Íslenskir atvinnurekendur hafa tekið ákalli Vinnumálastofnunar um að ráða flóttafólk til starfa vel. Unnur Sverrisdóttir, forstjóri stofnunarinnar, segir að þegar hafi um 150 atvinnurekendur lýst yfir áhuga á að ráða flóttafólk í vinnu og að 120 störf hafi verið skráð á höfuðborgarsvæðinu. Þrjátíu atvinnuleyfi hafa verið gefin út til Úkraínumanna síðasta mánuðinn. „Dreifing starfanna er allt frá ræstingu upp í sérfræðinga í tæknigeiranum og ráðgjafa í félagsþjónustu,“ segir Unnur.
Umsóknum um atvinnuleyfi Úkraínumanna fjölgar sífellt. Í gær voru fjórar umsóknir til afgreiðslu og um hádegið bættust við 20 umsóknir sem fóru til afgreiðslu síðdegis í gær eða í morgun. „Þetta eru störf í ferðaþjónustu, byggingariðnaði, matvælavinnslu og öldrunarþjónustu,“ segir Unnur. Flest leyfin hafa farið á suðvesturhornið en einnig til Akureyrar, Dalvíkur, í Borgarfjörð, Reyðarfjörð og á fleiri staði. „Búist er við að álagið aukist jafnt og þétt næstu vikurnar, að minnsta kosti hvað atvinnuleyfin varðar.“
Spurð hvort að Úkraínumennirnir séu að fá störf við sitt hæfi miðað við sína starfsreynslu og menntun segir Unnur of snemmt að meta það. Fólkið sé nýkomið til landsins og mjög misjafnt hvort það sé að leita að starfi til skamms tíma eða setji strax stefnuna á framtíðarstarf. „Okkur sýnist að sem stendur sé áherslan á það fyrra,“ segir hún. „Þá er þessum einstaklingum frjálst að skipta um eða bæta við sig vinnu kjósi þeir það.“
Fyrir helgi höfðu 872 manneskjur frá Úkraínu sótt um alþjóðlega vernd hér á landi vegna innrásar Rússa í land þeirra. Í hópnum er 461 kona, 242 börn og 168 karlar. Að meðaltali koma um fimm Úkraínumenn hingað til lands á dag og má því búast við að fjöldi þeirra sem hér hafa sótt um hæli nálgist nú 900.
Um 5,5 milljónir manna hafa flúið Úkraínu og til nágrannaríkjanna í Evrópu frá því að innrásin hófst 24. febrúar.
Flóttamenn frá Úkraínu þurfa að fá útgefið atvinnuleyfi til að mega starfa á Íslandi þar sem þeir fá útgefið dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjóðarmiða. Atvinnurekandi sem ætlar að ráða flóttamann frá Úkraínu til starfa þarf því að sækja um atvinnuleyfi og leyfið samþykkt áður en starfsmaður má hefja störf.
Er þetta ferli ekki of flókið og fráhrindandi?
Afgreiðslutíminn er milli 1-3 dagar sem stendur og helst vonandi þannig, svarar Unnur. „Ekki hefur orðið vart við sérstakar óánægjuraddir með afgreiðsluferilinn í okkar samskiptum við atvinnurekendur. Þetta eru tvö blöð sem þarf að fylla út, umsókn og ráðningarsamningur og viðkvæðið á símatímanum hefur frekar verið að þetta sé einfaldara en búist hafi verið við.“
Hún telur jafnframt vert að halda því til haga að við útgáfu atvinnuleyfa gefist kostur á að gæta að launum fólksins og fleiru sem lýtur að réttindum starfsfólks.
Viltu ráða flóttafólk til starfa? Hér getur þú fundið allar upplýsingar.