Af þeim rúmlega 1,5 milljörðum króna sem Reykjavíkurborg sagði Kjarnanum nýlega að varið hefði verið til málaflokks heimilislausra í borginni á fyrstu tíu mánuðum síðasta árs fóru tæpar 460 milljónir króna í rekstur tveggja búsetuúrræða fyrir fatlað fólk með virkan vímuefnavanda og 111 milljónir í rekstur eða stuðning við alls fimm áfangaheimili.
Rúmar 499 milljónir króna fóru í rekstur þeirra þriggja neyðar- eða gistiskýla fyrir heimilislaust fólk sem starfrækt eru í borginni og 459 milljónir króna í málaflokk heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir.
Síðastnefnda upphæðin sundurliðast þannig að á fyrstu tíu mánuðum síðasta árs fóru 125 milljónir króna í rekstur búsetuúrræðis við Njálsgötu, 189 milljónir í rekstur búsetuúrræðis við Hringbraut og 144 milljónir í starfsemi VoR-teymisins, vettvangs- og ráðgjafateymis sem borgin heldur úti í málaflokknum.
Þetta kemur fram í svari borgarinnar við fyrirspurn Kjarnans, þar sem falast var eftir nánari sundurliðun á þeirri upphæð sem upplýsingafulltrúi borgarinnar nefndi í fyrra svari sínu, en Kjarninn sagði frá því skömmu fyrir jól að á fyrstu 10 mánuðum ársins 2022 hefði Reykjavíkurborg varið rösklega 1,5 milljörðum króna í málaflokk heimilislausra.
Upplýsingarnar eru að finna sundurliðaðar í minnisblaði sem tekið var saman af hálfu sviðsstjóra velferðarsviðs Reykjavíkurborgar á aðventunni, en málefni heimilislausra á höfuðborgarsvæðinu hafa verið mjög í deiglunni í því kuldakasti sem staðið hefur yfir undanfarnar vikur og var brugðist við með því að hafa gistiskýli opin yfir daginn.

Það þykir þó ekki heppileg lausn til lengri tíma, sökum þess að starfsfólk neyðarskýla er orðið langþreytt, erfitt er að fá fólk til starfa og aðstæður í neyðarskýlunum henta illa sem vistarverur allan sólarhringinn.
Í sama minnisblaði sviðsstjóra velferðarsviðs sagði að ljóst væri að þjónusta við heimilislausa á höfuðborgarsvæðinu gæti ekki áfram „hvílt á herðum Reykjavíkurborgar án aðkomu eða fjárhagsstuðnings ríkis, sveitarfélaga og annarra hjálparstofnana“.
„Verkefnið er einfaldlega of stórt til að áfram verði haldið á sömu braut,“ sagði í minnisblaðinu.
Í svari Reykjavíkurborgar til Kjarnans kom fram að á fyrstu 10 mánuðum ársins hefði borgin fengið 28,5 milljónir króna greiddar frá öðrum sveitarfélögum vegna íbúa þeirra sem nýtt hefðu þjónustu gistiskýla.
Önnur sveitarfélög höfuðborgarsvæðisins í samtali um málaflokkinn
Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu, önnur en Reykjavíkurborg, eru um þessar mundir í samstarfi um málaflokk heimilislausra og að vinna að úttekt um málaflokkinn á vettvangi Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.
Kjarninn beindi fyrirspurnum um útlagðan kostnað vegna málaflokks til þessara sveitarfélaga og þegar fyrri frétt miðilsins fór í loftið á Þorláksmessu höfðu svör borist frá Kópavogsbæ og Hafnarfirði.
Kópavogsbær sagðist hafa greitt rúmar 16 milljónir króna fyrir 772 gistinætur í gistiskýlum á vegum Reykjavíkurborgar, auk þess sem áætlaður kostnaður bæjarins við rekstur áfangaheimilis fyrir 8 karlmenn að Dalbrekku væri 32 milljónir króna.
Hafnarfjarðarbær sagði hins vegar „mjög erfitt að segja til um árlegan kostnað Hafnarfjarðarbæjar vegna þjónustu við heimilislaust fólk“ og einnig kom fram í svari bæjarins að raunhæf heildarmynd á kostnaði kallaði gögn frá mörgum ólíkum aðilum sem hefðu sömu skilgreininguna á heimilisleysi.
Enginn telst heimilislaus á Seltjarnarnesi
Síðan að þessi svör bárust Kjarnanum í aðdraganda jóla hafa Mosfellsbær og Seltjarnarnesbær einnig svarað fyrirspurn miðilsins. Mosfellsbær greiddi Reykjavíkurborg rúmar 5,8 milljónir fyrir gistinætur í neyðarskýlum á síðasta ári, auk þess sem bærinn greiddi gistiheimili í Mosfellsbæ 233 þúsund krónur fyrir gistingu innan sveitarfélagsins.
Í svari frá Seltjarnarnesbæ kemur fram kostnaður bæjarins vegna málaflokks heimilislausra hefði einskorðast við það að greiða Reykjavíkurborg fyrir gistinætur í neyðarskýlum.

Í svarinu frá bænum sagði að árið 2021 hefði enginn einstaklingur með lögheimili á Seltjarnarnesi nýtt sér þjónustu neyðarskýlanna, en árið 2022 hafði Seltjarnarnes greitt fyrir þrjár nætur.
„Í dag telst enginn einstaklingur með lögheimili á Seltjarnarnesi með stöðu sem heimilislaus. Ávallt er reynt að koma í veg fyrir að sú staða komi upp og í því sambandi má nefna að nú er til skoðunar, í samstarfi við sveitarfélögin í Kraganum, hvernig koma megi til móts við heimilislausa,“ segir í svari bæjarins til Kjarnans.