Íslenska ríkisstjórnin hyggst taka á móti fleiri afgönskum flóttamönnum en Bretar, en færri flóttamönnum en Bandaríkjamenn og Kanadabúar, ef tekið er tillit til mannfjölda.
Samkvæmt nýlegri umfjöllun Newsweek um málið hefur bandaríska ríkisstjórnin samþykkt að taka á móti allt að 125 þúsund flóttamönnum frá Afganistan fyrir lok næsta árs. Breska ríkisstjórnin hefur aftur á móti sagst ætla að taka á móti 20 þúsund flóttamönnum þaðan, en búast má við að 5 þúsund þeirra muni koma til landsins fyrir lok þessa árs.
Marco Mendicino, innflytjendamálaráðherra Kanada, tilkynnti svo á Twitter fyrir tæpum tveimur vikum síðan að ríkisstjórnin þar í landi ætli að taka á móti 20 þúsund afgönskum flóttamönnum. Til samanburðar samþykkti íslenska ríkisstjórnin að taka á móti 120 afgönskum flóttamönnum vegna ástandsins þar í landi í síðustu viku.
Samkvæmt þessum yfirlýsingum má því búast við að rúmlega þremur afgönskum flóttamönnum verði gefið dvalarleyfi hér á landi fyrir hverja 10 þúsund íbúa, nánar tiltekið 3,2. Þetta er nokkuð hærra en í Bretlandi, þar sem búast má við færri en þremur afgönskum flóttamönnum á hverja 10 þúsund íbúa, en lægra en í Bandaríkjunum, sem hyggjast ætla að taka á móti 3,6 afgönskum flóttamönnum á hverja 10 þúsund íbúa.
Höfum tekið á móti færri Afgönum en hin Norðurlöndin
Samkvæmt tölum frá flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) bjuggu rúmlega 120 afganskir flóttamenn hér á landi í fyrra, eða rúmlega þrír fyrir hverja 10 þúsund íbúa. Þetta er lægsta hlutfall afganskra flóttamanna á öllum Norðurlöndum, líkt og sjá má á mynd hér að neðan.
Til samanburðar hafa dönsk stjórnvöld tekið á móti fjórum afgönskum flóttamönnum á hverja 10 þúsund íbúa, en Finnar hafa tekið á móti sex og Norðmenn sjö. Langhæsta hlutfallið er þó í Svíþjóð, en þar bjuggu tæplega 30 þúsund afganskir flóttamenn í fyrra. Þetta jafngildir 29 flóttamönnum á hverja tíu þúsund íbúa.
Aftur á móti hafa Bretar, Bandaríkjamenn og Kanadamenn tekið á móti mjög fáum afgönskum flóttamönnum hingað til. Samkvæmt sömu tölum voru þeir einungis um 1.600 talsins í Bandaríkjunum í fyrra, sem jafngildir 0,05 á hverja 10 þúsund íbúa. Í Kanada voru 0,6 afganskir flóttamenn á hverja 10 þúsund íbúa, en í Bretlandi nam samsvarandi hlutfall 1,3.