Undanfarnar vikur hafa borist fregnir af því að ungt framsóknarfólk hafi sagt sig úr flokknum vegna umræðunnar um mosku í Sogamýri, sem komst í hámæli fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í maí. Skemmst er að minnast harðorðrar ályktunar Sambands ungra framsóknarmanna í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga, þar sem ungliðahreyfing flokksins lýsti yfir fullkomnu vantrausti á Sveinbjörgu Birnu Sveinbjörnsdóttur, oddvita flokksins í Reykjavík.
Ungliðahreyfingar gamalgrónu stjórnmálaaflanna hafa yfirleitt verið róttækar og hafa oft gagnrýnt flokksforystuna eða talað fyrir málum sem ekki hafa komist á dagskrá hennar. Í því samhengi má til dæmis nefna sölu áfengis í matvörubúðum, sem ungir sjálfstæðismenn hafa barist fyrir að verði leyfð í mörg ár án þess að flokkurinn, sem hefur setið á valdastóli meira eða minna síðustu áratugi, aðhafist nokkuð.
[embed]http://issuu.com/kjarninn/docs/2014_07_24/25[/embed]
Reglulega koma upp mál þar sem ungliðahreyfingar flokkanna sjá sig knúnar til að gagnrýna flokksforystuna opinberlega. Ungum Vinstri grænum gramdist það til dæmis mjög að Ísland sækti um aðild að Evrópusambandinu á meðan flokkurinn var í ríkisstjórn og viðruðu þá afstöðu sína ítrekað. Nýlega gagnrýndu Ungir jafnaðarmenn formann Samfylkingarinnar fyrir ummæli sín um þjóðkirkjuna og þegar Davíð Oddsson talaði fyrir fjölmiðlafrumvarpinu árið 2004 voru ungliðahreyfingar Sjálfstæðisflokksins mótfallnar grundvallaratriðum aðgerðanna sem ráðast átti í gegn fjölmiðlum Jóns Ásgeirs Jóhannessonar.
En kann að vera að ungt fólk hafi ekki þau áhrif sem það ætti að hafa í krafti fjölda síns? Ætti rúmlega fimmtungur fólks á kjörskrá ekki að eiga sína fulltrúa á þingi?
Árni Helgason, lögmaður og fyrrverandi framkvæmdastjóri þingflokks Sjálfstæðisflokksins, ritaði áhugaverðan pistil í Kjarnann í síðustu viku. Þar bendir hann á að ekki séu margir þingmenn á Alþingi undir fertugu; það sé af sem áður var þegar helstu stjórnmálaleiðtogar á Íslandi voru komnir í valdastöður áður en þeir urðu hálffertugir. „Í Sjálfstæðisflokknum í dag er einn þingmaður undir fertugu, í Samfylkingunni er yngsti þingmaðurinn 39 ára og í Vinstri grænum er formaður flokksins í leiðinni langyngsti þingmaðurinn, 38 ára, og eini þingmaður flokksins sem er yngri en 45 ára,“ skrifaði Árni og spyr hvernig það standi á því að heil kynslóð sé nánast ekki með.
Kjarninn tók saman meðalaldur þingheims, bæði í sögulegu ljósi og miðað við önnur þjóðþing á Norðurlöndum. Lestu Kjarnann hér.