1 Hægriflokkurinn Lög og regla vann mikinn meirihluta í Póllandi undir forystu Jaroslaw Kaczynski. Sá er andstæðingur aðildar að Evrópusambandinu. Flokkurinn fékk 242 þingmenn kjörna af 460.
2 Hvalaskoðunarbátur sökk undan vesturströnd Kanada á sunnudag. Fjórir af 27 farþegum um borð eru látnir en fimm aðrir voru fluttir á sjúkrahús til aðhlynningar. Firðirnir á vesturströnd Kanada eru vinsælir hvalaskoðunarstaðir.
3 Haldin verður önnur umferð forsetakosninga í Argentínu 22. nóvember því hvorki Daniel Scioli né Mauricio Macri hlutu nægilega mörg atkvæði til að ná kjöri. Forseti Argentínu hefur aldrei áður verið kjörinn í annari umferð kosninga. Frambjóðandi þarf 45 prósent atkvæða í fyrstu umferð til að ná kjöri.
4 Tony Blair hefur sagt að það sé „vottur af sannleika“ í því að stríðið í Írak hafi stuðlað að risi Íslamska ríkisins. Þetta lét hann hafa eftir sér í viðtali við bandarísku sjónvarpstöðina CNN en segist ekki sjá eftir því að Saddam Hussein hafi verið ruddur frá völdum.
5 Evrópusambandið og ríkin á Balkanskaga hafa samþykkt áætlun sem miðar að stjórnun flæðis flóttafólks um Balkanskaga á leið sinni frá Grikklandi til Þýskalands. Meðal annars verða sett upp 100 þúsund móttökuskýli á leiðinni.
6 Jimmy Morales, fyrrverandi sjónvarpsspaugfugl, er forseti Gvatemala eftir að hafa unnið fyrrum forsetafrúnna Söndru Torres í seinni umferð forsetakosninga þar í landi. Morales hefur enga reynslu af stjórnmálum.
7 Bandaríkjastjórn hefur áhyggjur af umferð rússneskra kafbáta og njósnaskipa nærri sæstrengjum sem bera megnið af Internetsamskiptum heimsins. Vestanhafs er talið að Rússar ætli sér að rjúfa strengina komi til átaka.
8 Leiðtogar Kommúnistaflokks Kína hófu fjögurra daga ráðstefnu í dag þar sem markmið næstu fimm ára verða rædd og ákveðin. Þetta er í 13. sinn sem slíkt þing er haldið síðan Alþýðulýðveldið Kína var stofnað árið 1949.
9 Háskólinn í Witwatersrand í Suður-Afríku verður ekki opnaður í dag því mótmæli stúdenta þar í landi halda áfram. Stúdentarnir eru óánægðir með áform stjórnvalda um að hækka námsgjöld. Mótmælin halda áfram þrátt fyrir að Jacob Zuma, forseti Suður-Afríku, hafi lofað að hækka skólagjöldin ekki á næsta ári.
10 Lögreglan í Köln þurfti að beita vatnsbyssum til að stöðva slagsmál milli þúsund rótækra vinstrimanna og hundruð stuðningsmanna útlendingahaturshópsins „Spellvirkjar gegn Salafistum“ (e. Hooligans Against Salafists). Hópurinn vill halda flóttamönnum utan Þýskalands.