Þorsteinn Friðriksson, stofnandi og forstjóri Quiz Up, segir að það sé mögulegt fyrir Quiz Up að verða ,,næsta Facebook". Þó sé Quiz Up ekki að leita á sömu mið; Facebook sé fyrir gamla vini en Quiz Up sé hugsað fyrir nýja vini og tengsl. Þetta kemur fram í viðtali við Þorstein við vefsíðu Forbes, þar sem Quiz Up er til umræðu.
"Við erum að tapa peningum," segir Þorsteinn í viðtalinu, og segir hann enn fremur að Quiz Up sé að byggja upp sterkari grundvöll til þess að byggja upp auglýsingatekjur og kostunarsamstarf af ýmsu tagi. Í grunninn sé hugmyndin að hafa nægilega marga notendur svo það geti myndast nægilega miklar tekjur.
Fyrirtækið setti í loftið nýja útgáfu af Quiz Up á vormánuðum þar sem App spurningaleikurinn vinsæli varð í reynd að samfélagsmiðli sem tengir fólk saman eftir áhugasviðum. Um 35 milljónir notenda eru sagðir vera tengdir Quiz Up og um sex milljónir noti hann mánaðarlega.
Quiz Up byggir starfsemi sína núna á fjármagni sem sótt hefur verið í fjórum fjármögnunarumferðum (Funding rounds) sem hafa safnað um 30 milljón Bandaríkjadölum, eða sem nemur um fjórum milljörðum króna. Fyrirtækið er að vaxa hratt þessa dagana og hyggst opna skrifstofu í New York innan tíðar, að því er greint var frá í Viðskiptablaðinu.