Þórólfur telur „fyllstu ástæðu til að hafa áhyggjur“ af þróuninni

„Það er klárt að virknin á bóluefnunum er ekki eins góð og maður hafði vonast til,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. 23 hafa greinst innanlands á tveimur vikum. Sautján þeirra voru fullbólusettir.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Auglýsing

„Ástæðan fyrir því að við köllum til þessa fundar er sú að við erum að hefja nýjan kafla í baráttunni við COVID-19,“ sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir er hann hóf yfirferð sína á stöðu faraldursins hér á landi á upplýsingafundi í dag. Áður hafði Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn boðið áhorfendur velkomna á fundinn með einkennisorðum sínum: „Góðan og blessaðan daginn.“ Þó að fæstir hafi líklega verið búnir að gleyma því hvernig Víðir heilsar á upplýsingafundum almannavarna og landlæknis er líklegt að fæstir hafi búist við að heyra vinalega kveðju hans aftur í bráð. Á slaginu 11.03. Í beinni útsendingu. Mikill meirihluti landsmanna er fullbólusettur. Það er hásumar. Fólk er á ferð og flugi. Innanlands sem erlendis. Ekki hefur þótt tilefni til að halda upplýsingafund í 49 daga eða frá því í lok maí.

En staðan er breytt. Enn einu sinni eru þeir mættir á skjáinn, Þórólfur og Víðir. Að brýna fyrir fólki að gæta að sér. Jafnvel þótt það sé bólusett. Óvissa ríkir. Og þá er blásið til upplýsingafundar.

Auglýsing

„Við höfum hafið nýja kafla áður,“ sagði Þórólfur og að viðeigandi væri að á þessum tímapunkti, þegar 17 manns hafa greinst innanlands á þremur sólarhringum, að leggja mat á stöðu faraldursins og líklega þróun hans næstu vikur. „Og hvort ástæða sé til einhverra aðgerða í ljósi upplýsinga um fjölgun COVID-tilfella.“

Tíu greindust með veiruna innanlands í gær, fimm voru utan sóttkvíar. Allt var fólkið bólusett. Því hafa samtals sautján greinst hér á landi á þremur sólarhringum og mikill meirihluti bólusettur.

Frá afléttingum til mögulega reglna ná ný

Þórólfur rifjaði upp að fyrir tæpum mánuði, eða þann 27, júní, var ákveðið að aflétta öllum takmörkunum innanlands. Slíkar opinberar aðgerðir höfðu þá staðið óslitið frá því 13. mars í fyrra.

Fyrsta júlí var svo aflétt ýmsum takmörkunum á landamærum og hætt að skima þá sem voru með vottorð um bólusetningu og fyrri sýkingar sem og börn. Skimun á landamærum, með einum eða öðrum hætti, hafði þá staðið frá því 15. júní í fyrra.

„Forsendur fyrir þessum tilslökunum voru einkum þær að mjög fá tilfelli voru að greinast innanlands þrátt fyrir tilslakanir,“ sagði Þórólfur. Einnig hafði gengið mjög vel að bólusetja þjóðina og um síðustu mánaðamót hafði rúmlega helmingur hennar verið fullbólusettur. Reynslan hafði líka sýnt að smit hjá fullbólusettum farþegum var mjög lítið eða í kringum 0,03 prósent.

Einnig nefndi Þórólfur að niðurstöður erlendra rannsókna hefðu sýnt að bólusetning veitti um 50-60 prósent vörn gegn smiti af delta-afbrigðinu og um 90 prósent gegn sjúkrahúsinnlögnum.

„Þannig var hægt að færa rök fyrir afléttingum. Að þær væru öruggar og tímabært að láta reyna á þetta svokallaða hjarðónæmi vegna bólusetninga,“ sagði Þórólfur.

23 greinst innanlands á tveimur vikum

„En hvernig hefur svo gengið?“ spurði Þórólfur.

Ef skoðuð er þróun síðustu daga þá hafi talsverð aukning orðið í smitum innanlands sem í flestum tilvikum megi rekja til smita á landamærunum eða til skemmtistaða á höfuðborgarsvæðinu.

Frá 1. júlí hafa 23 greinst innanlands. Tíu voru í sóttkví við greiningu, sautján fullbólusettir og þrír óbólusettir. Flest þessara smita eru af völdum delta-afbrigðisins. Hinir smituðu eru á aldrinum 20-50 ára. Þeir hafa að sögn Þórólfs verið með hefðbundin COVID-einkenni, tiltölulega væg. Enginn hefur þurft á spítalainnlögn að halda.

