Stjórn KSÍ hefur ekki haft afskipti af vali þjálfara karlalandsliðsins í fótbolta fyrir komandi leiki, að því er fram kemur í samtali deildarstjóra samskiptadeildar Knattspyrnusambands Íslands (KSÍ) við Kjarnann.
Þjálfarar KSÍ munu kynna leikmannahópinn fyrir tvo heimaleiki í undankeppni HM 2022 á blaðamannafundi í höfuðstöðvum KSÍ klukkan 13:15 í dag.
Leikið verður á Laugardalsvelli gegn Armeníu þann 8. október næstkomandi og Liechtenstein þann 11. október. Ísland er í næst neðsta sæti riðilsins, þremur stigum fyrir ofan Liechtenstein.
Sérstök nefnd fer yfir viðbrögð KSÍ
Mikið hefur gengið á innan raða KSÍ eftir að frásagnir af kynferðisofbeldi og áreitni landsliðsmanna í knattspyrnu komu upp á yfirborðið fyrr í sumar. Formaður KSÍ, Guðni Bergsson, sagði af sér embætti í kjölfarið og sömuleiðis stjórnin.
Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands (ÍSÍ) setti á stofn nefnd, eftir að KSÍ óskaði eftir því, til að gera úttekt á viðbrögðum og málsmeðferð sambandsins vegna kynferðisofbeldismála sem tengst hafa leikmönnum í landsliðum Íslands.
Samkvæmt ÍSÍ á nefndin að fara yfir þá atburðarás sem leiddi til afsagnar formanns og fyrirhugaðrar afsagnar stjórnar KSÍ í september ásamt því að bregðast við ásökunum sem fram hafa komið. Í nefndinni sitja Hafrún Kristjánsdóttir, Kjartan Bjarni Björgvinsson og Rán Ingvarsdóttir.
Kolbeinn tekinn úr hópnum
Landsliðsþjálfarinn, Arnar Þór Viðarsson, hefur kallað eftir skýrum ramma þegar kemur að því hvað þurfi að gerast til að þjálfarar mega ekki velja einstaka leikmenn í landsliðið í kjölfar þess að stjórn KSÍ tók ákvörðun um að víkja Kolbeini Sigþórssyni úr hópnum.
Kolbeinn var tekinn út úr landsliðshópi Íslands í haust eftir að umfjöllun birtist um mál sem kom upp á skemmtistað fyrir fjórum árum. Þar var Kolbeinn sagður hafa beitt tvær konur ofbeldi og áreitt þær. Atvikið var kært til lögreglu en málið fellt niður eftir að leikmaðurinn greiddi konunum miskabætur.
Á blaðamannafundi íslenska landsliðsins fyrir leik liðsins gegn N-Makedóníu sem fram fór í byrjun september sagði Arnar Þór það ekki vera boðlegt fyrir þjálfara að þurfa að hringja í stjórnarmeðlimi til að fá leyfi fyrir hverjum einasta leikmanni. „Við sem þjálfarar, það er ómögulegt fyrir okkur að vinna okkar starf ef við þurfum að hringja inn nöfn til stjórnar eða hvern sem er og fá leyfi til að velja fólk. Þá get ég ekki unnið starfið mitt. Ef ég get ekki unnið starfið mitt eins og ég vil vinna það þá þarf að finna einhvern annan þjálfara. Það þarf að gera þetta mjög fljótt. Þessi rammi þarf að vera klár eins fljótt og hægt er.“