Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar, sagði aðgerðir Samherja sem fjallað hefur verið um í vikunni ekki snúast um skoðanafrelsi heldur það hvernig hagsmunahópar beiti völdum sínum til þess að hafa óeðlileg áhrif í samfélaginu. Þetta kom fram í fyrirspurn Þorbjargar til Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins, í óundirbúnum fyrirspurnatíma í þinginu í dag. Þorbjörg vakti máls á aðgerðum skæruliðadeildar Samherja vegna viðtals við Brynjar Níelsson, þingmann Sjálfstæðisflokksins í Kastljósi í gær.
„Í gær sat þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Kastljósi þar sem hann sagði, eða mátti á honum skilja, að það væri ekkert við vinnubrögð Samherja að athuga. Hann talaði um aðgerðir skæruliðadeildarinnar sem skoðanir en þetta mál snýst auðvitað ekki um skoðanafrelsi heldur það hvernig hagsmunahópar beita völdum sínum til að reyna að hafa óeðlileg áhrif í samfélaginu bak við tjöldin. Að svipta þessar aðgerðir og starfshætti öllu samhengi er hættulegt,“ sagði Þorbjörg Sigríður.
Hún sagði að þegar um árásir eða ofsóknir væri að ræða væru ekki tvær hliðar á málum. „Hér eru gerendur og hér eru þolendur. skotskífan eru fjölmiðlar í landinu en um leið allur almenningur. skoðanir og árásir eru óskyldir hlutir og þetta dregur upp dökka mynd,“ sagði Þorbjörg Sigríður og spurði fjármálaráðherra í kjölfarið hvort hann sæi samhengi hlutanna í aðgerðum Samherja og „hvort hann sjái ekki hvers eðlis þessar aðgerðir Samherja eru.“
Ætlar ekki að „gera upp fréttir gærkvöldsins“
Bjarni sagði það vera alvarlegt ef að fyrirtæki teldu sig vera í þeirri stöðu að geta hlutast til um formannskjör í Blaðamannafélaginu eða á öðrum slíkum vettvangi, hvort sem væri í stjórnmálum eða annars staðar. „Við förum þá leið í Sjálfstæðisflokknum að halda prófkjör. Við hleypum öllum flokksmönnum að það kemur í veg fyrir að menn geti beitt óeðlilegum þrýstingi nema að menn hafi enga stjórn á því hvaða fjármunir eru settir í einstök framboðsmál,“ sagði Bjarni.
Bjarni sagði að það væri ekki í hans verkahring að upplýsa þingmenn um það hvað honum fyndist um skoðanir annarra þingmanna Sjálfstæðisflokksins. „Það eru nóg tækifæri fyrir háttvirtan þingmann til að ræða við þá undir störfum þingsins eða annars staðar, ég veit ekki hvar sú umræða á best heima. En en ég horfði ekki á Kastljóssþáttinn og er ekki mættur hingað í dag til þess að gera upp fréttir gærkvöldsins eða einhverja viðtalsþætti í Ríkisútvarpinu,“ sagði Bjarni.
„Ég er mættur hér sem fjármálaráðherra og hef tjáð mig um það mjög skýrt að ég tel að Samherji hafi gengið óeðlilega fram í þessu máli með sínum afskiptum.“
Skæruliðadeildin reyndi að hafa áhrif á prófkjör
Líkt og Kjarninn hefur fjallað um ræddu meðlimir hinnar svokölluðu skæruliðadeildar Samherja um prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi. Þau Arna Bryndís McClure og Páll Steingrímsson voru sammála um að þau vildu ekki að Njáll Trausti Friðbertsson yrði oddviti flokksins í kjördæminu. Páll greindi Örnu meðal annars frá því að Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, vildi ekki sjá Njál í oddvitasæti listans.
Arna segir Páli að „enginn“ vilji fá Njál í fyrsta sætið og Páll lofar að ræða málið við nokkra áhrifamenn innan flokksins. Arna og Páll ræða svo meðal annars saman um það að reyna að „koma saman nothæfum lista fyrir kjördæmið.“ Af þeim frambjóðendum sem tvímenningarnir raða á sinn lista endaði einungis einn einstaklingur í framboði í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi. Svo því virðist sem lítið hafi gengið hjá Örnu og Páli við að hafa áhrif á framboðsmál Sjálfstæðisflokksins.