„Við erum á samkeppnismarkaði eins og aðrir og erum að fara að semja við aðra um þessa vegaaðstoð fyrir okkar viðskiptavini, tímasetningin er bara tilfallandi,“ segir Jóhann Þórsson, markaðsstjóri Sjóvá, um fullyrðingu Félags íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB) þess efnis að Sjóvá hafi rift samningi um vegaþjónustu í hefndarskyni eftir að félagið gagnrýndi tryggingafélagið fyrir fimm milljarða króna greiðslur til hluthafa.
Uppsögnin barst í lok október, fjórum vikum eftir að FÍB birti áskorun til Sjóvár um að skila ofteknum iðgjöldum til viðskiptavina frekar en láta þau renna í vasa hluthafa. Jóhann segir að til hafi staðið að segja upp samningi við FÍB áður en félagið gagnrýndi Sjóvá í fjölmiðlum í haust en ákveðið hafi verið að framlengja samninginn til að koma í veg fyrir að uppsögnin liti út eins og hefndaraðgerð. Það virðist hins vegar ekki hafa tekist, að minnsta kosti ekki að mati FÍB.
Hafa ekkert út á FÍB að setja
„FÍB gagnrýnir okkur allt árið, síðan segjum við upp samningi og þá á það að vera í hefndarskyni. Við höfum ekkert út á FÍB að setja þannig, það er gott að einhver er að standa vörð um eigendur bíla á Íslandi. Þetta er alls ekki af því að þau eru að gagnrýna okkur, við fengum aðila sem er, að okkar finnst, betri í þetta. Tímasetningin er tilfallandi,“ segir Jóhann. Viðskiptavinum Sjóvá verður greint frá hver nýi aðilinn er áður en það verður tilkynnt formlega en von er á því á næstu vikum.
Samningur FÍB við Sjóvá rennur formlega út í lok febrúar. „Á sama tíma erum við búin að semja við aðila sem á að taka við þessu. Það er sannleikurinn í þessu,“ segir Jóhann.
Varðandi gagnrýni FÍB um fimm milljarða króna greiðslur til hluthafa segir Jóhann þær eðlilegan hluta af fyrirtækjarekstri. „Þetta eru fyrst og fremst lífeyrissjóðir sem eru að fá pening, allir sem fjárfesta í hlutafélögum gera ráð fyrir að fá til baka fyrir fjárfestinguna sína.“
Gagnrýni FÍB er samt sem áður skiljanleg að mati Sjóvá. „En á sama tíma felldum við niður iðgjöld bifreiðatrygginga 2020 og við endurgreiðum viðskiptavinum okkar sem eru tjónlausir einu sinni á ári, við erum vissulega að borga viðskiptavinum okkar til baka þegar það er hægt.“