„Sagan segir okkur að við höfum oft farið óðslega fram í orkuöflun gagnvart viðkvæmri og einstakri náttúru landsins. Við ætlum sannarlega að byggja upp grænt og kolefnishlutlaust samfélag og ná fullum orkuskiptum fyrir árið 2040. En það þarf að ríkja sátt um nýjar virkjanir og áður en kemur til þeirra þurfum við að leita allra leiða til þess að spara og fara betur með þá orku sem þegar er framleidd, bæta nýtingu í virkjunum sem þegar hafa verið reistar og takmarka orkutap í orkukerfinu en ekki einungis horfa til hagnaðar eigenda orkufyrirtækjanna í krónum talið.“
Þetta skrifar Orri Páll Jóhannsson, þingflokksformaður Vinstri grænna í grein á Vísi í morgun. Kjarninn hefur undanfarið fjallað um hina rúmlega fimm ára gömlu tillögu að þriðja áfanga rammaáætlunar sem verður í fjórða sinn lögð fram á Alþingi í lok mars. Tilefni umfjöllunarinnar er sú að dagsetning á framlagningu þingsályktunartillögunnar hefur verið ákveðin og einnig sú að í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar frá því nóvember er að finna loforð um að lokið verði við þriðja áfanga rammaáætlunar. Því er hins vegar bætt við, í sömu setningu, að kostum í biðflokki verði fjölgað. Frekari útskýringar hafa stjórnvöld ekki gefið á hvað standi til og spurningum Kjarnans til umhverfisráðherra hefur enn ekki verið svarað.
Í kjölfar birtingar stjórnarsáttmálans hafa því vaknað ýmsar spurningar um hvernig ríkisstjórnin hyggst fjölga kostum í biðflokki en verði það gert í þinglegri meðferð tillögunnar þýðir það væntanlega að kostir verði færðir úr annað hvort verndarflokki eða nýtingarflokki í þann flokk. Nema að hvort tveggja sé. Hægt er að hreyfa við flokkuninni svo lengi sem Orkustofnun hafi ekki gefið út virkjanaleyfi fyrir kosti í nýtingarflokki eða svæði í verndarflokki hafi verið friðlýst.
Í stjórnarsáttmála er einnig kveðið á um algjöra endurskoðun laganna sem rammaáætlun byggir á. Hvort þriðji áfanginn verði hins vegar afgreiddur með einhverjum hætti áður en að því kemur, mun skýrast á næstunni.
Hugsa þurfi áratugi fram í tímann
Orri Páll skrifar í grein sinni að okkur beri að fara vel með náttúru landsins og orkuna sem eru verðmæt en takmörkuð gæði. Því þurfi að „hugsa lausnir marga áratugi fram í tímann en ekki til skamms tíma“.
Hann skrifar að þegar fram í sæki muni skorta raforku til þess að mæta stærstu áskorun samtímans; loftslagsbreytingum. Til þess að stemma stigu við þeim þurfum við m.a. að hraða orkuskiptum. „En höfum í huga að þó svo það muni þurfa að afla frekari orku vegna orkuskipta þegar fram í sækir, eins og forstjóri Landsvirkjunar sagði í nýlegu viðtali, þá erum við að horfa til næstu áratuga í því samhengi. Við ætlum okkur að hafa náð fullum orkuskiptum eigi síðar en árið 2040 og því þurfum við að taka öll skref af vel yfirlögðu ráði, leggja hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar til grundvallar og treysta náttúruvernd.“
Tekur undir með orkumálastjóra
Hann segir brýnt að við komum okkur saman um forgangsröðun í hvað þurfi orku og þá hversu mikillar orku þurfi að afla til viðbótar. Orkumálastjóri fjallaði um einmitt þetta í grein á Vísi nýverið þar sem hún benti á að það væri ekki gefið að aukin orkuframleiðsla eða fjárfestingar í flutningskerfinu myndu skila sér beint í auknum árangri í orkuskiptum. Krafan á orkufyrirtæki að hámarka hagnað í þágu eigenda sinna færi ekki endilega saman með því að íbúum og smærri fyrirtækjum á köldum svæðum séu tryggð raforka. „Ég tek því heilshugar undir með orkumálastjóra sem segir þörf á að kortleggja orkumarkaðinn og skapa lagaumgjörð sem tryggi að framvegis rati umframorka og ný orkuöflun til orkuskipta,“ skrifar Orri Páll. „Þannig má tryggja að við náum markmiðum okkar um að verða óháð jarðefnaeldsneyti og kolefnishlutlaus árið 2040.“