Þolmarkadagur jarðarinnar (e. Earth Overshoot Day) er í dag. Dagsetningin miðast við þann tíma þegar jarðarbúar hafa nýtt sér þær auðlindir sem jörðin er fær um að endurnýja á heilu ári en samtökin Global Footprint Network halda utan um þá útreikninga sem þar liggja að baki. Til þess að standa undir núverandi auðlindanotkun jarðarbúa þarf 1,75 jörð samkvæmt útreikningum samtakanna.
Dagsetning þolmarkadagsins færist til um tvo daga milli ára en hann rann upp þann 30. júlí í fyrra. Einu sinni áður hefur þolmarkadagurinn runnið upp jafn snemma á árinu og í ár, það var árið 2018. Það ár rann dagurinn upp í fyrsta sinn í júlí. Á undanförnum áratug hefur þróunin verið á þá leið að dagurinn hefur færst hægt og bítandi fjær komandi áramótum.
Á hverju ári frá árinu 1970 hefur heimsbyggðin notað meira af auðlindum en jörðin er fær um að endurnýja á einu ári. Árið 1970 bar þolmarkadaginn upp á jóladag, 25. desember.
Jörðin rekin á yfirdrætti
Samtökin Global Footprint Network skoðar bæði framboð af auðlindum og eftirspurn þjóða eftir þeim en á meðal auðlinda eru fiskistofnar, skóglendi, beitiland og ræktað land.
Á vef samtakanna er notkun auðlinda umfram þær sem jörðin er fær um að endurnýja á ári líkt við yfirdrátt og jörðin því sögð rekin með vistfræðilegum halla. Ríki sem búa við slíkan halla mæta honum með innflutningi eða með því að ganga á sínar eigin auðlindir, til að mynda með ofveiði eða brennslu á jarðefnaeldsneyti.
Þegar allt hefur verið talið til eru ríki heims rekin með töluverðum vistfræðilegum halla en til þess að koma út á sléttu þyrfti 1,75 jörð til að brúa bilið, líkt og áður segir.
Minni akstur, minna kjöt og orkusparandi tækni
Á heimasíðu samtakanna eru raktar ýmsar lausnir sem hefðu í för með sér minni notkun á auðlindum jarðar og þar með seinka deginum. Ein af þeim aðgerðum sem nefndar eru er minnkun á akstri. Ef akstur á heimsvísu yrði minnkaður um helming og fólk myndi fara heldur ferða sinna með almenningssamgöngum, gangandi eða hjólandi væri hægt að seinka þolmarkadegi jarðar um 13 daga.
Sami árangur næðist ef mannfólkið myndi minnka matarsóun um helming – það myndi seinka þolmarkadegi jarðar um 13 daga. Ljóst er að mataræði getur skipt máli því ef kjötneysla myndi dragast saman um helming á heimsvísu og aukin áhersla yrði lögð á grænmetisfæði væri hægt að færa þolmarkadag jarðar aftur um 17 daga.
Orkunotkun hefur einnig sitt að segja. Ef orkusparandi tækni sem nú þegar er til væri hagnýtt til hins ýtrasta í byggingum, við iðnaðarferla og við framleiðslu rafmagns væri hægt að seinka þolmarkadegi jarðar um þrjár vikur, án þess að það hefði áhrif á framleiðni eða þægindi, eins og það er orðað á vef Global Footprint Network.