sagði að stjórnvöld væru ekki með þvingunarúrræði í þeim efnum í lögum í dag eins og mörg önnur lönd væru með þar sem þetta væri gert að skilyrði. „Reyndar er reynslan sú hjá þeim löndum þar sem þetta skilyrði er fyrir hendi að þá reynir sárasjaldan á það.“
Hann sagði að það væri rétt hjá Andrési Inga að verndarkerfið væri til að fólk á flótta fengi einhvers staðar málsmeðferð og það væri nákvæmlega það sem gerðist í Grikklandi.
„Varðandi það að Grikkland hafi sent út neyðarkall og ráði ekki við vandann þá er það ekki mat grískra stjórnvalda vegna þess að grísk stjórnvöld eru að taka á móti þessu fólki og eru að vinna ágætlega í því að afgreiða mál þeirra sem þangað leita. Það er allavega samkvæmt þeim upplýsingum sem ég fékk. Það gengur bara nokkuð vel og hratt fyrir sig í Grikklandi að afgreiða mál þeirra sem þangað leita til að fá vernd þegar það á við,“ sagði ráðherrann að lokum.