„Ég hélt að ég væri að fara í frí,“ segir Kristine Heinesen um það þegar hún var fimm ára og var flutt um borð í stórt skip. Þetta var árið 1951. Litla veröldin sem hún hafði alist upp í á Grænlandi var að stækka – ævintýri á næsta leyti og svo færi hún aftur heim. Eða það hélt hún. En eftir því sem hún fór lengra frá heimahögunum gerði hún sér grein fyrir því að hún myndi ekki snúa aftur í faðm fjölskyldunnar.
Heinesen er í hópi sex Grænlendinga á áttræðisaldri sem krefja danska ríkið um bætur vegna þeirrar meðferðar sem þau þurftu að þola í æsku. Samtals voru 22 grænlensk börn tekin frá fjölskyldum sínum í tilraun sem hafði það að markmiði að gera þau „dönsk“. Frumbyggjar annarra landa, fólk sem bjó þar áður en Evrópubúar komu sér þar fyrir og gerðu að nýlendum sínum, hafa sagt svipaðar sögur. Skemmst er að minnast uppljóstrana um meðferð barna frumbyggja í heimavistarskólum í Kanada. Mörg þeirra sneru aldrei aftur til síns heima eftir þá ömurlegu vist.
Grænlensku börnin 22 voru á aldrinum 4-9 ára er þau voru tekin og send til Danmerkur þar sem átti að kenna þeim dönsku og gera þau að nokkurs konar „grænlenskri elítu“ eins og því er lýst í fréttaskýringu danska ríkissjónvarpsins um málið. Þegar þau færu aftur til Grænlands áttu þau að leiða áætlanir hinna dönsku nýlenduherra til að nútímavæða landið. Úr þeim átti að gera „nýja tegund af Grænlendingum“ – fyrirmyndir annarra landa þeirra. Þetta var hluti af tilraun – tilraun sem mistókst hrapalega er óhætt að fullyrða.
Kennarar og prestar voru fengnir til að velja börn sem svo átti að „endurmennta“ og veita „betra líf“ í Danmörku. Fjölskyldur barnanna voru hikandi að senda börnin sín frá sér en í maí 1951 fóru 22 börn um borð í skipið MS Disko í Nuuk og til Danmerkur.
Eftir að börnin höfðu dvalið þar í 1-2 ár voru þau vissulega send aftur til Grænlands. En ekki til fjölskyldna sinna heldur á munaðarleysingahæli þar sem þeim var bannað að tala sitt móðurmál – máttu aðeins tala dönsku. Þeim var svo komið fyrir hjá fósturforeldrum.
Mette Frederiksen, danski forsætisráðherrann, baðst í fyrra fyrir hönd lands síns afsökunar á framferðinu. „Við getum ekki breytt því sem gerðist en við getum tekið ábyrgð á því og beðið þá sem við áttum að gæta en brugðumst afsökunar,“ sagði hún við það tækifæri.
Rænd fjölskyldum sínum
Aðeins sex „tilraunabörn“ eru enn á lífi og sendi lögmaður þeirra skaðabótakröfu á hendur danska ríkinu til skrifstofu forsætisráðherra í dag. Fallist ríkið ekki á kröfuna verður látið á hana reyna fyrir dómstólum. „Alla þeirra barnæsku voru þau rænd fjölskyldu sinni og því að fá að vera þau sjálf,“ segir lögmaðurinn Mads Pramming. Ekkert tillit hafi verið tekið til hvað væri börnunum fyrir bestu.
„Það er enn erfitt að tala um þetta,“ hefur danska ríkissjónvarpið eftir Heinesen. Þótt sjö áratugir séu liðnir frá því að hún var tekin frá fjölskyldu sinni hafa sárin ekki gróið. Hún komst ekki að því að hún hafi verið eitt þessara „tilraunabarna“ fyrr en árið 1996. Þá fyrst hafi hún getað komist aftur í samband við ættingja sína.
Hún segir afsökunarbeiðni forsætisráðherrans hafa skipt sig miklu. „Þetta snerti mig því við höfðum barist svo lengi fyrir að vera beðin afsökunar. Að þeir myndu viðurkenna að ríkið hefði gert risastór mistök.“
Gabriel Schmidt er einn sexmenninganna. Hann segir afsökunarbeiðnina ekki vera nóg. Ekki vera nóg til að bæta fyrir tapaða barnæsku. Fái hann skaðabætur ætlar hann að nota þær til að bjóða allri fjölskyldunni til Grænlands.
Bæði Schmidt og Heinesen voru send aftur til Grænlands eftir veruna í Danmörku en það tók þau áratugi að komast aftur í samband við fjölskyldur sínar. Heinesen lærði einhverja grænlensku á ný en Schmidt segist alveg hafa tapað móðurmálinu.
Pramming segir ekki nóg að biðjast afsökunar á framferði stjórnvalda líkt og gefið er í skyn í tilkynningu skrifstofu forsætisráðherra við kröfu „tilraunabarnanna“. Það þurfi einnig að viðurkenna að lög og réttindi barnanna hafi verið brotin. „Og það verður gert með greiðslu skaðabóta.“