Frá 1. júlí, eða á tveimur vikum, hafa 40 manns greinst á landamærunum. Flest smitanna eru af delta-afbrigðinu, „sem þarf ekki að koma á óvart þar sem það er í miklum vexti erlendis.“

Auglýsing

Þórólfur fór svo yfir sitt mat á stöðunni.

„Við sjáum að smit eru að koma yfir landamærin með ferðamönnum, einkum bólusettum. Við sjáum að smit með fólki sem er að koma virðist einkum dreifast innanlands frá þeim sem eru hér með tengslanet, Íslendingum. Flest innanlandsmitin eru hjá fullbólusettum einstaklingum. Ég tel fyllstu ástæðu til að hafa áhyggjur af þeirri þróun sem við erum að sjá. Þó að ég sé ekki með tillögur til ráðherra um hertar aðgerðir innanlands nú gæti sú staða komið upp fljótlega fari ástandið versnandi.“

Ef grípa þurfi til aðgerða sagði Þórólfur að það yrðu þær sem við hefðum þegar góða reynslu af í faraldrinum hingað til.

„Að sjálfsögðu bindum við vonir við að bólusetning muni skapa viðspyrnu gegn útbreiddum faraldri,“ sagði hann og minnti á að um 70 prósent þjóðarinnar væri nú fullbólusett. Hins vegar væri áfram full ástæða til þess að hvetja alla til að viðhafa einstaklingsbundnar sóttvarnir til að hamla frekari útbreiðslu.

Góð en viðsjárverð staða

Þá er það einnig til skoðunar, „hjá mér alla vega“ að kanna leiðir til þess að lágmarka hættuna á því að veiran berist yfir landamærin. Leiðir sem ekki yrðu of íþyngjandi. Hann nefndi sem dæmi að krefja alla sem hingað koma, líka bólusetta, að framvísa neikvæðu PCR-prófi. Einnig væri hægt að hefja aftur skimun fólks frá ákveðnum áhættulöndum. Hins vegar væri hér ekki til staðar bolmagn til að skima alla sem hingað koma. Til þess er fjöldi ferðamanna of mikill.

„Þannig að þannig met ég stöðu okkar í heimsfaraldri, góða en viðsjárverða,“ sagði Þórólfur og minnti enn og aftur á að „baráttunni við COVID-19 er hvergi nærri lokið“. Veiran er enn útbreidd víða um heim. „Við þurfum að gæta vel að okkur og vera tilbúin til að grípa til sóttvarnaaðgerða.“

Enn ætti eftir að koma í ljós hvort að hin útbreidda bólusetning hér á landi nái að vernda flesta og einkum viðkvæma, eins og vonast sé til. „Það mun framtíðin bara skera úr um á næstu vikum og mánuðum.“

Á meðan bólusetningar eru ekki útbreiddari í heiminum en raun ber vitni megi áfram búast við nýjum afbrigðum veirunnar. Því þurfi fólk að lifa með sóttvarnaaðgerðum næstu mánuði og hugsanlega lengur, „kannski í ár, ég veit það það ekki. Þetta er hvergi nærri búið þótt margir virðist líta svo á“.

Lítil áhætta og þó

Spurður hvort staðan sem upp er komin komi á óvart benti Þórólfur á að enginn hefði reynsluna til að styðjast við, á því hver áhættan sé í mjög bólusettu samfélagi. Aðeins við Íslendingar hefðum nú hana. „Áhættan er í prósentum mjög lág en það þarf ekki nema nokkra einstaklinga til að setja þetta af stað.“

Hann sagði að það sem hann væri hræddastur um „er að ef veiran verður mjög útbreidd og bólusetning ætlar ekki að halda mjög vel getur hún borist inn í viðkvæma hópa sem hafa jafnvel svarað bólusetningu ver en aðrir eða illa.“

En fyrst tíðnin á sjúkrahúsinnlögnum er lág, hvers vegna er ekki hægt að leyfa faraldrinum að eiga sinn gang, var spurt.

„Ég minni á það að þetta er nákvæmlega sama umræðan og við áttum þegar þriðja bylgjan byrjaði,“ sagði Þórólfur. Þá hafi aðgerðir verið gagnrýndar þar sem veiran væri vægari og sjúkrahúsinnlagnir ekki algengar. „Svo skall þetta yfir okkur einn, tveir og þrír.“ Ekki væri ástæða til að bíða þar til alvarleg veikindi fara að koma upp. „Það er það sem ég er að benda á.“

Virknin ekki eins góð og hann vonaði

Þórólfur sagði „klárt að virknin á bóluefnunum væri ekki eins góð og maður hefði vonast til. Við erum að sjá það gerast að bóluefni kemur ekki í veg fyrir smit þótt það komi í veg fyrir alvarlegar afleiðingar. Við erum að uppgötva þetta jafnóðum og ný vitneskja kemur fram.“

Hann sagðist vel gera sér grein fyrir að það væri ekki „stemning“ fyrir hertari aðgerðum í samfélaginu. Það væri hins vegar ekki sitt hlutverk að spá endilega í „stemninguna“ heldur að hafa áhyggjur. Rétt væri að hans mati að staldra við.

