Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri og einn aðaleigandi Samherja, neitaði að svara spurning- um héraðssaksóknara þegar hann var yfirheyrður í annað sinn vegna Namibíumálsins í seint í sumar. Í bókun sem lögmaður hans lagði fram fyrir hönd Þorsteins Más þegar hann var kallaður til yfirheyrslu sagði að ástæða þessa væri sú að forstjórinn hefði fengið takmarkaðar upplýsingar um sakarefnið.
Þá hefur upphæðin sem Samherjasamstæðan er grunuð um að hafa greitt í mútur fyrir aðgengi að kvóta í Namibíu komin upp í 1,7 milljarð króna, sem er talsvert hærri upphæð en áður hefur verið greint frá.
Frá þessu er greint í Stundinni í dag en þar er fjallað ítarlega um ný gögn sem varpa skýrara ljósi á hvað er undir í rannsókn yfirvalda hérlendis og í Namibíu á meintum lögbrotum núverandi og fyrrverandi starfsmanna Samherja.
Samkvæmt gögnum sem Kjarninn hefur séð þá svaraði Þorsteinn Már spurningum hjá embætti héraðssaksóknara þegar hann var yfirheyrður þar í júlí í fyrra framan af yfirheyrslunni, en þar hafnaði hann öllum sakargiftum og að nokkrum hafi verið mútað.
Víðtæk vitneskja um meintar mútugreiðslur
Á meðal þess sem fram kemur í gögnunum sem Stundin fjallar um í dag er að víðtæk vitneskja var um ætlanir um að greiða mútur til namibískra áhrifamanna til að tryggja Samherja aðgengi að kvóta í landinu. Það sést meðal annars á tölvupóstum milli einstaklinga innan Samherjasamstæðunnar sem Stundin fjallar um. Á meðal þess sem gögnin sýna er að Aðalstein Helgason, sem var yfir Namibíuútgerð Samherja, hafi lagt til að mútur yrðu greiddar árið 2012 og að hann hafi velt því fyrir sér hvort beita mætti hótunum til að ná þeim árangri sem Samherji stefndi að í landinu. Stundin greinir einnig frá því að Aðalsteinn hafi sent tölvupósta um gang mála í Namibíu til Margrétar Ólafsdóttur, ritara Þorsteins Más.
Hinir sex sem voru þá kallaðir inn til yfirheyrslu og fengu réttarstöðu sakbornings við hana voru Ingvar Júlíusson, fjármálastjóri Samherja á Kýpur, Arna McClure, yfirlögfræðingur Samherja og ræðismaður Kýpur á Íslandi, Egill Helgi Árnason, framkvæmdastjóri Samherja í Namibíu, Aðalsteinn Helgason, fyrrverandi framkvæmdastjóri Samherja í Namibíu, Jón Óttar Ólafsson, ráðgjafi og fyrrverandi rannsóknarlögreglumaður sem starfað hefur fyrir Samherja árum saman, og uppljóstrarinn Jóhannes Stefánsson.
Mútur, peningaþvætti og skattasniðganga
Þau brot sem grunur er um að hafi verið framin í Samherjamálinu varða 109. og 264. grein almennra hegningarlaga um mútur. Í fyrrnefndu greininni segir að hver sem gefur, lofar eða býður opinberum starfsmanni, gjöf eða annan ávinning, sem hann á ekki tilkall til, í þágu hans eða annarra, til að fá hann til að gera eitthvað eða láta eitthvað ógert sem tengist opinberum skyldum hans skal sæta fangelsi allt að fimm árum eða sektum ef málsbætur eru fyrir hendi. „Sömu refsingu skal sá sæta sem beinir slíku að erlendum opinberum starfsmanni, erlendum kviðdómanda, erlendum gerðarmanni, manni sem á sæti á erlendu fulltrúaþingi sem hefur stjórnsýslu með höndum, starfsmanni alþjóðastofnunar, manni sem á sæti á þingi slíkrar stofnunar eða á opinberu löggjafarþingi í erlendu ríki, dómara sem á sæti í alþjóðlegum dómstóli eða starfsmanni við slíkan dómstól, í því skyni að fá hann til að gera eitthvað eða láta eitthvað ógert sem tengist opinberum skyldum hans.“
Í 264. grein segir að hver sem tekur við, nýtir eða aflar sér eða öðrum ávinnings af broti á hegningarlögum eða af refsiverðu broti á öðrum lögum, eða umbreytir slíkum ávinningi, flytur hann, sendir, geymir, aðstoðar við afhendingu hans, leynir honum eða upplýsingum um uppruna hans, eðli, staðsetningu eða ráðstöfun ávinnings skuli sæta fangelsi allt að sex árum.
Þá eru einnig til rannsóknar meint brot á ákvæðum kafla XXXVI í almennum hegningarlögum, sem fjalla um auðgunarbrot. Við brotum á ákvæðum þess kafla liggur fangelsisrefsing sem getur verið allt að þrjú til sex ár.
Embætti skattrannsóknarstjóra, sem var lagt niður í núverandi mynd fyrr á þessu ári og varð eftir það deild innan Skattsins, er síðan að rannsaka hvort raunverulegt eignarhald á allri Samherjasamstæðunni sé hérlendis og hvort að ákvörðun um að greiða skatta annars staðar en hér sé þar með stórfelld skattasniðganga.
Í umfjöllun Stundarinnar kemur fram að starfsmaður skatta- og lögfræðisviðs hjá KPMG, sem vann drög að skýrslu sem komst að þeirri niðurstöðu að Þorsteinn Már væri nær einráður í Samherjasamstæðunni og að allir valdaþræðir lægju til hans, hafi verið kallaður inn sem vitni við rannsókn yfirvalda. Þar kom fram að maðurinn breytti þeirri niðurstöðu skýrslunnar að ósk Samherja úr því að Þorsteinn Már væri eini framkvæmdastjóri samstæðunnar í að forstjórinn hafi „aðkomu að því að veita ráðgjöf til ólíkra félaga innan samstæðunnar“.