Tíu fyrirtæki hafa verið valin til að taka þátt í Startup Reykjavík viðskiptahraðlinum sem fram fer í fjórða sinn nú í sumar. Alls sóttu um 150 fyrirtæki um að taka þátt en aðeins tíu fá tækifæri til að njóta leiðsagnar reyndra frumkvöðla og fjárfesta.
Startup Reykjavík hlaut verðlaun fyrr í vikunni sem besti viðskiptahraðallinn á Norðurlöndum á Nordic Startup Awards sem veitt voru í Helsinki. Arion banki og frumkvöðlasetrið Klak Innovit standa að verkefninu líkt og undanfarin ár.
Fyrirtækin tíu sem fá að taka þátt í ár eru jafn mismunandi og þau eru mörg. Eitt fyrirtæki stefnir að því að rækta hágæða wasabi-plöntur, annað ætlar að tengja bíla og snjallsíma, og svo er eitt sem ætla að brugga bjór úr íslenskum hráefnum.
Arion banki fjárfestir 2 milljónum króna fyrir 6 prósent hlutafé í öllum fyrirtækjunum sem valin hafa verið og fjármagnar vinnusmiðjur og alla aðstöðu fyrirtækjanna í sumar. „Framkvæmd viðskiptahugmynda veltur mest á því fólki sem við hana starfar og við hlökkum til að vinna með þeim í sumar og í framhaldinu,“ segir Einar Gunnar Guðmundsson, fulltrúi Arion banka í verkefninu. „Það að Startup Reykjavík hafi verið valinn viðskiptahraðall ársins á Norðurlöndunum nýlega setur svo jákvæðan þrýsting á okkur að halda áfram að efla frumkvöðlaumhverfið á Íslandi.“
Kjarninn mun fjalla ítarlega um Startup Reykjavík í sumar og skoða hvert fyrirtæki sérstaklega líkt og fyrir ári síðan. Hér að neðan má sjá yfirlit yfir fyrirtækin tíu samkvæmt fréttatilkynningu frá Startup Reykjavík.
Þátttakendur í Startup Reykjavík 2015
Aðstandendur og þátttakendur í Startup Reykjavík 2014. Tilkynnt var á ráðstefnunni Startup Iceland hverjir fá tækifæri í sumar. (Mynd: Halldóra Ólafsdóttir)
Wasabi Iceland - Ætla að rækta hágæða wasabi á Íslandi með því að nýta hreint vatn og endurnýjanlega orku.
Kvasir software - Munu nútímavæða borðspil þar sem síminn þinn er stjórntækið og sjónvarpið borðspilið.
Farma - Tengir saman rafræn skilríki og rafræna lyfseðla. Fólk getur keypt lyf á netinu með öruggum hætti og fengið sent heim.
Viking Cars - Vettvangur til þess að deila bílnum sínum með öðrum með öruggum hætti - þetta er eins og Airbnb fyrir bíla.
Spor í sandinn - Munu byggja sjálfbært vistkerfi í hjarta borgarinnar sem býður upp á nýja upplifun í ferðaþjónustu.
Genki instruments – Eru að þróa nýstárleg raftónlistarhljóðfæri sem tengja má saman með áður óséðum hætti.
Three42 - Hugbúnaður sem tekur við upplýsingum úr bílnum þínum og tengir beint við snjallsímann.
Delphi - Nýta þekkingu fjöldans til þess að spá fyrir um tiltekna viðburði í framtíðinni.
PuppIT - Þróa tækni til að taka upp myndefni í rauntíma til þess að nýta fyrir kvikmyndir, leiki, leikhús og sýndarveruleika.
Hún / Hann Brugghús - Stefna að því að búa til hágæða bjór úr íslenskum hráefnum.
Uppfært 29. maí kl 13:29.
Undir mynd með fréttinni sagði að þar bæri að líta hópinn sem tekur þátt árið 2015. Rétt er að þetta er hópurinn síðan í fyrra.