Tveir starfsmenn mennta- og barnamálaráðuneytisins og tveir embættismenn höfnuðu flutningi milli ráðuneyta í kjölfar breytinga á skipan ráðuneyta sem samþykkt var á Alþingi í lok janúar.
Starfsmennirnir tveir sinna áfram störfum í mennta- og barnamálaráðuneytinu. Einn embættismaður lét af störfum og fær biðlaunagreiðslur, alls 22 milljónir króna. Þá var einum embættismanni veitt lausn frá embætti með lögmæltum eftirlaunum. Kostnaður ríkissjóðs vegna eftirlaunagreiðslnanna liggja ekki fyrir að því er fram kemur í fyrirspurn Kjarnans til ráðuneytisins.
Líkt og Kjarninn hefur greint frá er gert ráð fyrir að kostnaður þessara breytinga verði 505 milljónir á næsta ári. Ekki er ljóst hvort kostnaður vegna höfnunar starfs- og embættismanna á flutningi milli ráðuneyta sé tekinn með en slíkt mat hefur að minnsta kosti ekki verið tekið saman samkvæmt upplýsingum Kjarnans.
Samkvæmt frumvarpi til fjáraukalaga sem Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra lagði fram í síðasta mánuði verða fjárheimildir að upphæð 120 milljarða króna færðar til vegna breyttrar skipan Stjórnarráðs Íslands.
Aðeins starfs- og embættismenn í mennta- og barnamálaráðuneyti sem höfnuðu flutningi
Með breyttri skipan ráðuneyta var ráðuneytum fjölgað úr tíu í tólf, málaflokkar færðir til og heiti ráðuneyta breyttust. Í stað atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis, félagsmálaráðuneytis, mennta- og menningarmálaráðuneytis, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis og umhverfis- og auðlindaráðuneytis komu félags- og vinnumarkaðsráðuneyti, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti, innviðaráðuneyti, matvælaráðuneyti, menningar- og viðskiptaráðuneyti, mennta- og barnamálaráðuneyti og umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti.
Kjarninn sendi fyrirspurn á öll tólf ráðuneytin og óskaði eftir upplýsingum um hvort starfsmenn eða embættismenn hefðu hafnað flutningi á milli ráðuneyta.
Engir starfsmenn eða embættismenn í umhverfis- orku- og loftslagsráðuneytinu voru fluttir á milli ráðuneyta. Tveir starfsmenn annars ráðuneytis þáðu aftur á móti starf hjá ráðuneytinu í tengslum við ný verkefni sem færð voru til ráðuneytisins vegna breytinganna.
Enginn úr starfsliði ráðuneytisins hafnaði flutningi í tengslum við breytta skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands. Fimm einstaklingar, sem sinntu málefnum fjarskipta og netöryggismála, fluttust frá ráðuneytinu, þar af einn embættismaður.
Í svari frá menningar- og viðskiptaráðuneyti til Kjarnans segir að þar sem ráðuneytið var stofnað við breytinguna á Stjórnarráðinu voru í raun engir starfsmenn sem höfnuðu flutningi frá ráðuneytinu, heldur háttaði málum svo að starfsmenn komu til menningar- og viðskiptaráðuneytisins frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu (nú matvælaráðuneyti) og mennta- og menningarmálaráðuneyti (nú mennta og barnamálaráðuneyti) og ráðuneytisstjóri, Skúli Eggert Þórðarson, kom frá Ríkisendurskoðun.
Einn starfsmaður fór frá dómsmálaráðuneytinu til forsætisráðuneytisins og setti sig ekki upp á móti þeim flutningi.
Engir starfsmenn eða embættismenn matvælaráðuneytisins höfnuðu flutningi þegar matvælaráðuneytið var stofnað. Það sama gildir um forsætisráðuneytið, fjármála- og efnahagsráðuneytið, utanríkisráðuneytið, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti, heilbrigðisráðuneytið og félags- og vinnumarkaðsráðuneytið.