Um 40 prósentum íbúa á höfuðborgarsvæðinu líst vel á þær hugmyndir um Borgarlínu sem fram hafa komið til þessa, en 34 prósentum líst illa á þær áætlanir sem uppi eru. Þetta kemur fram í nýrri könnun frá MMR. Fjórðungur aðspurðra, eða 25 prósent, segir annað hvort „bæði og“ eða tekur ekki afstöðu til spurningarinnar.
Þrýstihópur sem kallar sig Samgöngur fyrir alla (ÁS) lét MMR framkvæma þessa könnun fyrir sig í maímánuði og spurt var út í ýmsa hluti sem tengjast borgarlínuverkefninu. Mikill munur er á afstöðu til þeirra hugmynda sem fram hafa komið um Borgarlínuna eftir því hvar á höfuðborgarsvæðinu fólk er búsett.
Í Reykjavík vestan Elliðaárvogar líst fólki best á hugmyndirnar, en 61 prósent íbúa á því svæði segja að þeim lítist ýmist mjög vel eða fremur vel á framkomnar hugmyndir um Borgarlínu, á meðan 20 prósentum líst illa á það sem lagt hefur verið fram.
Innan höfuðborgarinnar, austan Elliðaárvogar, segja hins vegar einungis 26 prósent íbúa að þeim lítist vel á hugmyndir um Borgarlínu. Rúmur helmingur íbúa þar, eða 55 prósent, segir hins vegar að þeim lítist mjög eða fremur illa á hugmyndirnar.
Í öðrum sveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins líst 39 prósentum íbúa mjög eða frekar illa á hugmyndirnar en 31 prósenti líst mjög eða fremur vel á þær, samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar.
Einn eða tveir bílar?
Úr niðurstöðum könnunarinnar má lesa að nokkur munur er á afstöðu fólks til hugmynda um Borgarlínu eftir því hversu margir bílar eru í heimilishaldinu. Á heimilum þar sem enginn er bíllinn líst 59 prósentum vel á hugmyndir um Borgarlínu en það hlutfall er einungis 23 prósent á heimilum þar sem þrír bílar eða fleiri eru til staðar, á meðan að 54 prósentum þeirra sem búa á heimili með þrjá bíla eða fleiri líst illa á framkomnar borgarlínuhugmyndir.
Skörp skil eru á milli afstöðu fólks á heimilum sem reka einn bíl og þeirra sem reka tvo, en af þátttakendum könnunarinnar, sem alls voru 611 talsins, voru samtals 488 manns af heimilum sem reka einn eða tvo bíla.
Rúmur helmingur þeirra sem eru með einn bíl í heimilisbókhaldinu segir að þeim lítist vel á borgarlínuhugmyndir en eingöngu 30 prósent þeirra sem taka þátt í rekstri tveggja bíla. Í hópi þeirra sem eru með tvo bíla á heimilinu segja 40 prósent að þeim lítist illa á hugmyndir um Borgarlínu en einungis 24 prósent þeirra sem eru með einn bíl á heimilinu.
Víðtæk andstaða við fækkun akreina á Suðurlandsbraut
Í frumdrögum að fyrstu lotu Borgarlínu er gert ráð fyrir því að Suðurlandsbraut taki miklum breytingum, en áætlað er að Suðurlandsbrautin allt frá Skeiðarvogi, meðfram Laugardalnum og að Laugavegi verði með tvöfaldri borgarlínubraut fyrir miðju og einni akrein fyrir bíla sitthvoru megin.
Einnig er gert ráð fyrir því að hjóla- og göngustígar verði beggja vegna Suðurlandsbrautar og svæðið undir bílastæði fyrir framan byggingar sunnan Suðurlandsbrautar verði minnkað verulega, en stór hluti þessara bílastæða er á landi Reykjavíkurborgar. Fram kom í frumdragaskýrslunni, sem kom út í byrjun febrúar, að búist væri við að þessar breytingar á götunni myndu draga úr umferðarþunga á henni og að þær leiddu til þess að bílaumferð leitaði annað, þá helst um Sæbraut og Miklubraut.
Þessi hugmynd virðist leggjast öfugt ofan í marga, en samkvæmt könnun MMR segjast einungis 19 prósent hlynnt því að þetta verði raunin á meðan að 65 prósent eru þessu andvíg. Einungis einn hópur sker sig úr með afgerandi hætti hvað varðar þær breytingar á Suðurlandsbrautinni. Það er kjósendahópur Samfylkingarinnar, en 52 prósent þeirra sem segja að þeir myndu kjósa Samfylkinguna í komandi þingkosningum segjast vera mjög eða frekar hlynnt því að Suðurlandsbraut verði breytt með þeim hætti sem hugmyndir eru uppi um.
Mikill stuðningur við kosningaloforð Samfylkingar frá 2018
ÁS lét MMR spyrja íbúa höfuðborgarsvæðisins út í ýmsa hluti, meðal annars afstöðuna til byggingar stokks fyrir bílaumferðar neðanjarðar milli Rauðarárstígs og Kringlumýrarbrautar. Mikill stuðningur er við slíka stokkagerð og fáir lýsa sig andvíga þessu. 54 prósent segjast mjög eða frekar hlynnt þessu en einungis 13 prósent lýsa sig andvíg því að ráðist verði í þessa framkvæmd. Tæpur þriðjungur, eða 32 prósent aðspurðra, segja ýmist „bæði og“ eða taka ekki afstöðu til spurningarinnar.
Athygli vekur að þessi fyrirhugaða framkvæmd, sem var eitt helsta slagorð Samfylkingarinnar í Reykjavík í síðustu borgarstjórnarkosningum, nýtur meirihlutastuðnings íbúa á höfuðborgarsvæðinu, óháð því hvar þeir búa og nánast hvar sem þeir standa í hinu pólitíska litrófi. Einungis þeir sem segjast ætla að kjósa Miðflokkinn í næstu þingkosningum eru að meirihluta á móti því að bílaumferðin um Hlíðahverfi verði færð neðanjarðar.
Könnun MMR fyrir ÁS var framkvæmd dagana 7.-12. maí og voru þátttakendur 611 talsins, sem áður segir. Um netkönnun var að ræða og voru þátttakendur valdir af handahófi úr hópi álitsgjafa MMR.