„Þá erum við hér eina ferðina enn og veiran að trufla jólahaldið, því miður,“ sagði Alma Möller landlæknir á upplýsingafundi sem haldinn var í dag, á Þorláksmessu. Þetta er fyrsti upplýsingafundurinn sem haldinn er vegna heimsfaraldursins í 48 daga. Slíkur fundur var síðast haldinn 5. nóvember. Þá höfðu liðið tæpir þrír mánuðir á milli funda.
Þríeykið hefur þó engu gleymt. Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn heilsaði með sinni gleðilegu kveðju: „Góðan og blessaðan daginn“. Hann lauk svo fundinum einnig eins og svo aftur áður með því að stappa stálinu í þjóðina við skjáinn. Hvetja fólk til að passa upp á hvert annað og standa saman.
Samstaðan var töluvert rædd á fundinum. Og þreytan. Þreyta eftir langan óvissutíma. Þríeykið var þó sammála um að samstaðan væri ekki að rofna. Enda þýddi ekkert, að sögn sóttvarnalæknis, að „loka augum og eyrum“ við ástandinu.
Fyrsta tilfellið af kórónuveirunni var staðfest hér á landi 28. febrúar árið 2020. Síðan þá eru liðnir 22 mánuðir og frá þeim tíma hafa 22.087 smit greinst. 37 hafa látist á Íslandi vegna COVID-19.
Í gær greindust 494 með kórónuveiruna. Smitin voru langflest innanlands en þó fjölmörg á landamærunum eða 51. Níu liggja á sjúkrahúsi með COVID-19 þar af þrír á gjörgæslu og eru þeir allir í öndunarvél.
„Við höfum áfram mestar áhyggjur af því að álagið á heilbrigðiskerfið verði of mikið því okkar hættumat bendir til að það geti orðið raunin,“ sagði Víðir. Smitrakning nái ekki að anna álagi í augnablikinu og einnig var á fundinum nefnt að eitt forgangsatriði væri að efla COVID-göngudeildina, m.a. með aukinni sjálfvirkni og spurningalistum til smitaðra.
Hinn óútreiknanlegi faraldur
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir minnti á, líkt og oft áður, að faraldurinn væri óútreiknanlegur og því þurfi stöðugt að aðlaga sóttvarnaaðgerðir í takti við það. „Síðastliðið sumar heldum við að okkur væri að takast að vinna bug á veirunni með tveimur bólusetningum fyrir hvern einstakling. En það reyndist ekki vera raunin.“
Delta-afbrigðið hafi reynst skæðara en þau fyrri og bólusetning dugar ekki til að halda smitum í skefjum. Þá var gripið til þess að hefja örvunarbólusetningu. „Það virkaði mjög vel og allt stefndi í að okkur myndi takast að hamla útbreiðslu veirunnar. Því miður var raunin önnur með tilkomu nýs afbrigðis, ómíkron, sem hefur komið með leifturhraða inn á sjónarsviðið með nýja eiginleika sem sett hafa fyrri áætlanir í uppnám.“ Sagði hann útlit fyrir að ómíkron nái að „taka yfir“ delta-afbrigðið á næstu dögum eða vikum.
Smitast mun hraðar
Eiginleikar ómíkron felast m.a. í smithæfninni sem er mun meiri en annarra afbrigða sem þýða að mun fleiri smitast á styttri tíma.
Þá er meðgöngutími veirunnar styttri sem þýðir að tíminn frá því að smit á sér stað og þar til einkenna koma fram er nú aðeins þrír dagar en var að minnsta kosti fjórir hvað delta varðar.
„Spurningin er svo sú: Veldur ómíkron-afbrigðið öðruvísi sjúkdómi en fyrri afbrigði? Sjúkdómseinkennin eru svipuð en vísbendingar eru uppi um að alvarleg veikindi séu fátíðari. Þetta er hins vegar ekki alveg ljóst.“ Nefndi hann í þessu sambandi að í Danmörku væru flestir sem greinst hafa með afbrigðið ungt, fullfrískt og fullbólusett fólk. Staðan gæti orðið önnur ef það færi að greinast hjá viðkvæmum hópum. Milli 0,5 og 1 prósent þeirra sem greinst hafa með ómíkron í Danmörku hafa þurft að leggjast inn á sjúkrahús.
Þórólfur sagði þetta í sjálfu sér ánægjuleg tíðindi en að í ljósi mikillar smithæfni afbrigðisins gæti „nettóútkoman“ orðið sú að margir veikist hér alvarlega á stuttum tíma. „Álag á spítalakerfið getur þannig orðið mjög mikið með alvarlegum afleiðingum.“
En hver er þá vernd bóluefnanna gagnvart ómíkron?
Rannsóknir eru enn af skornum skammti. Ein dönsk og önnur bresk benda þó til að bólusetning með tveimur sprautum veiti „þokkalega“ vernd gegn smiti og vægum einkennum. Vernd gegn alvarlegum veikindum sé hins vegar ekki þekkt en að líkindum sé hún meiri en vernd gegn smiti.
Verndin virðist hins vegar batna mikið eftir örvunarskammt, bæði varðandi smit og vægum einkennum og sagðist Þórólfur telja að hún væri almennt meiri gegn alvarlegum veikindum em smiti.
