Almennt hefur gengið vel að þjónusta flóttafólk frá Úkraínu, að því er fram kemur í svari Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins (HH) við fyrirspurn Kjarnans. Sigríður Dóra Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri lækninga hjá HH, segir í samtali við Kjarnann að mikið álag sé á heilbrigðiskerfið í heild sinni og að þrátt fyrir að vel hafi gengið að taka á móti flóttafólki hingað til þurfi að sýna fyrirhyggju varðandi komandi misseri svo hægt sé að sinna öllum þeim sem hingað leita.
HH hefur ákveðnu hlutverki að gegna við móttöku flóttafólks, þar með talið þess hóps sem hingað hefur komið og mun koma frá Úkraínu. HH veitir flóttafólki læknisskoðun eftir komuna til landsins þar sem skimað er fyrir berklum, sárasótt, lifrarbólgu, HIV og COVID-19. Einnig er skimað fyrir andlegri vanlíðan, farið yfir hvort gefa þurfi út lyfseðla fyrir lyfjum sem fólkið hefur verið að taka, boðið upp á bólusetningu við COVID-19 og annað sem ekki þolir bið.
Í svari HH kemur fram að þegar ljóst var að von væri á talsverðum fjölda flóttafólks frá Úkraínu hafi verið tekin ákvörðun um að öll þjónusta við þennan hóp yrði undir sama þaki, í húsnæði Domus Medica.
„HH setti upp aðstöðu í húsinu og hefur sinnt skimunum þar. Að öðru leyti hefur HH ekki þurft að gera neinar breytingar á sinni starfsemi vegna þessa hóps. Þau eiga rétt á allri þjónustu frá heilsugæslunni eins og aðrir svo okkar heilsugæslustöðvar hafa tekið á móti þeim sem þurft hafa á þjónustu að halda umfram þá sem veitt er í móttökunni í Domus Medica,“ segir í svarinu.
Öll móttaka umsækjenda um alþjóðlega vernd færð á einn stað
Sigríður Dóra, sem þekkir móttöku flóttafólks og þjónustu heilsugæslustöðva vel, segir í samtali við Kjarnann að það hafi verið algjör nýbreytni þegar heilsugæslan setti upp sérstaka þjónustu fyrir hóp flóttafólks frá Úkraínu. Þau séu enn að skipuleggja starfið og sjá hvernig hægt verði að samþætta þessa þjónustu við þá þjónustu sem almennir umsækjendur um alþjóðlega vernd fá hér á landi. Þeirri skipulagningu verði lokið síðsumars.
Á hverju ári koma að sögn Sigríðar Dóru 600 til 800 umsækjendur um alþjóðlega vernd í þjónustu í Mjóddinni – jafnvel fleiri – alls staðar að úr heiminum en þeir fara í sömu skoðun og Úkraínuflóttafólkið. „Þannig að við erum að vinna í því að lagfæra þjónustuna og einfalda hana svo allir fái sömu þjónustu.“
Hún segir að það hafi verið ákveðin prufukeyrslu með ferlið þegar Úkraínuflóttafólkið kom fyrst til landsins fyrr á þessu ári. „Svo erum við smám saman að vinna í að koma þessu á einn stað í samvinnu við Útlendingastofnun og starfsfólkið.“ Tekin hefur verið sú ákvörðun að færa alla móttöku á einn stað í Domus Medica þann 20. júní næstkomandi.
Tryggja þarf sálfræðiþjónustu fyrir þennan hóp
Þá minnir Sigríður Dóra á að allir umsækjendur um alþjóðlega vernd eigi sama rétt á þjónustu og aðrir Íslendingar þegar þeir eru komnir með dvalarleyfi. „Auðvitað er það álag fyrir heilbrigðiskerfið þegar fólk kemur inn í landið með annan bakgrunn og aðra reynslu – og þarf að fá þjónustu,“ segir hún og bætir því við að heilbrigðiskerfið nái ekki að mæta þessu fólki eins og það ætti að gera. Biðin eftir læknisþjónustu sé til að mynda oft löng. „Þetta er álag á kerfið allt saman.“
Hún segir að nú þurfi einnig að huga að því að bæta sálfræðiþjónustu fyrir þennan hóp. „Þetta er fólk sem er í erfiðri stöðu og hefur erfiða lífsreynslu að baki. Það er eitt sem þarf að tryggja betur en hefur verið gert í dag. Við verðum að skoða hvað við getum gert,“ segir hún.
Sigríður Dóra greinir frá því að á göngudeildinni séu sálfræðingar í verktöku og séu þeir því ekki mikið við. „En við verðum bara að skoða þetta og athuga hvaða úrræði eru í gangi en við þurfum að bæta í þarna.“