Í dag hefur verið gerður opinber mikill fjöldi skjala sem Samherji og starfsmenn fyrirtækisins hafa lagt fram til yfirvalda í Namibíu vegna málarekstursins sem tengist starfsemi Samherja þar í landi. Á meðal gagna er eiðsvarin yfirlýsing frá Þorsteini Má Baldvinssyni forstjóra Samherja, þar sem hann neitar allri aðkomu að nokkurskonar spillingarmálum eða ólögmætum gjörningum í Namibíu eða í tengslum við Namibíu.
Í yfirlýsingu forstjórans, sem lesa má í heild sinni hér, segir að ef Jóhannes Stefánsson, fyrrverandi starfsmaður Samherja sem svo gerðist uppljóstari, hafi tekið þátt í einhverju ólöglegu athæfi hafi hann „sannarlega aldrei látið mig vita af því“.
Þorsteinn Már hafnar því sömuleiðis að hafa átt þátt í að, eða verið „aðalarkitektinn“ að, viðskiptasamningum við Fischor og Namgomar. Jóhannes Stefánsson hafi gert þessa samninga og ef eitthvað ólögmætt hafi falist í þeim, sé það „Hr. Stefánsson einn, og enginn annar, allra síst ég, sem tók þátt í því.“
Yfirlýsing Þorsteins Más var undirrituð í viðurvist fulltrúa sýslumanns á Egilsstöðum 27. maí, en Þorsteinn Már var staddur á Austurlandi þann dag til þess að vera viðstaddur, sem stjórnarformaður, er viðskipti með hlutabréf í Síldarvinnslunni í Neskaupsstað hófust með viðhöfn.
Þorsteinn Már segist hafa verið grunlaus
Í yfirlýsingu hans segir að Jóhannes Stefánsson hafi allt frá því hann var ráðinn og þar til hann var látinn fara í desember árið 2016, stjórnað starfsemi Samherja í Namibíu sjálfstætt. Þorsteinn Már segist ekki hafa verið með eftirlit með honum, né heldur veitt honum leiðbeiningar. „Hefði hann unnið undir beinni stjórn minni, þá hefði hann verið rekinn fyrir löngu,“ segir Þorsteinn Már í yfirlýsingu sinni.
Hann neitar því að hann sjálfur hafi verið flæktur í, vitað af, eða svo mikið sem grunað að Jóhannes Stefánsson væri flæktur í „spillta samninga eða væri að flækja einhver namibísku fyrirtækjanna í spillta samninga á meðan hann var í starfi fyrir Samherjasamstæðuna.“
„Ég vissi sannarlega ekki af né heldur samþykkti ég neina af hans meintu spilltu samningum. Svona stundum við hjá Samherja einfaldlega ekki viðskipti,“ segir forstjórinn.
Fjallar um Seðlabankamálið
Í yfirlýsingu sinni rekur Þorsteinn Már einnig gang hins svokallað Seðlabankamáls, sem hófst með húsleit Seðlabankans hjá Samherja í mars árið 2012. Hann segir það mál hafa reynt gríðarlega á æðstu stjórnendur Samherja, þar með talið sig sjálfan.
Hann færir rök fyrir því að Seðlabankamálið hafi verið þannig vaxið að í reynd hefði það verið ómögulegt fyrir hann að vera eitthvað inni í rekstrinum í Namibíu, eða eins og hann lýsir sjálfur: „Það hefði einfaldlega ekki verið neinn tími, bjargráð eða orka hjá mér til þess að djúpt innvinklaður í fjarlæga, litla og fremur ómerkilega starfsemi hinumegin á plánetunni,“ skrifar Þorsteinn Már.
Ingvar hafi ekki þurft leyfi forstjóra til að greiða kostnað
Þorsteinn Már segir einnig í yfirlýsingunni að Ingvar Júlíusson, fjármálastjóri hjá Samherja á Kýpur, eða að minnsta kosti fjármáladeildin „hans“, hafi ekki þurft sérstakt leyfi frá sér til þess að framkvæma greiðslur vegna rekstrarkostnaðar, eins og Jóhannes Stefánsson hafi gefið í skyn. Raunin sé sú að Jóhannes sjálfur hafi stýrt greiðslum á kostnaði vegna starfseminnar í Namibíu.