Hann sagðist ekki vera að hvetja alla til að sitja heima. Engar reglur væru í gildi í sambandi við fjöldatakmarkanir. En fólk ætti að hugsa fyrir sig sjálft. Hvort það væri skynsamlegt að fara í mikið fjölmenni eða á partístaði niður í bæ. „Það er þetta sem ég er að reyna að brýna fyrir fólki. Og fólk á alveg að geta gert þetta án þess að það komi lög og reglur frá stjórnvöldum.“

Spurður hvort of hratt hafi verið farið í afléttingar síðustu vikur sagði hann alltaf hægt að vera vitur eftir á. Það sé hins vegar hans mat að miðað við stöðuna þá hafi það verið skynsamlegt. „Ég hefði viljað sjá okkur geta haft betri stjórn á landamærunum. Að við hefðum geta haldið áfram að skima eins og við gerðum. Það var ekki hægt.“

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Losun koldíoxíðs út í andrúmsloftið á stóran þátt í því að þolmarkadagur jarðar er jafn snemma á árinu og raun ber vitni.
Þolmarkadagur jarðarinnar er runninn upp
Mannkynið hefur frá upphafi árs notað þær auðlindir sem jörðin er fær um að endurnýja á heilu ári. Til þess að viðhalda neyslunni þyrfti 1,7 jörð.
Kjarninn 29. júlí 2021
Örn Bárður Jónsson
Ný stjórnarskrá í 10 ár – Viska almennings og máttur kvenna
Kjarninn 29. júlí 2021
Til að fá að fljúga með flugfélaginu Play verða farþegar að skila inn vottorði um neikvæða niðurstöðu úr PCR-prófi eða hraðprófi.
Hafa þurft að vísa vottorðalausum farþegum frá
Flugfélagið Play hefur fengið jákvæð viðbrögð við þeirri ákvörðun að meina farþegum um flug sem ekki hafa vottorð um neikvætt COVID próf. Fyrirkomulagið verður enn í gildi hjá Play þrátt fyrir að vottorðalausum muni bjóðast sýnataka á landamærunum.
Kjarninn 29. júlí 2021
Kamilla Jósefsdóttir og Alma Möller landlæknir.
Sértæk bóluefni gegn delta-afbrigði „okkar helsta von“
Frá því að fjórða bylgja faraldursins hófst hér á landi hafa sextán sjúklingar legið á Landspítala með COVID-19. Tíu eru inniliggjandi í dag, þar af tveir á gjörgæslu.
Kjarninn 29. júlí 2021
Kort Sóttvarnastofnunar Evrópu sem uppfært var í dag.
Ísland orðið appelsínugult á korti Sóttvarnastofnunar Evrópu
Mikil fjölgun greindra smita hér á landi hefur haft það í för með sér að Ísland er ekki lengur grænt á korti Sóttvarnastofnunar Evrópu. Væru nýjustu upplýsingar um faraldurinn notaðar yrði Ísland rautt á kortinu.
Kjarninn 29. júlí 2021
Jóhann Björn Skúlason, yfirmaður smitrakningateymis almannavarna.
Smitrakningunni „sjálfhætt“ ef fjöldi smita vex gríðarlega úr þessu
Miklar annir eru nú hjá smitrakningarteymi almannavarna. Á bilinu 180-200 þúsund notendur eru með smitrakningarforrit yfirvalda í símum sínum og það gæti reynst vel ef álagið verður svo mikið að rakningarteymið hafi ekki undan. Sem gæti gerst.
Kjarninn 29. júlí 2021
Ari Trausti Guðmundsson
Faraldur er ekki fyrirsjáanlegur
Kjarninn 29. júlí 2021
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra.
„Ekki má hringla með marklínuna“
Dómsmálaráðherra vonar að stjórnarandstöðunni „auðnist ekki að slíta í sundur þá einingu sem ríkt hefur meðal landsmanna í baráttunni gegn veirunni“. Samhliða útbreiddri bólusetningu þurfi að slá nýjan takt og „leggja grunn að eðlilegu lífi á ný“.
Kjarninn 29. júlí 2021
Meira úr sama flokkiInnlent