Þrjú mál er varða kynferðislega áreitni hafa borist á borð stjórnenda Landhelgisgæslunnar síðastliðin 4 ár. Tveimur málum hefur verið lokið með sátt milli aðila og er eitt mál nú í skoðun.
Þetta kemur fram í svari Landhelgisgæslunnar við fyrirspurn Kjarnans.
Unnið er eftir stefnu og viðbragðsáætlun Landhelgisgæslu Íslands gegn einelti, ofbeldi og áreitni á vinnustað, að því er fram kemur í svarinu.
Í svarinu kemur jafnframt fram að einn af skipherrum Landhelgisgæslunnar sé kominn í leyfi á meðan frumrannsókn á samskiptum um borð í varðskipinu Tý fer fram. Ástæða rannsóknarinnar séu ábendingar sem bárust stjórnendum Landhelgisgæslunnar helgina 18. til 19. september vegna gruns um kynferðislega áreitni.
Tveir óháðir aðilar rannsaka málið
Kynferðisleg áreitni er samkvæmt viðbragðsáætluninni hvers kyns kynferðisleg hegðun sem er í óþökk þess sem fyrir henni verður og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi einkum þegar hegðunin leiðir til ógnandi, fjandsamlegra, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi aðstæðna. Hegðunin getur verið orðbundin, táknræn og/eða líkamleg.
„Landhelgisgæslan lítur málið alvarlegum augum og brást strax við með því að fá tvo óháða aðila til að annast rannsókn á umræddum atriðum. Sú rannsókn stendur yfir,“ segir í svarinu til Kjarnans.
Meintir þolendur tvær ungar konur
RÚV greindi frá málinu þann 21. september síðastliðinn en í frétt RÚV kemur fram að skipherra á varðskipi Landhelgisgæslunnar hefði verið settur í leyfi vegna gruns um kynferðislega áreitni. Þá herma heimildir fréttastofu RÚV að þolendurnir í málinu sem nú er til rannsóknar séu tvær ungar konur í áhöfn varðskipsins.
Mannlíf fjallaði einnig um málið 18. september en í frétt miðilsins var því haldið fram að innan sjódeildar Landhelgisgæslunnar hefði viðgengist einelti og kynferðisleg áreitni gagnvart kvenkyns starfsmönnum. Margar hefðu „hrökklast frá“ Landhelgisgæslunni í gegnum tíðina eða verið sagt upp.