Trúnaðarmenn Eflingar og VR, sem hafa undanfarna daga átt fundi með lögmanni stjórnar Eflingar vegna fyrirhugaðrar hópuppsagnar starfsmanna stéttarfélagsins, segjast telja að ekkert af yfirlýstum markmiðum stjórnar Eflingar krefjist þess að öllu starfsfólki stéttarfélagsins verði sagt upp.
Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá trúnaðarmönnunum, þeim Ölmu Pálmadóttur og Gabríel Benjamin, sem hafa sent til fjölmiðla formlega bókun þeirra og lögmanns sem tók þátt í samráðsferlinu fyrir hönd stjórnar Eflingar.
Þau Alma og Gabríel segjast ekki lengur telja sig bundin trúnaði um það samráðsferli sem þau tóku þátt í sem trúnaðarmenn starfsmanna hjá Eflingu, en tilgangur þess samkvæmt lögum er að „forðast hópuppsagnir eða fækka starfsmönnum sem fyrir þeim verða og draga úr afleiðingum með hjálp félagslegra aðgerða“.
Í yfirlýsingu þeirra segir að þau sem trúnaðarmenn hafi farið á þessa fundi með „opnum hug“ og að þau hafi reynt „eftir fremsta megni að leita leiða til þess að komast hjá þessum hópuppsögnum eða milda þær.“
„Við gáfum til kynna að við tækjum allar tillögur alvarlega og reyndum að vera samstarfsfús til lausna. Ekkert varð úr því. Við getum ekki sagt að um samráð hafi verið um að ræða í skilningi laga um hópuppsagnir, engin vilji var til breytinga eða mildunar á hópuppsögn heldur einhliða ákvörðun sem er röng, óskynsamleg og með öllu ónauðsynleg. Gefnar voru upp ástæður sem fólust í breytingum á ráðningarkjörum og til að uppfylla skilyrði varðandi jafnlaunavottun. Þessar ástæður eru ekki byggðar á rökum og halda engu vatni,“ segir í yfirlýsingu þeirra Ölmu og Gabríels.
Lýstu andstöðu við uppsagnirnar
Þau segja að fullyrðingar Sólveigar Önnu Jónsdóttur formanns Eflingar, um að samkomulag hafi náðst um framkvæmd hópuppsagnar, séu rangar með öllu, en í bókuninni sem þau láta fylgja með segir að trúnaðarmennirnir lýsi yfir andstöðu við hópuppsögnina og að þau telji ekkert því til fyrirstöðu að ná yfirlýstum markmiðum stjórnar með öðrum hætti.
„Þegar ljóst var að ekki væri hægt að koma í veg fyrir eða milda þessar aðgerðir hófst samtal um hvernig mætti standa að þeim og úr því varð bókun. Í þeirri bókun ítrekuðum við andmæli okkar við hópuppsögnina en komumst að samkomulagi um fjögur atriði varðandi uppsagnirnar,“ segja þau Alma og Gabríels og bæta því við að þau hefðu, eftir á að hyggja, viljað að hverjum og einum starfsmanni yrði afhent uppsögnin af hendi formanns.
Sólveig Anna greindi fyrr í dag frá þessum fjórum atriðum sem samkomulag náðist um, en þau fela í sér að starfsmenn sem þess óska verði leystir undan vinnuskyldu síðasta mánuð uppsagnarfrests, öllum starfsmönnum verði tryggður að lágmarki 3 mánaða uppsagnarfrestur, einnig þeim sem ekki hafa áunnið sér hann, að Efling muni falla frá réttindum og skyldum í tilvikum þar sem starfsmaður óskar að ganga í annað starf áður en uppsagnarfrestur er liðinn og að starfsfólki Eflingar verði veitt svigrúm til að sækjast eftir öðrum störfum á uppsagnarfresti óski það þess.