„Til að koma í veg fyrir neyðarástand á sjúkrahúsum er nauðsynlegt að ná tökum á þeirri uppsveiflu sem við erum að sjá hvað varðar fjölda daglegra smita. Við vitum ekki hversu margir munu veikjast alvarlega á næstunni og þurfa á innlögn að halda.“ Enn sem komið er hafi innlögnum ekki fjölgað en það kunni að breytast á næstunni ef þróunin verður svipuð hér og í Danmörku. „Vonandi mun það þó ekki gerast og vonandi mun víðtæk bólusetning koma í veg fyrir alvarleg veikindi.“
Baráttan verður að halda áfram
Þórólfur sagði að samstaðan um aðgerðirnar til að hefta útbreiðsluna væri áfram lykilatriði. „Það er hins vegar ljóst að mikil þreyta og uppgjöf er komin í nánast alla í samfélaginu gagnvart COVID-19. En við við megum ekki láta það láta draga úr okkur þrek og þor. Við verðum að halda baráttunni áfram því annars munum við sjá víðtækar heilsufarslegar afleiðingar.“
Álagið á Landspítala hefur verið mikið um langt skeið, sagði Alma. Allar legudeildir væru fullar, fyrir utan smitsjúkdómadeildina, og vel það. Þá væri mikið álag á gjörgæslu og „staðan á bráðamóttöku hefur verið óásættanleg til lengri tíma“.
Til ýmissa ráða hafi verið gripið til að reyna að létta álagið en engu að síður væri staðan á spítalanum þung. „Þess vegna höfum við áhyggjur af þessari stóru bylgju ómíkron-smita og ef smitin verða mörg má búast við auknum fjölda innlagna.“
Landlæknir biðlaði til fólks að fylgja áfram öllum reglum og einstaklingsbundnum sóttvörnum eins og að nota grímur sem væri sérlega mikilvægt nú þegar glímt væri við svo smitandi afbrigði.
Þórólfur sagði að smitin í gær og síðustu daga ekki hægt að rekja til sérstakra viðburða. Fólk hefði verið mikið á ferðinni og „smit hefðu getað orðið hvar sem er.“
Hraðpróf gefa frekar falska jákvæða niðurstöðu
Spurður hvort að hraðpróf væru að reynast óáreiðanlegri en talið var sagðist Þórólfur hafa fengið fréttir af vandamálum þar að lútandi. Hann hefði ekki gögn um þá sem greinst hefðu neikvæðir á hraðprófi en svo jákvæðir á PCR-prófi. „En við erum hins vegar með upplýsingar um að þeir sem hafa greinst jákvæðir á hraðgreiningarprófum og síðan neikvæðir á PCR-prófi. Hátt í helmingurinn sem hafa greinst jákvæðir á hraðprófi hefur svo í rauninni reynst neikvæður.“ Sagði hann mjög mikilvægt að treysta ekki um of á hraðgreininarprófin. Þeir sem finni einkenni eigi að fara í PCR-próf. Alma sagði Dani hafa áhyggjur af blöndun kynslóða yfir hátíðarnar. Þessu ætti að taka alvarlega og hvatti hún alla til að gæta sérstaklega að sér.
„Við höfum allan tímann verið að binda vonir við að eitthvað nýtt sé að koma sem muni binda enda á þetta fár sem við erum í,“ sagði Þórólfur, spurður hvort að hyllti undir endalok alvarleika faraldursins með vægara afbrigði. „Það er allt í lagi að binda vonir en megum ekki halda að það verði þannig. Nákvæmlega eins og í sumar þegar við héldum að þetta væri að klárast með bólusetningum. Við þurfum að vera undir það búin eftir sem áður að upp komi nýtt afbrigði sem jafnvel veldur alvarlegri sjúkdómi. Hvort að það sé líklegt eða ólíklegt, menn geta fabúlerað um það fram og til baka.“
Veiran sniðug
Spurður hvort það væru ekki vonbrigði hversu faraldurinn hefði dregist á langinn sagði hann þau vissulega vera til staðar en að það þýði ekki „að loka augunum og segja að nú sé liðinn svo langur tími og að nú eigi þetta bara að vera í lagi. Við þurfum að skoða þetta með tilliti til þeirrar veiru sem er í gangi og aðlaga okkar aðgerðir að því.“
Alma bætti við að „þessi veira“ væri einfaldlega mikil vonbrigði, „hvað hún er sniðug og tekst að leika á okkur þótt að við séum sífellt að reyna að vera skrefi á undan“.
Þórólfur sagðist aldrei hafa sagt hvenær faraldrinum myndi ljúka, aðeins hvernig útlitið væri á hverjum tíma. „En ég hef alltaf sagt að við þurfum að vera undir það búin að eitthvað nýtt komi fram.“
Landlæknir minnti á að á hverjum tíma væru ákvarðanir teknar út frá þeirri þekkingu sem liggi fyrir.
„Markmiðin okkar eru áfram þau sömu,“ sagði Víðir undir lok fundarins. „Við ætlum að tempra hann, draga úr smitum og verja heilbrigðiskerfið. Við ætlum að halda áfram að verja viðkvæma hópa. Við ætlum áfram að leita leiða til að berjast við veiruna á landamærunum og hefta samfélagslegt smit með það að markmiði að geta lifað hér í sem opnustu og frjálsustu samfélagi og á sama tíma haldið uppi ásættanlegu öryggisstigi.
Áfram veginn – það er ekkert annað í boði. Og ég held að við séum tilbúin í það öll. Setjum undir okkur hausinn. Stöndum saman. Við kunnum þetta, við getum gert þetta. Passið vel upp á hvert annað og sýnið hvert öðru kærleika á öllum sviðum.
Gleðilega hátíð.“