Þolmarkadagur jarðar er í dag en hann segir til um það hvenær mannkynið hefur notað þær auðlindir sem jörðin er fær um að endurnýja á einu ári. Þetta þýðir að mannkynið þyrfti um 1,7 jörð til þess að standa undir neyslu og notkun á náttúruauðlindum.
Dagurinn færist til um hátt í mánuð á milli ára en í fyrra var jörðin komin að þessum þolmörkum þann 22. ágúst. Ástæðan er sú að dagsetningin í fyrra var mun síðar á árinu en á fyrri árum vegna kórónuveirufaraldurs. Það hefur engu að síður gerst áður að þolmarkadagurinn lendi fyrr á árinu en núna í ár, hann hefur aldrei verið jafn snemma og árið 2018 en þá féll hann á 25. júlí.
Það eru samtökin Global Footprint Network sem reikna það út á hverju ári hvenær dagurinn rennur upp. Á vef samtakanna segir að mannkynið viðhaldi halla í notkun auðlinda með því að ganga á náttúruauðlindir á borð við skóglendi , beitilönd og fisk auk þess sem neysla mannsins fylgi alls kyns rusl og annar úrgang, þá helst losun koldíoxiðs út í andrúmsloftið.
Þolmarkadagur á hverju ári frá 1970
„Rétt eins og bankayfirlit heldur utan um tekjur og gjöld þá mælir Global Footprint Network þörf mannkyns og framboð vistkerfisins á auðlindum og afnotum. Dagsetning þolmarkadags jarðar er svo byggð á þessum útreikningum,“ segir á heimasíðu Global Footprint Network.
Útreikningur á því hvenær búið er að nýta ársframleiðslu jarðarinnar hefur farið fram á hverju ári síðan árið 2006 en þá bar þolmarkadaginn upp á 18. ágúst. Samtökin hafa farið yfir þau gögn sem til eru fyrir neyslu og endurnýjun auðlinda en gögnin ná aftur til ársins 1961. Samkvæmt útreikningum samtakanna hefur neysla mannkyns verið meiri en geta jarðarinnar til að endurnýja auðlindir sínar allt frá árinu 1970. Þessum þolmörkum var náð þann 30. desember árið 1970 en frá þeim tíma hefur dagurinn nánast stöðugt hliðrast til þannig að hann beri upp fyrr á árinu.