Réttindagæsla fatlaðs fólks varð áskynja um að aðstæður á kjörstöðum hefðu ekki verið fullnægjandi fyrir fatlað fólk í kosningum liðinnar helgar. Erfitt var fyrir sumt fatlað fólk að athafna sig í kjörklefa og gátu sumir jafnvel ekki kosið leynilega.
Freyja Haraldsdóttir, réttindagæslumaður fatlaðs fólks, segir í samtali við Kjarnann að réttindagæslan sé á vakt á kjördag en hlutverk þeirra er meðal annars að útvega kosningavottorð til þeirra sem geta ekki með skýrum hætti tjáð vilja sinn og þurfa aðstoð í kjörklefa – annað hvort frá kjörstjórn eða manneskju sem fólk velur sjálft.
„Sumir eru búnir að undirbúa þetta fyrirfram en aðrir hafa ekki náð að undirbúa vottorð eða vita ekki að þess þurfi. Þá erum við til taks svo fólk geti pottþétt kosið. Svo erum við líka á vakt til að taka á móti erindum ef fatlað fólk lendir í vandræðum eða vantar upplýsingar,“ segir hún.
Mikilvægt að hafa gott næði í klefunum
Freyja segir að borið hafi á því að ekki hafi verið nægilega gott aðgengi fyrir fatlað fólk á kjörstöðum, þrengsli hafi sums staðar verið of mikil og kjörklefar jafnvel of litlir. Hæðin á borðum í kjörklefunum virtust jafnframt ekki verið stillanleg, sem hafði þær afleiðingar að þau hentuðu ekki alltaf fólki sem situr eða liggur í hjólastól.
„Við vorum upplýst um tilvik þar sem ekki var hægt að kjósa leynilega. Þá voru ekki alltaf tjöld fyrir klefunum sem gerir það að verkum að það er mjög auðvelt að sjá inn í klefann. Í raun og veru er sérstaklega mikilvægt, myndi ég segja, fyrir aðgengið að hafa gott næði inni í klefanum. Fólk sem nýtir aðstoð verður að geta átt samskipti þar inni og getað talað saman – og oft þarf aðstoðarmanneskja að sýna fötluðu manneskjunni kjörseðilinn og svo framvegis.“
Hún segir að þau vita ekki nákvæma tölu en tilfellin voru allavega fleiri en eitt þar sem ekkert tjald var fyrir klefanum.
„Við munum gera minnisblað og koma þessum ábendingum til framkvæmdaaðila kosninganna og fara yfir það sem fór úrskeiðis. Það er í raun nauðsynlegt að kjörstaðir séu kortlagðir sérstaklega út frá algildri hönnun og fenginn væri einhvers konar aðgengisfulltrúi sem tryggði að kjörstaðir uppfylltu viðmið sem tryggja fullt aðgengi fyrir alla. Til þess að tryggja að kosningar fari fram þannig að fatlað fólk geti raunverulega tekið þátt í þeim og að það sé alveg á hreinu að fólk geti athafnað sig og fái að njóta þeirra mannréttinda sem ófatlaðir borgara hafa – eins og það að kjósa leynilega.“
Skorað á yfirkjörstjórnir að styðja við fatlað fólk í kosningum
Þroskahjálp stóð fyrir herferð fyrir kosningarnar þar sem skorað var á yfirkjörstjórnir og samfélagið allt að styðja við fatlað fólk í kosningum, tryggja óhindrað aðgengi á kjörstað og koma í veg fyrir fordóma. 6.000 manns skrifuðu undir áskorunina.
Í áskorun Þroskahjálpar kemur fram að fatlað fólk hafi hvarvetna í heiminum mátt þola að vera svipt kosningarétti vegna djúpstæðra fordóma og mismununar í lögum og/eða framkvæmd laga og þannig sé það enn mjög víða.
„Ísland er engin undantekning frá því þó að mjög margt hafi skánað og annað muni skána þegar ný kosningalög taka gildi í byrjun næsta árs. En þetta er ekki bara spurning um að lög og reglur kveði á um rétt allra til að kjósa án mismununar. Þetta er líka spurning um ýmsar hindranir í umhverfi og viðhorfum fólks sem mæta fötluðu fólki þegar það ætlar að nýta kosningaréttinn,“ stendur í áskoruninni.
Þá var spurt hvort tryggt væri að þeir sem þess þurfa fái aðstoð til að komast á kjörstað. Enn fremur hvort tryggt væri að aðgengi á kjörstað væri hindrunarlaust og öruggt – og hvort hætta væri á að fólk teldi eðlilegt að fatlað fólk nýtti ekki kosningarétt sinn og drægi jafnvel úr því að gera það.
Þarf að tryggja þekkingu þeirra sem starfa á vettvangi kosninga
Freyja segir að í kosningunum hafi komið upp atvik og aðstæður þar sem erfitt hafi þótt að túlka lögin og verklagið í kringum þau, til að mynda hvað varðar að velja sér aðstoðarmann í kjörklefa. Einnig sé ekki alltaf hægt að treysta að kjörstjórnir og starfsfólk á kjörstað sé fyllilega upplýst um verklagið. „Það þarf að skýra margt betur og fræða alla þá sem starfa við kosningarnar. Að allir viti hver réttindi fólks eru og viti hvaða leiðir er hægt að fara til að tryggja að allir geti kosið.“
Kom á óvart í ljósi herferðar Þroskahjálpar að þetta hafi ekki verið í lagi á kjörstöðum núna?
