Einungis 12,2 prósent þeirra sem tóku afstöðu til þess hvern þeir vilja sjá sem næsta forsætisráðherra dagana 10.-19. september sögðu að Bjarni Benediktsson væri þeirra fyrsti kostur. Á sama tíma sögðu 21,2 prósent aðspurðra líklegast að þeir myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn á laugardaginn. Þetta má lesa út úr nýjustu tölunum í könnun á vegum Íslensku kosningarannsóknarinnar (ÍSKOS), sem er aðgengileg á vef Félagsvísindastofnunar.
Eins og Kjarninn sagði frá í síðustu viku ber Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra höfuð og herðar yfir aðra stjórnmálaleiðtoga í þessari mælingu ÍSKOS, en um og yfir 40 prósent segjast vilja hana á stól forsætisráðherra.
Samkvæmt nýjustu tíu daga tölum sem eru aðgengilegar hafa 41,4 prósent þeirra sem taka afstöðu til könnunarinnar sagt að Katrín sé þeirra fyrsti kostur á stól forsætisráðherra. Vinstri græn eru hins vegar einungis fyrsta val hjá 11 prósent þeirra sem hafa tekið afstöðu til þess hvað þeir séu líklegastir til að kjósa á sama tíma. Stuðningur við Katrínu er því tæplega fjórfaldur stuðningur Vinstri grænna.
Í tölunum á vef Félagsvísindastofnunar er hægt að skoða þróunina eftir bæði aldri og kyni svarenda. Þrátt fyrir að varast beri að fullyrða of mikið út frá þróun í einstaka hópum, þar sem svör geta verið fá, virðist Katrín vera að auka nokkuð við stuðning sinn á meðal bæði karla og ungs fólks á allra síðustu dögum, en undanfarna 10 daga segja hátt í 40 prósent karla sem svöruðu könnuninni að Katrín sé þeirra fyrsti valkostur í stjórnarráðinu.
Fyrir utan þau Katrínu og Bjarna nýtur enginn stjórnmálaleiðtogi yfir 10 prósenta stuðnings til þess að leiða næstu ríkisstjórn. Sigurður Ingi Jóhannsson formaður Framsóknarflokksins kemst næst því, en hann nýtur 9,7 prósenta stuðnings í embættið, en flokkur hans virðist einmitt standa með pálmann í höndunum er kemur að stjórnarmyndun eftir kosningar, samkvæmt nýjustu kosningaspá Kjarnans og Baldurs Héðinssonar, sem birtist fyrr í dag.
Á hæla Sigurðar Inga koma svo Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar, Halldóra Mogensen þingmaður Pírata, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar og Sigmundur Davíð Gunnlaungsson formaður Miðflokksins með 7,4-8,6 prósenta stuðning í embætti forsætisráðherra, byggt á svörum undanfarinna 10 daga.
Sjálfstæðisflokkurinn virðist vera að dala hjá ungu fólki
Nánast sama hvert er litið í íslenskum skoðanakönnunum þessa dagana fer fylgi Sjálfstæðisflokksins dalandi. Könnun ÍSKOS er þar engin undantekning, en byggt á svörum síðustu 10 daga sem aðgengileg eru, eða frá 10. september til 19. september, mælist flokkurinn með 21,2 prósent fylgi.
Þegar horft er til þróunar í einstaka aldurshópum virðist sem svo að fylgistapið sem greina má hjá Sjálfstæðisflokknum megi rekja til minnkandi yfirlýsts stuðnings yngri aldurshópa, en flokkurinn hefur dalað töluvert í aldurshópnum 18-29 ára, en síður í öðrum aldurshópum.
Hjá 18-29 ára mælist fylgi flokksins samkvæmt nýjustu 10 daga niðurstöðum 15,4 prósent, en það var um og yfir 30 prósent í upphafi mánaðar er litið var til daganna tíu þar á undan. Píratar mælast með yfir 30 prósent fylgi í þessum aldurshópi á sama tíma, samkvæmt könnun ÍSKOS og Samfylkingin slagar hátt í 20 prósent.
Þó ber, sem áður segir, að varast að fullyrða of mikið út frá tölum í einstaka aldurshópum þar sem svörin í einstaka hópum undanfarna tíu daga eru fá.
Könnun sem uppfærist á hverjum degi
Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands birti í síðustu viku nýja síðu með niðurstöðum úr kosningabaráttukönnun á vegum Íslensku kosningarannsókninnar um kosningaætlan almennings og fleira.
Þessi könnun er ólík öðrum sem eru í gangi núna fyrir kosningar að því leyti að hún uppfærist daglega, en á hverjum einasta degi er könnunin send á 184 einstaklinga sem svara því hvað þeir myndu kjósa ef gengið væri til kosninga í dag. Hægt er að leika sér með tölurnar og skipta niðurstöðum upp eftir því hvort karlar eða konur svara eða eftir aldurshópum.
Fylgi flokka og sömuleiðis svörin við öðrum spurningum sem birtast eru uppfærð á hverjum degi og þannig er hægt að merkja hvernig þróunin er, samkvæmt mælingunum.