Umboðsmaður Alþingis hefur sent Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra og Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra sitthvort bréfið vegna lekamálsins. Bréfið til Sigmundar Davíðs er vegna siðareglna ráðherra. Hitt bréfið er sent til innanríkisráðherra vegna þess að umboðsmanni finnst svör Hönnu Birnu við spurningum sem hann sendi henni í síðustu viku ekki fullnægjandi. Hanna Birna hefur til 15. ágúst að svara bréfinu. Í því bréfi segir m.a.:
„Ítrekuð er ósk um að umboðsmanni verði afhent þau gögn sem til eru um þessa fundi, gögn sem lögð voru fram eða stuðst við á þessum fundum, þ.m.t. um fundarefni, boðun þeirra og skráningu frá fundunum. Minnt skal á að samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er stjórnvöldum skylt að afhenda umboðsmanni umbeðin gögn og um meðferð þeirra og þagnarskyldu fer eftir 8. gr. sömu laga.
[...]
Í svarinu kemur fram að ráðherra hafi átt fjóra fundi með lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu á tímabilinu frá því rannsókn sú sem vísað er til í bréfinu hófst í febrúar sl. Ítrekuð er ósk umboðsmanns að upplýst verði hvenær þessir fundir fóru fram.
[...]
Með tilliti til þess sem fram kemur í svarbréfinu er óskað eftir að umboðsmanni verði afhent afrit af þeim gagna- og rannsóknarbeiðnum lögreglu sem beint var til innanríkisráðuneytisins eftir að áðurnefnd rannsókn hófst í febrúar sl. Jafnframt er óskað eftir að upplýst verði hvenær einstökum beiðnum var svarað af hálfu ráðuneytisins og umbeðin gögn látin í té. Tekið er fram að ekki er óskað eftir afriti af þeim gögnum sem ráðuneytið kann að hafa afhent lögreglunni.
[...]
Reglur um skráningu formlegra samskipta í Stjórnarráði Íslands voru settar af forsætisráðherra hinn 20. desember 2013 á grundvelli 2. mgr. 11. gr. laga nr. 115/2011, um Stjórnarráð Íslands. Reglur þessar eru nr. 1200/2013 og voru birtar í B-deild Stjórnartíðinda sem kom út 30. desember 2013 og öðluðust þegar gildi. Í reglunum er kveðið á um að skrá skuli í málaskrá ráðuneytis formleg samskipti og formlega fundi milli ráðuneyta og við aðila utan stjórnarráðsins. Í 3. og 4. tölul. 1. gr. er fjallað um samtöl og fundi. Í ljósi þess sem fram kemur í svari yðar, fr. innanríkisráðherra, um það hvað hafi borið á góma í samskiptum yðar við lögreglustjórann og um upplýsingaöflun lögreglunnar frá ráðuneytinu óskar umboðsmaður eftir að hann verði upplýstur um hvað af þessum samskiptum, þ.e. fundir og símtöl, hafi verið skráð í samræmi við reglur nr. 1200/2013 og ef það var ekki gert hverjar hafi verið ástæður þess."
Lestu bæði bréfin í heild sinni
hér.