„Jú, að einhverju leyti kom það á óvart. Auðvitað vonumst við alltaf til þess að kosningar geti gengið þægilega fyrir sig fyrir fatlað fólk, og víða gekk þetta vel, en á sama tíma höfum við séð að það hefur ekki alltaf verið þannig. Þetta kom því kannski ekki mikið á óvart, en maður er samt alltaf að vona að þetta verði í lagi.“
Hún segist fagna því að athygli hafi verið vakin á þessum málum fyrir kosningar – bæði Þroskahjálp með sinni herferð og einstaklingar sem sett hafa sig í samband við þau. „Okkur er mjög annt um að þetta sé í lagi og því er mikilvægt að við séum upplýst ef svo er ekki.“
Hafa tilvik sem þessi einhverjar raunafleiðingar?
„Lögin eru skýr, til dæmis að allir hafi rétt á því að taka þátt í leynilegum kosningum. En það ræðst af því hvað kjósandinn vill gera – kjósandinn sem hefur upplifað brot á þessum réttindum. Einstaklingurinn sem upplifir brotið getur kosið að leggja fram kvörtun eða kæra framkvæmd kosninganna. Geri hann það fer málið í ákveðið ferli og fær þá líklega einhverja niðurstöðu. Það verður bara að koma í ljós hvað fólkið kýs að gera og hvort það ákveði að taka málin lengra,“ segir hún.
Áhyggjuefni ef þetta er ekki í lagi
Freyja segir að henni finnist óeðlilegt að fylgja ekki lögum sem séu öllum borgurum mjög mikilvæg. „Þetta er ein af grunnstoðum lýðræðisins og ef þetta er ekki í lagi þá er það mjög mikið áhyggjuefni.“
Hún bendir enn fremur á og ítrekar að Íslendingar hafi undirritað mannréttindasamning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks þar sem sérstaklega er kveðið á um aðgengi að stjórnmálaþátttöku og aðgengi að lýðræðislegri þátttöku á kosningum. „Þar er mjög skýrt að fólk á að geta valið hver aðstoðar það og fólk á að geta kosið í leynilegum kosningum. Það á að vera öruggt í kosningaþátttöku sinni. Það er grundvallarskylda að stjórnvöld framfylgi því og algjör lágmarkskrafa.“
Í samningnum segir meðal annars að aðildarríkin skulu tryggja fötluðum stjórnmálaleg réttindi og tækifæri til þess að njóta þeirra til jafns við aðra og skulu jafnframt tryggja að fötluðu fólki sé gert kleift að taka virkan og fullan þátt í stjórnmálum og opinberu lífi til jafns við aðra, þar með talinn réttur og tækifæri til þess að kjósa og vera kosinn, meðal annars með því að tryggja að kosningaaðferðir, kosningaaðstaða og kjörgögn séu við hæfi, aðgengileg og auðskilin og auðnotuð.
Einnig skuli vernda rétt fatlaðs fólks til þess að taka þátt í leynilegri atkvæðagreiðslu í kosningum og þjóðaratkvæðagreiðslum án þvingana með hótunum og til þess að bjóða sig fram í kosningum, að gegna embættum með virkum hætti og að sinna öllum opinberum störfum á öllum stigum stjórnsýslu, jafnframt því að greiða fyrir notkun hjálpartækja og nýrrar tækni þar sem við á og að fatlað fólk geti látið vilja sinn óþvingað í ljós sem kjósendur og að heimilað sé í þessu skyni, þar sem nauðsyn krefur og að ósk þess, að það njóti aðstoðar einstaklinga að eigin vali við að greiða atkvæði.
Getur orðið kvíðvænlegt fyrir fatlað fólk að kjósa – sem dregur úr kjörsókn
Næstu sveitarstjórnarkosningar fara fram í maí á næsta ári og segir Freyja að mikilvægt sé að læra af þessari framkvæmd kosninga.
„Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem koma upp vandamál á kosningadag og við kosningar – og þess vegna getur þetta orðið mjög þreytandi fyrir fatlað fólk og kvíðvænlegt að fara að kjósa. Sem getur haft áhrif á kosningaþátttöku hópsins,“ segir hún.
Hún segir að fleiri hindranir séu í vegi fólks sem tilheyrir minnihlutahópum en öðrum, til dæmis til að kjósa sem dragi úr kjörsókn. Þetta megi ekki einungis sjá hér á landi heldur líka erlendis. „Það þarf að kortleggja hvaða breytinga er þörf og fara yfir það á hverjum kjörstað hvort allt sé í lagi. Allur strúktúr verður að vera eins skýr og hægt er til að fyrirbyggja að fatlað fólk upplifi mismunun þegar það ætlar að nota kosningaréttinn sinn.“