Eins og svo oft áður hefur fjölmiðillinn Business Insider tekið saman lista yfir tíu mikilvægustu hlutina sem eru að gerast í heiminum í dag.
- Bardagamenn Íslamska ríkisins hafa lýst því yfir að þeir hafi náð fullum yfirráðum yfir írösku borginni Ramadi í gær. Þetta er stærsti sigur þeirra frá því síðasta sumar.
- Þúsundir mótmælenda komu saman fyrir utan skrifstofur forsætisráðherrans í Makedóníu í gær, í kjölfar þess að upptökur af honum voru gerðar opinberar. Af upptökunum má heyra að stjórnvöld virðist hafa stjórn á blaðamönnum, dómurum og fyrirkomulagi kosninga, að því er Reuters segir.
- Bandarísk hersveit drap háttsettan mann hjá Íslamska ríkinu í árás í austurhluta Sýrlands í nótt.
- Forseti Búrúndí, Pierre Nkurunziza, kom fram opinberlega í gær í fyrsta skipti eftir að reynt var að steypa honum af stóli í síðustu viku.
- Níu létust og fjöldi fólks særðist í skotárás á veitingastað í Texas í gær. Þrjú bifhjólagengi áttu hlut að máli.
- Háttsettur embættismaður í Íran segir að samtök olíuútflutningslanda, OPEC, muni líklega ekki ákveða að draga úr olíuframleiðslu á næsta fundi sínum í júní.
- Nígeríski herinn eyðilagði tíu búðir hryðjuverkasamtakanna Boko Haram í Sambisa-skóginum í gær.
- Þrýst er á kanslara Þýskalands, Angelu Merkel, að birta lista yfir þær tölvur sem þýsk yfirvöld fylgdust með í samstarfi við NSA, þjóðaröryggisstofnun Bandaríkjanna.
- Grikkir gátu staðið í skilum við lánardrottna sína í maí þrátt fyrir að hafa sagt fyrirfram að það myndu þeir ekki geta. Þeir borguðu Alþjóðagjaldeyrissjóðnum 750 milljónir evra, og hafa greint frá því að peningar hafi verið sóttir í varasjóði til þess.
- Víetnamar eru á móti banni sem Kínverjar vilja setja á allar fiskveiðar í Tonkin-flóa. Víetnamar segja bann Kínverja brjóta gegn réttindum þeirra.