Umboðsmaður Alþingis hefur sent bréf til Úlfars Lúðvíkssonar, lögreglustjóra á Suðurnesjum, þar sem þess er meðal annars óskað að lögreglustjórinn skýri á hvaða lagagrundvelli sú ákvörðun að banna börnum yngri en 12 ára að ganga upp að eldgosinu í Meradölum sé reist.
Bréfið, sem sent var í gær, er birt á vef umboðsmanns í dag, en tilkynnt var um barnabannið við gosstöðvarnar fyrr í vikunni.
Úlfar lögreglustjóri hefur í samtölum við fjölmiðla sagt að sú ákvörðun að banna börnum undir 12 ára að fara að gosinu hafi verið reist á heimild í lögum um almannavarnir, nánar tiltekið 23. grein almannavarnalaga, eins og haft var eftir honum á vef RÚV.
Einnig hélt Úlfar því til haga, í viðtali við RÚV, að þrátt fyrir að ekki væru refsiákvæði í almannavarnalögunum gæti lögregla beitt einstaklinga sektum sem ekki færu eftir fyrirmælum lögreglu.
„Ég tel mig hafa haft heimild til þess að gera það sem ég gerði, ákvörðun lögreglustjóra stendur,“ sagði Úlfar við RÚV í gær.
Ákvörðunin hefur verið umdeild og sumir foreldrar barna undir 12 ára aldri gagnrýnt bannið – og telja að það eigi að vera í höndum foreldra að meta hvort börn undir 12 ára eigi erindi upp að gosinu eða ekki.
Allmörg dæmi eru þó um að fólk, sér í lagi erlendir ferðamenn, hafi verið með börn á ferð við gosstöðvarnar sem ekki hafa neitt í krefjandi göngu að gera, jafnvel við erfiðar veðuraðstæður.
Auk þess að spyrja út í lagagrundvöll ákvörðunar lögreglustjórans vill umboðsmaður fá að vita hvaða gögn, upplýsingar og röksemdir lágu til grundvallar því mati að rétt væri að takmarka aðgengi barna yngri en 12 ára að svæðinu í Meradölum.
Þá vill umboðsmaður fá að vita hvort og hvenær ákvörðunin tók gildi og hvort henni hafi verið markaður sérstakur gildistími og einnig með hvaða hætti lögreglustjórinn hafi kynnt almenningi ákvörðun sína eða hvort hann hyggist gera slíkt.
Umboðsmaður óskar þess að svar berist frá lögreglustjóra eigi síður en 17. ágúst.