Ítarleg yfirlýsing Ingvars
Ingvar hefur sjálfur lagt fram 108 blaðsíðna langa eiðsvarna yfirlýsingu, þar sem hann sver af sér sakir í málinu. Undir þá yfirlýsingu tekur Egill Helgi Árnason, sem namibísk yfirvöld vilja einnig ákæra í málinu ásamt Aðalsteini Helgasyni, fyrrverandi starfsmanni Samherjasamstæðunnar sem kom að rekstri dótturfélaga í Namibíu á árum áður.
Íslensk yfirvöld hafa hafnað framsalsbeiðnum frá Namibíu vegna þeirra þriggja og því hefur ekki tekist að birta Íslendingunum þremur ákæru með formlegum hætti. Ingvar gerir athugasemd við vinnubrögð saksóknarans í Namibíu hvað framsalsmál varðar í yfirlýsingu sinni og segir hana hafa látið undir höfuð leggjast að láta dómstólinn í Windhoek vita af því að neikvætt svar hefði borist um framsal frá Íslandi strax í febrúar.
Hin ítarlega yfirlýsing Ingvars, sem undirrituð var í sendiráði Íslands í Brussel í Belgíu 28. maí, inniheldur svör við mörgum efnisatriðum sem koma fram í eiðsvarinni yfirlýsingu Jóhannesar Stefánssonar og sömuleiðis yfirlýsingu Mörthu Imalwa, saksóknara ákæruvaldsins í Namibíu.
Ingvar kemur því ítrekað að, að ef eitthvað ólöglegt athæfi hafi átt sér stað í rekstri dótturfélaga Samherja í Namibíu, þá hafi það verið að á ábyrgð Jóhannesar eins. Hann kallar Jóhannes „stjörnuvitni“ ákæruvaldsins í málinu og segir að án vitnisburðar hans sé mál namibískra yfirvalda á hendur sér og öðrum erlendum sakborningum algjörlega haldlaust.
Fullyrðir að Jóhannes muni ekki koma til Namibíu
Ingvar fullyrðir sömuleiðis í yfirlýsingu sinni að Jóhannes Stefánsson muni ekki koma til Namibíu til þess að bera vitni í málinu — en ef hann myndi koma, kæmi einnig koma í ljós við gagnleiðslur fyrir dómi að framburður hans héldi ekki vatni.
Ástæðan fyrir því að Ingvar telur að Jóhannes fari ekki suður til Namibíu til þess að bera vitni er samkvæmt honum sú að hvorki saksóknarinn né Jóhannes sjálfur hafi sagt að hann ætli að sér að koma og bera vitni, né heldur hafi saksóknarinn og Jóhannes sagt að hann njóti einhverrar friðhelgi í landinu.
Jóhannes „veit að ef hann kemur til Namibíu verður hann handtekinn og mun ekki losna gegn tryggingu,“ segir í yfirlýsingu Ingvars, sem segir einnig að Jóhannes viti að hans bíði langur tími í fangelsi í Namibíu fyrir þá glæpi sem hann hafi játað.
Ingvar segir að ef það hins vegar fari svo að saksóknarinn bjóði Jóhannesi friðhelgi, muni sú sama friðhelgi falla úr gildi ef Jóhannes beri vitni. Ef Jóhannes segi sannleikann, muni erlendu sakborningarnir í málinu, Íslendingarnir, ekki verða dæmdir fyrir nein meint brot. „Ef hann heldur áfram með núverandi lygar, verður það sannað við gagnleiðslu að hann hefur ekki sagt sannleikann og hann verður saksóttur,“ segir Ingvar.
„Það verður ekki hægt að koma í veg fyrir að ég beri vitni“
Stundin sagði á dögunum frá því, sem fram kemur í samskiptagögnum innan úr Samherja sem Kjarninn hefur einnig undir höndum, að hin svokallaða „skæruliðadeild“ fyrirtækisins hafilagt á ráðin um að koma í veg fyrir að Jóhannes færi til Namibíu.
Í samskiptum á milli starfsmanna Samherja snemma í aprílmánuði kom fram að til skoðunar væri að kæra Jóhannes fyrir meintan þjófnað frá fiskbúðum í Namibíu, undir þeim formerkjum að ef Jóhannesi yrði talin trú um að þar með héldi ekki samningur hans við namibísk stjórnvöld myndi hann pottþétt ekki mæta í réttarsal. Um þetta voru þau Arna McClure lögmaður og Páll Steingrímsson sammála og sagði Páll hafa talað við Þorstein Má um kæru á hendur Jóhannesi.
Í samtali við Stundina sagðist Jóhannes sjálfur ætla sér að bera vitni.
„Það verður ekki hægt að koma í veg fyrir að ég beri vitni,“ sagði Jóhannes Stefánsson.