Nýsköpunarfyrirtækin Arctus og Crowbar Protein fengu inngöngu í viðskiptahraðalinn Climate-KIC á dögunum. Þrjú íslensk teymi tóku þátt í úrslitum ClimateLaunchpad, stærstu hugmyndasamkeppni í tengslum við loftslagsmál í heiminum, í Amsterdam. Alls bárust 35 íslenskar hugmyndir í keppnina.
Fyrirtækið Arctus hlaut annað sæti í hugmyndasamkeppninni. Jón Hjaltalín Magnússon fór fyrir Arctus í Amsterdam en fyrirtækið er stofnað í kringum orkunýtari og umhverfisvænni aðferð til að framleiða ál en hingað til hefur verið gert. Í tilkynningu frá Klak Innovit segir að Arctus hafi hlotið 5.000 evrur í verðlaunafé, andvirði um það bil 750.000 krónum. Engin útblástur koltvíoxíðs fylgir framleiðsluaðferðinni því kolaskaut eru ekki notuð eins og hefðbundnum álverum.
Þá varð Crowbar Protein, fyrirtæki Stefáns Atla Thorodssen og Búa Bjarmars Aðalsteinssonar, meðal tíu bestu hugmyndanna sem fá inngöngu í Climate-KIC. Fyrirtækið framleiðir matvörur úr skordýrum og hefur tekið þátt í hugmyndasamkeppnum hér Íslandi, bæði Gulleginu og Startup Reykjavík, með góðum árangri.
Sigurhugmyndin, Desertcontrol, kemur frá Noregi og gengur út á að búa til ræktarland í söndugum jörðum eins og eyðimerkum. Hugmyndin stuðlar að því að halda næringarefnum planta og vatni í jarðveginum, eins og í náttúrulegu ræktarlandi. Desertcontrol hlaut 10.000 evrur í verðlaunafé til að þróa hugmynd sína áfram.
Þriðja íslenska fyrirtækið sem kynnt var í samkeppninni í Amsterdam var e1. Axel Rúnar Eyþórsson fór fór fyrir því teymi, en þar er stefnt að því að búa til markaðstorg fyrir eigendur rafbíla og eigendur hleðslustöðva. Með appi í snjallsíma má svo finna hagstæðustu lausu hleðslustöðina.
Nálægðin við náttúruna hvetur til grænnar nýsköpunar
Stefán Þór Helgason
„Ég held að Íslendingar sjái betur tækifærin í endurnýjanlegri orku því hún er allt í kringum okkur,“ segir Stefán Þór Helgason, verkefnisstjóri hjá Klak Innovit. Hann hélt utan um þátttöku Íslands í keppninni í Amsterdam. „Af því að Íslendingar hafa í gegnum árin nýtt græna og hreina orku, með því að virkja fallvötnin og nota jarðhita, þá eru tækifærin svo skýr fyrir framan okkur. Ísland er svo fullkominn staður, bæði til þess að sjá möguleikana og til að gera tilraunir.“
Klak Innovit stendur nú fyrir tveimur viðskiptahröðlum fyrir nýsköpunarfyrirtæki. Það er Startup Reykjavík og Startup Energy Reykjavík sem fór af stað fyrir tæpum tveimur árum. Stefán Þór segir þau hjá Klak Innovit hafa áttað sig á áhuga Íslendinga á nýsköpun í orkugeiranum og ákveðið að setja sérstakan viðskiptahraðal í gang.
„Við byrjuðum með Startup Reykjavík sem gekk meira út á hugbúnað,“ segir Stefán Þór. „Í kjölfarið áttuðum við okkur á að íslenskir frumkvöðlar væru mjög orkuþenkjandi og þá fór Startup Energy Reykjavík af stað í samstarfi við Landsvirkjun, Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Arion banka.“
Hann segir nýsköpun í orkugeiranum sjálfkrafa hafa jákvæð umhverfisleg áhrif. „Sjálfkrafa þegar maður er að hugsa um orkugeiran á Íslandi, jarðhitann, fallvötnin og allt þetta, þá ertu að hugsa grænt. Þú ert að vinna með hugmyndir sem menga lítið eða ekkert og auka skilvirkni þeirra.“
Mikilvægur þáttur í loftslagsmálum
Á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í París í desember, COP 21, er markmiðið að komast að lagalega bindandi samkomulagi allra þjóða heims um að minnka losun koltvíoxíðs út í andrúmsloftið. Til þess að loftslagsmarkmiðin verði að veruleika er ljóst að gríðarlega mikillar fjárfestingar er þörf í nýsköpun og þróun umhverfisvænnar tækni.
Francois Hollande, forseti Frakklands, gerði þetta til dæmis að umræðuefni sínu í ræðu í lok síðasta mánaðar. Frakkar eru gestkjafar ráðstefnunar og í forsæti hennar þegar hún hefst. „Ef við ætlum að ná árangri í París þurfum ekki aðeins að ráðast í pólitískar skuldbindingar heldur einnig fjárhagslegar,“ sagði Hollande, eins og Kjarninn greindi frá.
Hollande bendir á að varla verið komist að alheimssamkomulagi nema fátækustu þjóðum heims, vanþróuð lönd í Afríku til dæmis, verði gefið tækifæri til að komast hratt og örugglega framhjá leiðum iðnvæðingar. Þróuð iðnríki á Vesturlöndum geta ekki gert ráð fyrir að vanþróuð ríki tileinki sér dýrar tækninýjungar til þess eins að komast yfir mengandi hjalla iðnvæðingar án þess að allir leggist á eitt.
Fjárfesting í nýsköpun er ekki síður mikilvæg til að hraða þróun á vistvænni framleiðslu, ekki síst orkufrekum iðnaði.
Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna styðst við tvö lykilhugtök þegar stefna mannkynsins er mörkuð í þessum málaflokki. Það er mildun (e. mitigation) og aðlögun (e. adaptation). Það er mikilvægt fyrir heiminn að milda áhrif mannkyns á loftslag jarðar en það er einnig ljóst að mannkynið verður að aðlagast breyttum aðstæðum vegna hlýnunar jarðar.
Jón Hjaltalín Magnússon tók við verðlaunum fyrir annað sæti í hugmyndasamkeppninni í Amsterdam.