Hópur hælisleitenda á rétt á að mál þeirra verði tekin til efnislegrar meðferðar. Þetta kemur fram í úrskurði kærunefndar útlendingamála sem birtur var í morgun.
Lenya Rún Taha Karim, varaþingmaður Pírata, vakti athygli á að því í upphafi þingfundar í dag að margir sem tilheyra hópnum eru meðal þeirra sem vísað var úr landi í lok október þegar íslensk yfirvöld sendu alls 15 einstaklinga á brott með leiguflugi aftur til Grikklands. Ætlunin var raunar að senda 28 manns, en 13 fundust ekki þegar lögreglumann reyndu að hafa uppi á þeim til flutnings af landi brott.
„Það, að þessi hópur fólks hafi átt rétt á efnislegri meðferð þýðir að þau hefðu bara átt góðan séns á því að fá hæli á Íslandi,“ sagði Lenya undir liðnum störf þingsins á Alþingi í dag.
Mörg sem eiga rétt á efnislegri meðferð hefur verið vísað úr landi
„Sum þeirra hafa þó nú þegar verið send með valdi til Grikklands, þar sem sum eru heimilislaus og bjargarlaus og eiga afar lítinn möguleika á því að koma aftur til Íslands, mæta í viðtal hjá Útlendingastofnun og fylgja endurupptökunni eftir. Hvers vegna? Jú, því það er algengt að fólk á flótta í leit að hæli sé vegabréfslaust og þurfi að reiða sig á að fá grísk ferðaskilríki og það mun taka afar langan tíma því hælisleitendakerfið í Grikklandi er lamað af álagi,“ hélt Lenya áfram og tók þannig undir orð Helga Þorsteinssonar Silva, lögmanns margra hælisleitenda sem tilheyra hópnum, sem sagði í hádegisfréttum RÚV að erfitt verði að framfylgja úrskurðinum þar sem margir hælisleitendanna hafa ekki gild ferðaskilríki.
Úrskurður kærunefndar byggir á dómi Héraðsdóms Reykjavíkur sem komst að þeirri niðurstöðu í október að stjórnvöld hafi ranglega kennt Suleiman Al Masri, palestínskum hælisleitanda, um tafir í máli sínu á meðan ferðatakmarkanir voru í gildi vegna heimsfaraldurs og honum var skylt að sýna neikvætt COVID-próf. Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að stjórnvöldum var óheimilt að synja honum um endurupptöku máls.
Í kjölfarið fór Helgi, lögmaður Suleiman, fram á að kærunefnd útlendingamála úrskurðaði í fleiri sambærilegum málum. Úrskurðirnir eru tæplega 30 og telur Helgi að þeir nái til um 100 hælisleitenda hér á landi.
„Þetta er á þeirra ábyrgð“
Lenya segir stjórnvöld bera ábyrgð á stöðunni sem hælisleitendurnir eru nú í. „Stjórnvöld, leidd af forsætisráðherra sem básúnar stöðugt um mannréttindi og ber sér á brjóst fyrir að hafa gert mismunun ólöglega. Ríkisstjórnin, með Katrínu Jakobsdóttur við stjórnvölinn, vill frekar fljúga fólki úr landi í skjóli nætur með handafli. Isavia er látið skína ljósi á myndavélar fjölmiðla til þess að ekki sjáist til lögreglunnar fylgja hælisleitendum sem þau hafa í haldi inn í flugvél.“
„Þetta er á þeirra ábyrgð. Það er á þeirra ábyrgð að þessu fólki hafi verið fleygt úr landi með ofbeldisfullum hætti. Það er á þeirra ábyrgð að þessu fólki sé ófært að leita réttar síns hér á landi vegna þess að það er heimilislaust og vegabréfslaust Í Grikklandi einmitt núna,“ sagði Lenya, sem spurði að lokum:
„Stendur VG á bakvið útlendingastefnu Sjálfstæðisflokksins eða Vinstri grænna?“