Páll Halldórsson, formaður BHM, segir að tilboð sem barst frá ríkinu í kjaraviðræðum sé mikil framför frá því sem verið hefur. Enn séu þó "eyður" í tilboðinu sem ræða þurfi betur. BHM mun sýna viðbrögð við tilboðinu á fundi hjá ríkissáttarsemjara í dag. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu.
Páll Halldórsson, formaður BHM, segir þar að tilboðið sé jákvætt skref. "Þetta er ekki fullt tilboð, í þessu er fullt af eyðum. En þegar horft er á stærðargráðurnar í þessu er þetta svipað og Samtök atvinnulífsins hafa boðið öðrum. Við tökum bara við þessu núna og látum þá fá eitthvað á móti."
Gunnar Björnsson, formaður samninganefndar ríkisins, segir við Morgunblaðið að tillögurnar snúi að breytingum á launalið, vinnufyrirkomulagi, veikindarétti og endurmenntun og símenntun. Hann segir tilboðið sambærilegt því sem rætt hefur verið um við aðra.
Vilja sameina kjaraviðræður
Kjaradeilur eru líka til umfjöllunar í Fréttablaðinu. Þar er greint frá því að Samtök atvinnulífsins (SA) kalli eftir því að kjaraviðræður séu sameinaðar þannig að þær nái bæði til almenna vinnumarkaðarins og hins opinbera. "Ég held að svona snúin staða leysist aldrei öðruvísi en náist að eyða ákveðinni tortryggni sem ríkt hefur milli aðila með því að menn komi þá bara sameiginlega að borðinu," segir Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri SA, í samtali við blaðið.
Þessi leið opni fyrir það að hægt verði að gera formlegar kröfur um aðkomu stjórnvalda, sem hafa þegar lýst yfir vilja til að koma að lausn kjaradeilna með einhverjum hætti, til dæmis skattkerfisbreytingum og breytingum á húsnæðismarkaði.